14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

1. mál, fjárlög 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja hér nokkur orð í sambandi við þær umr., sem fram hafa farið. Þær umr. hafa allar að vísu verið mjög hófsamlegar og gefa því ekki tilefni til langra orðaskipta, enda hef ég ekki tilhneigingu til þess að lengja þessar umr. En það voru þó viss atriði, sem eru þess eðlis, að ég tel nauðsynlegt að taka þau til nokkurrar athugunar, og skal ég þá fyrst víkja að ýmsum einstökum atriðum, sem rætt hefur verið um, einkanlega í framsöguræðum hv. frsm. minni hl. nefndarinnar.

Þeir hafa báðir rætt hér allmjög framlög til skólamála, og get ég tekið undir það, sem þeir sögðu um það efni, að hér er um einn mesta vanda okkar að ræða í opinberum framkvæmdum. Ég vék að því mjög rækilega í fjárlagaræðunni í haust, að það væri nauðsynlegt að gera sérstök átök í þessu efni, ekki aðeins að fá auknar fjárveitingar til skólabygginga, heldur ekki síður að láta fara fram rækilegar rannsóknir á því, hvernig auðið væri að leysa þessi skólabyggingamál með ódýrari hætti. Það sjá auðvitað allir, að þegar 2–3 sveitarfélög eru að reisa skóla, sem kosta 30–50 millj. kr., er það slík geysileg byrði, að það auðvitað er hin brýnasta nauðsyn að reyna að kanna það mál ofan í kjölinn og leitast við að finna úrræði, sem gæti orðið til lausnar þeim vanda. Að þessu hefur verið unnið nú um alllangt skeið, og kemur auðvitað í ljós, að við margvíslega örðugleika er að stríða. En engu að síður verður að ljúka þeim athugunum, og þess er mjög að vænta, að á því finnist einhver lausn, sem geti stuðlað að ódýrari skólabyggingum, og tel ég, að það þurfi þá sérstaklega að taka til athugunar að byggja skóla meira sem „standard“-húsnæði og jafnvel að kaupa tilbúin hús, sem gætu lagt grundvöll að því, að hægt væri að ná niður þessum mikla kostnaði.

Það var einnig að því vikið, sem er rétt, að undirbúningur skólabygginga hefur verið mjög ófullkominn. Það var sagt hér, að það hefðu safnazt fyrir háar skuldbindingar, sem mundi vera vísað til framtíðarinnar, eins og það var orðað. Þetta er rétt að vissu leyti, en það held ég, að sé óhætt að segja, að það hefur ekki stafað af því, að ekki hefur verið fylgt fram ákvæðum laga um þetta efni, heldur er orsökin fyrst og fremst sú, hversu áætlanir hafa verið illa undirbúnar, og svo hins vegar, að verðhækkanir hafa orðið miklar á byggingartímabilinu. Þetta hefur verið greitt eftir föstum reglum, og frá þeim reglum hefur ekkert verið horfið, en vandinn auðvitað fer vaxandi ár frá ári, eftir því sem þeim skólabyggingum fjölgar, sem ekki er búið að ljúka greiðslu kostnaðar við. Þó að hér sé nú um meiri upphæð að ræða en áður, sem þannig bíður, brýtur það ekkert í bága við þær reglur, sem fylgt hefur verið, og ég efast um, að bagginn af þeim fjárhæðum sé nokkuð þyngri hlutfallslega en hann hefur áður verið. En ég skal fúslega taka undir það, að þetta þarf allt athugunar við frá mörgum hliðum og fyrst og fremst, að ég tel, frá þeirri hlið, að kannað verði, hvort ekki sé auðið að koma niður þessum mikla kostnaði við skólabyggingar.

