14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

1. mál, fjárlög 1967

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Á þskj. 137 flyt ég eina brtt. Hún er þess efnis, að fjárveiting til áfengisvarnaráðs verði hækkuð um 1 millj., úr 1.8 millj. í 2.8 millj., og að 1 millj. eða allt að einni millj. kr. verði varið til rannsóknastöðvar áfengismála, er stofnsett skuli á árinu 1967.

Ég þarf ekki að hafa langt mál um þessa till., ég get látið nægja að vísa til álitsgerðar áfengismálanefndar Alþingis, en sú nefnd var kjörin af Alþingi 1964, skipuð alþm. allra flokka og skilaði áliti nú á þessu ári. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa aðeins örlítinn kafla úr álitsgerð nefndarinnar, þar sem segir m.a.:

„Nefndin vill þó taka það skýrt fram, að hér er um mjög víðtækt verkefni að ræða, þ.e.a.s. rannsókn ástandsins í landinu í áfengismálum, og útilokað með öllu, að því verði gerð tæmandi skil á stuttum tíma við ófullkomnar rannsóknaraðstæður. Nefndin hefur ekki haft neina aðstöðu til að láta fram fara þær víðtæku félags- og læknisfræðilegu rannsóknir, sem eru undirstaða þess, að verkefni sem þessu verði gerð fullnaðarskil. Verður grundvallarrannsókn af því tagi að bíða betri tíma. Í þessu sambandi er einnig vert að geta þess, að félagslegar rannsóknir eru almennt mjög skammt á veg komnar hér á landi. Gjalda áfengismálin þess eigi síður en mörg önnur þjóðfélagsmál. Nefndin hefur m.a. orðið þess áskynja, að tölfræðileg og önnur úrvinnsla heimildargagna, sem geymd eru hjá embættum og stofnunum, er víðast mjög ófullkomin, og verður ekki úr bætt nema með sérstöku átaki. Æskilegar upplýsingar um eitt og annað liggja því síður en svo á lausu, og hlýtur nefndarskýrsla þessi að bera keim af því.“

Þetta segir almennt um þetta málsatriði í álitsgerð áfengismálanefndar, en það er fyrsta tili. eða ábending áfengismálanefndar, sem einmitt fjallar um það efni, sem till. mín snertir. Þar segir, með leyfi .hæstv. forseta:

„Ábendingar nefndarinnar í því efni eru þessar: Efna þarf til víðtækra vísindalegra áfengisrannsókna hér á landi, bæði félagslegra og læknisfræðilegra. Kanna skal möguleika á samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina um slíkar rannsóknir. Telur nefndin rétt, að komið verði á fót sérstakri rannsóknarstofnun í áfengismálum og verði nú þegar valdir sérfróðir menn til þess að gera till. um skipulag slíkrar stofnunar.“

Þetta er sem sagt fyrsta ábending áfengismálanefndar Alþingis, og ég flyt till. um örlitla fjárveitingu í þessu skyni, um, að á árinu 1967 verði varið allt að 1 millj. kr. til þess að undirbúa og koma þessari rannsóknastöð á laggirnar. Ég get ekki hugsað mér, að það sé unnt án þess að hafa eitthvert fé tiltækt. Hér er um mjög merkt atriði að ræða, sem ég veit, að hv. alþm. skilja, og það er ekki nóg, að þm. geri till., ef ekki á að vera um leið gert mögulegt, að tili. komist í framkvæmd. Mér eru það mikil vonbrigði, að hæstv. fjmrh., sem einmitt var formaður áfengismálanefndar Alþingis, skyldi ekki ætla í fjárlögunum nú eitthvert fé til þessa.