08.04.1967
Efri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

178. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hér er á ferðinni lítið frv., sem ég vona, að geti fengið skjóta afgreiðslu í þinginu.

Það hafa, eins og segir í grg., orðið miklar breytingar á atvinnuháttum landsins síðan lög um öryggisráðstafanir á vinnustöðum tóku gildi 1952, og einkum og sér í lagi er það einkennandi, að stórvirkar vinnuvélar leysa nú í æ ríkari mæli hin ótal mörgu verkefni, sem að kalla, og fer notkun þeirra sífellt vaxandi.

Það hefur verið lengi í deiglunni að setja reglugerð um réttindi manna til vinnu og meðferðar vinnuvéla, en málið hefur strandað á því, að lagaheimild hefur verið talið vanta. Með samkomulagi dags. 10. nóv. 1965 samþykktu verkamannafélagið Dagsbrún og Vinnuveitendasamband Íslands m. a. að skipa samstarfsnefnd tveggja manna frá hvorum aðila, sem skyldi hafa það verkefni að semja reglur um nánari starfstilhögun og nýtingu tækja og öryggi starfsmanna. Jafnframt skyldi það vera verkefni n. að beita sér fyrir, að sett yrði hið fyrsta reglugerð um réttindi til handa stjórnendum stórvirkra vinnuvéla, enn fremur að vinna að því að koma á fót námskeiðum fyrir stjórnendur vinnuvéla, sem miðist við tvö stig réttinda. Frv. þetta er nú borið fram vegna eindreginna tilmæla fyrrnefndra samningsaðila, verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Vinnuveitendasambands Íslands, og þar sem talin er þörf þessarar lagaheimildar til að setja þær reglur, sem unnið hefur verið að, eins og ég áðan gerði grein fyrir, er þetta frv. fram borið og á. m. k: til að taka af öll tvímæli um það, að ráðherra hafi heimild til að setja þessa reglugerð. Ég vil þess vegna leyfa mér að vænta þess, að um þetta mál verði enginn ágreiningur og það geti fengið skjóta afgreiðslu í gegnum þingið, þó að nú sé komið að síðustu dögum þess.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað, að lokinni þessari umr., til 2. umr. og sennilega til iðnn. þessarar deildar.