Það var minnzt hér á vatnsveitumál Vestmannaeyja og fundið að því, að ekki kæmi fram frá fjvn., að tiltekin fjárhæð ætti að renna til þeirrar vatnsveitu. Það er ekki eðlilegt, að það komi fram, vegna þess að vatnsveita þessi og aðstoð við hana fer eftir gildandi lögum. Þeir Vestmanneyingar hafa undirbúið þetta mál mjög vel, og Efnahagsstofnunin hefur unnið með þeim í því, margvíslegar athuganir verið gerðar á rekstrargrundvelli þessa fyrirtækis og stofnkostnaði þess, og leitað hefur verið aðstoðar ríkisins með venjulegum hætti, annars vegar með ríkisábyrgð, sem þegar hefur verið samþ. að veita, og hins vegar að fá vatnsveitu þessa viðurkennda styrkhæfa. Þetta hefur verið gert, og það má gjarnan koma fram, að það er gert ráð fyrir, að vatnsveitan fái á næsta ári 3 millj. kr. upp í þann væntanlega styrk, sem veittur verður til hennar, og það verði staðfest frá félmrn., að vatnsveitan sé viðurkennd sem styrkhæf. Það, sem hér er um að ræða, er nægileg lausn á þessu máli í bili. Það hafa verið gerðar rækilegar athuganir á fjáröflun, og áætlanir eru uppi um það, og það liggur ljóst fyrir, að ef tekst að leysa það eftir þeim leiðum, sem þar er rætt um, er hægt að koma þessu mikla og mikilvæga mannvirki áleiðis með eðlilegum hætti. Við getum auðvitað alltaf deilt um það, hverjar fjárhæðir eigi að nefna í þessu efni, og það er auðvitað ekki nýtt, þó að maður sjái háar tölur og gerðar till. um það að gera meira en talið er fært að gera í bili. Út í þá sálma skal ég ekki fara, en aðeins benda á það, að ég tel með öllu útilokað að fara þá leið að gefa eftir tolla af efnivörum til þessarar vatnsveitu, því að það er þá vitanlega fordæmi, sem er gefið um allar vatnsveitur í landinu, og er ekki hægt að takmarka það við þessa vatnsveitu eina, því að þótt hér sé vissulega um mjög mikið og merkilegt mannvirki að ræða og sérstakt, skulum við ekki gleyma því engu að síður, að það eru ýmis sveitarfélög önnur, sem hafa lagt í mjög dýrar vatnsveitur á sinn mælikvarða, og ég efast um, að þau hafi sum meira bolmagn að þessu leyti heldur en Vestmanneyingar. En ég vonast til, að það, sem gert hefur verið í þessu efni, leysi með víðunandi hætti þetta vandamál Vestmanneyinga, og að sjálfsögðu verður staðið við bak þeirra um það að greiða fyrir þeim fjáröflunum, sem nauðsynlegar eru til greiðslu stofnkostnaðarins.

Hér var vikið að því, að það væri við mikinn vanda að glíma hjá sjúkrahúsunum, og það er vissulega rétt. Vaxandi tilkostnaður hefur lent með miklum þunga á þeim. Það var í haust samþ. daggjaldahækkun, 50 kr., og þá hafði verið ákveðið, að daggjaldahækkun, 100 kr., tæki gildi nú um næstu áramót. Og þetta var talið óumflýjanlegt til þess að leysa vandamál héraðssjúkrahúsanna. Svo sem ég gat um í fjárlagaræðunni, eykur þetta vanda ríkissjúkrahúsanna eða ríkisins í heild, vegna þess að tilkostnaðurinn við slíka daggjaldahækkun er, þegar allt kemur til alls, miklu meiri fyrir ríkið heldur en svarar tekjuauka ríkisspítalanna. En hér er vitanlega um höfuðvandamál að ræða fyrir sjúkrahús héraðanna. Það var á það bent hér áðan, að þessi hækkun bryti í bága við þá verðstöðvun, sem nú hefur verið ákveðin, en það er að sjálfsögðu mál, sem verður að taka til sérstakrar athugunar. Þessa áætlun um hækkun var búið að gera fyrir löngu, og það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv., þeim útgjöldum, sem leiðir af hækkuninni af ríkisins hálfu, og eins og minnzt var á hér áðan, hlýtur það auðvitað að auka mjög stórlega vanda sjúkrahúsanna, ef það ætti nú að stöðva þessa hækkun til þeirra. Þetta er hins vegar mál, sem verður að taka til sérstakrar athugunar, en hefur, eins og ég sagði áðan, ekki áhrif á fjárl. sem slík, þar sem það er gert ráð fyrir því í áætlun þeirra, að þessi hækkun verði framkvæmd. Það hefur jafnframt verið gert ráð fyrir því í áætlunum um vísitöluhækkanir, hvaða áhrif þessi hækkun daggjalda hefði í því sambandi, þannig að það hefur að öllu leyti verið gengið út frá þessu atriði, að það kæmi til framkvæmda.

Það var á það lögð nokkur áherzla af frsm. hv. 1. minni hl., að þessi fjárlög sýndu það, að ekki yrði um neina verðstöðvun að ræða, vegna þess að þau byggðust á áframhaldandi verðbólgu. Þetta er misskilningur. Fjárl. hækka vitanlega mjög mikið frá fjárl. þessa árs, enda þótt útgjöld ríkisins raunverulega hækki ekki eins mikið og munurinn er á fjárl. og fjárlagafrv., eins og það lítur nú út, vegna þess að síðar hafa komið til á þessu ári, sem nú er að liða; margar af þeim hækkunum, sem við stöndum andspænis fyrir eitt ár í fjárl. ársins 1967. Það hefur hins vegar gerzt, að þróunin þetta ár og hin stóraukna viðskiptavelta í landinu, sem leitt hefur af mjög batnandi hag almennings á þessu ári, hefur leitt af sér stórauknar tekjur fyrir ríkíssjóð, vegna þess að tekjuaukinn er fyrst og fremst af aðflutningsgjöldum, af beinum sköttum og af söluskatti, þannig að það hefur ekki komið til og er ekki heldur gert ráð fyrir neinum nýjum sköttum, þannig að þessi tekjuöflun, sem hér er um að ræða, hefur byggzt algerlega á hinni auknu veltu. Það hefur svo auðvitað komið á móti þessu stórfelldur útgjaldaauki, sem stafar frá árinu í ár, því verða menn að gera sér grein fyrir, en er ekki til kominn vegna þeirrar þróunar, sem menn gera ráð fyrir á næsta ári. Það er gengið út frá, að þá komi ekki til frekari útgjaldaauka, sem m.a. kemur fram í því, að það er lagt til að fella niður þær 108 millj., sem áætlaðar voru á 19. gr. fjárlagafrv. til þess að mæta launahækkunum, þar eð gengið er út frá því, að væntanlegar stöðvunaraðgerðir leiði til þess, að um kauphækkanir verði ekki að ræða eða hækkanir á öðrum tilkostnaði. Þetta hefur tekizt að gera án þess að byggja upp á nýrri verðbólguþróun.

Hv. frsm. 1. minni hl. sagði, að það væri sýnilegt, að gert væri ráð fyrir, að veltan eða tekjur ríkissjóðs á næsta ári yxu um allt að 500 millj. kr., og það gæti auðvitað ekki orðið, nema það væri gengið hreinlega út frá stórvaxandi verðbólgu eða fjárl. væru algerlega röng. Ég er honum algerlega sammála um, það, að ef þetta væri svo, gæti það ekki komið til, nema áframhald yrði á hækkunum eins og á þessu ári. En þetta er hins vegar misskilningur. Það er gert ráð fyrir því í þeim áætlunum, sem fyrir liggja, að hækkunin frá árinu 1966 til 1967 varðandi tekjur ríkisins verði ekki nema um 200 millj. kr. samkv. þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið af Efnahagsstofnun og Seðlabanka nú fyrir mánuði. Hvort þetta stenzt, getum við auðvitað ekki nákvæmlega um sagt. Það getur munað töluverðum fjárhæðum til eða frá, og vissulega er það svo, að það er teflt hér á yztu nöf. Það er gengið hér út frá því, að sú þróun, sem er nú á þessu ári, haldi áfram næsta ár. En það er miðað við þær tekjur, sem menn hafa nú. Það er ekki miðað við, að víðskiptavelta vaxi neitt að ráði. Það er gert ráð fyrir sama innflutningi og á árinu í ár, og þar af leiðandi er ekki byggt á því, að áfram haldi aukin velta að þessu leyti, heldur að sama ástand ríki. Það getur hins vegar vel verið, að það sé bjartsýni að gera ráð fyrir, að sami innflutningur geti orðið, og mismunandi samsetningur innflutningsins getur auðvitað valdið því, að það verði minni tekjur, sem fram koma, en ella. Þetta er auðvitað vandi, sem við stöndum alltaf andspænis, þegar um áætlun tekna ríkisins er að ræða, og það, sem við verðum að gæta að, þegar við afgreiðum fjárlög, er að áætla ekki vísvitandi rangt. Það er ég hv. talsmönnum minni hl. n. algerlega sammála um. En þessar tekjuáætlanir eru sem sagt byggðar á sama ástandi og nú er. Menn mega ekki miða við það, sem gert er ráð fyrir í fjárl. ársins í ár, vegna þess að þau eru ekki raunhæf, þar eð hin raunverulega þróun hefur orðið með allt öðrum hætti.

Hv. frsm. 1. minni hl. sagði, að í rauninni væru viss atriði í fjárl. eða viss útgjöld falin, þannig að það væri ekki gert ráð fyrir þeim, og benti á, að ekki væri ætlað fyrir niðurgreiðslum nema 10 mánuði ársins. Í þeim orðum hans gætti misskilnings að því leyti, að hann gekk út frá því, að því er mér skildist, að það væri ekki til fé til að greiða niðurgreiðslur nema 10 mánuði miðað við alla niðurgreiðslufjárhæðina. Þetta er misskilningur. Það er ætlað allt árið fé til þess að greiða allar þær niðurgreiðslur, sem voru í gildi þar til nú í haust. Það eru aðeins þær auknu niðurgreiðslur, sem voru ákveðnar í samræmi við verðstöðvunarákvarðanirnar, sem eru áætlaðar í fjárl. til þess tíma, sem verðstöðvunarlögin eiga að gilda. Það er í rauninni ekkert eðlilegt við það að gera ráð fyrir tekjuöflun lengur en lög eiga að gilda hverju sinni. Það má hins vegar segja og spyrja: Hvernig á þá að fara að því? Á að láta vísitöluna þá hækka? Það skal ég ekkert um segja heldur. Það auðvitað verður að miðast við það ástand, sem ríkjandi verður næsta haust. Og það er einnig misskilningur hjá hv. þm., að ef yrði hætt þessum niðurgreiðslum, sem nú hafa verið ákveðnar, hækkaði það vísitöluna um 25 stig. Það eru allar niðurgreiðslurnar. Þær niðurgreiðslur, sem hafa verið ákveðnar á þessu hausti, munu nema 10–11 stigum. Hvað kann að verða gert, þegar þessi lög falla úr gildi næsta haust, skal ég ekkert um segja. Það er hins vegar ljóst varðandi þá peninga, sem vantar þá tvo mánuði ársins, ef það yrði niðurstaðan hjá þeim, sem þá fara með völdin, hverjir sem það verða, að halda áfram óbreyttri stefnu í þessu efni og samkomulag næst um það næsta haust við alla aðila, sem geti lagt grundvöll að því, að hægt verði að halda þeirri viðleitni áfram, þá er það vissulega engum vanda bundið að brúa það bil, sem þessir tveir mánuðir ársins gera kröfu til eða mynda. Það munu vera samtals tæpar 50 millj. kr., sem þar er um að ræða, og er ekki nema 1% af útgjöldum fjárl. Nú getum við auðvitað ekkert um það sagt í dag, hvort tekjurnar kunni að leyfa það að standa undir þessum 50 millj. kr. niðurgreiðslum til áramóta þá eða ekki, hvort þær kunni að fara fram úr áætlun, þær geta eins orðið undir áætlun, það vitum við ekkert um. En miðað við fjárl., eins og þau eru í dag, og það er raunar það eina, sem við höfum við að miða, vantar um 50 millj. kr., og það mun verða séð til þess, að miðað við óbreyttar aðstæður, sem nú eru, og horfur verði geymt það fé af greiðsluafgangi ríkissjóðs á þessu ári, að ef fé muni skorta næsta haust til þess að greiða þessar niðurgreiðslur til ársloka, verði hægt að gera það, þannig að það er fullkomlega raunhæft að gera ráð fyrir, að þetta sé hægt að gera, og það muni ekki skorta fé til þess.

Það er rétt hjá hv. þm., að það vantar framlag til Alþjóðabankans, 10 millj. kr., í frv. Það eru mistök, sem urðu bæði í fjárl. ársins í ár og í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, hreinlega vegna þess að við undirbúning frv. var þetta ekki athugað og kom í ljós fyrir mjög skömmu. Þetta að sjálfsögðu verður að reyna að leysa með samningum við Seðlabankann, sem hefur annazt þessar greiðslur, og ætti ekki að þurfa að koma að sök.

Varðandi það atriði, að það sé, eins og var orðað, leikinn sami leikur og árið 1959 varðandi viss útgjöld, sem sé þannig verið að fela, eru það tveir liðir, sem um er að ræða: Annars vegar framlagið til framleiðnisjóðs landbúnaðarins, sem kom til nú á þessu hausti, 30 millj. kr., 20 millj., sem eiga að greiðast nú fyrir áramótin og að sjálfsögðu er eðlilegt, að verði greiddar af fjárlögum þessa árs, og svo framlag vegna aðstoðar við bændur á kalsvæðunum frá árinu 1965, sem er vissulega einnig eðlilegt, að verði greitt af tekjum ríkissjóðs á yfirstandandi ári, þannig að það er aðeins þá um einar 10 millj. að ræða, sem kann að mega deila um, hvort hafi átt að greiðast með þessum hætti eða af tekjum næsta árs, og sjá auðvitað allir, að þarna er um tölu að ræða, er ekki skiptir nokkru máli, hvorki til né frá.

Það var sagt, að með þessum fjárl. væri verið að skjóta á frest mörgum óleystum þörfum. Það er vissulega svo, að það er skotið á frest mörgum óleystum þörfum. Það get ég fúslega fallizt á. En muna hv. þm. eftir því, að það hafi nokkurn tíma gerzt, að fjárlög hafi verið afgreidd, án þess að það hafi verið óteljandi þarfir, sem ekki hafi verið hægt að sinna og hafi orðið að bíða? Og ég er ósköp hræddur um, að það verði svo alla tíð.

Varðandi það, að núv. ríkisstj. hafi haft til meðferðar 19 milljarða, skal ég nú ekki út í þá sálma fara. Það er vafalaust rétt reiknað hjá hv. frsm. 1. minni hl. Hann er töluglöggur maður, og vitanlega er þetta geysileg upphæð. Það, sem máli skiptir nú í þessu efni og auðvitað hann og allir vita, er að gera sér grein fyrir því, hvernig viðhorfin hafa verið hverju sinni, og tölurnar einar segja ekki mikið. Þegar allt kemur til alls, þó að megi deila um, hvort það hafi verið einhverjar fjárhæðir, sem hafi mátt spara, tel ég ekki miklar líkur til, að það hefði orðið samkomulag um það hér á hinu háa Alþ. að spara ríkissjóði nokkrar teljandi fjárhæðir í þessu efni, þannig að þessir 19 milljarðar eru það, sem við höfum staðið andspænis að þurfa að mæta af ríkisins hálfu þessi árin, eða hvort sem það eru 19 milljarðar eða 30 milljarðar, það er aukaatriði í því efni, því að það, sem skiptir meginmáli, er, að ríkið verður að standa undir þeim skuldbindingum og kvöðum, sem á það eru lagðar og hafa verið lagðar af löggjafanum, og mæta þeirri þróun efnahagsmála, sem er hverju sinni. Við getum sagt, að sú þróun hafi ekki verið góð. Það er allt annað mál. Við getum um það deilt á öllum tímum, hvort þróun er æskileg eða ekki æskileg, og sýnist þá víst sitt hverjum um það eftir því, hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Og það er nú einnig svo núna, að því fer víðs fjarri, að við, sem með stjórnina förum, séum ánægðir með þá þróun alla og sízt af öllu ánægðir með þá verðbólguþróun, sem verið hefur. Þetta er hins vegar það, sem í kjölfar þeirrar þróunar hefur komið, að ríkið hefur orðið að leggja fram þetta fé og það að sjálfsögðu að takast af borgurunum, og þýðir ekki um það að fást.

Ég held svo ekki, herra forseti, að það sé ástæða til þess að ræða frekar um þær till.; sem hér liggja fyrir. Það hefði verið æskilegt að sjálfsögðu að geta mætt ýmsum þeim óskum, sem hér hafa verið fram settar. Ég hygg hins vegar, að fjvn. hafi reynt að meta það á mjög raunsæjan hátt, og ég er henni mjög þakklátur fyrir, að hún hefur tekið mjög ábyrga afstöðu til afgreiðslu fjárlagafrv., og eins og sakir standa og hv. þm. sjá, miðað við þann nauma greiðsluafgang, sem er, þá er ekki auðið að ganga til móts við þær óskir aðrar, sem hér hafa verið fram bornar, ef við eigum að afgreiða fjárl. greiðsluhallalaus, og á það legg ég hina mestu áherzlu.