08.04.1967
Efri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í grg. minni til Alþ. um framkvæmdaáætlunina fyrir árið 1967 var skýrt í einstökum atriðum frá áætlun þeirri, bæði hvað fyrirhugað væri að framkvæma og enn fremur, hvernig áformað væri að afla fjár til þeirra framkvæmda.

Skv. áætluninni er gert ráð fyrir, að fjáröflunin verði tvíþætt. Annars vegar verður fjáröflun til framkvæmdasjóða atvinnuveganna eða stofnsjóða þeirra, og er gert ráð fyrir að leysa vanda þeirra með lánum frá Framkvæmdasjóði ríkisins, sem hann annaðhvort veiti sjálfur eða hafi milligöngu um að útvega, og þá gengið út frá því, að samningar geti tekizt við viðskiptabankana um svipaða hlutdeild í lánveitingum til stofnsjóðanna eins og verið hefur. Hins vegar eru svo fjárfestingaráætlanir eða fjárfestingarframkvæmdir á vegum ríkisins sjálfs, og er gert ráð fyrir því, að lána til þeirra verði aflað á vegum ríkisins. Með frv. því, sem hér liggur fyrir hv. Ed., er leitað eftir heimild Alþ. til þess að afla fjár til umræddra framkvæmda, og að sjálfsögðu ber þá um leið að líta á samþykkt þess sem samþykki á þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru skv. þeirri áætlun, sem ég hef gert hinu háa Alþ. grein fyrir.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að afla fjár með útgáfu spariskírteina á svipaðan hátt og gert hefur verið síðustu árin og að auka sölu þeirra úr 100 millj. í 125 millj. kr. Kjör á þessum bréfum hafa ekki enn verið endanlega ákveðin, en gert er ráð fyrir, að þau verði með mjög svipuðum hætti og verið hefur undanfarin ár, og er leitað heimilda til þess í frv. á sama hátt og verið hefur, að kjörin verði með sérstökum hætti, bæði vísitölutryggingu og jafnframt að þau verði undanþegin framtalsskyldu, eins og er um sparifé. Í grg. fyrir frv. er síðan nánar útskýrt, hvernig áformað er að skipta spariskírteinaláninu á milli einstakra framkvæmda, og sé ég ekki ástæðu til að rekja það, en vísa til þeirrar sundurgreiningar, sem er á sérstöku fskj., enda er það raunar bundið í lagafrv. sjálfu, hvernig fénu skuli ráðstafað, þannig að því verður ekki haggað af ríkisstj. umfram það, sem þar er skilgreint, og er það í samræmi við það, sem ég áður gat um, að fé þessu yrði varið til framkvæmda á vegum ríkisins sjálfs, en stofnsjóðirnir yrðu fjármagnaðir með öðrum hætti.

Þá er, eins og undanfarin ár, óskað eftir heimild til að taka lán, sem í ár er gert ráð fyrir að verði allt að 12,5 millj. kr., vegna flugvalla- og vegagerðar á Vestfjörðum, innan ramma Vestfjarðaáætlunarinnar. Hv. þdm. er kunnugt um þá áætlun, og þetta er þriðja árið, sem lán eru tekin í því skyni frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, en heimild skortir til að veita þeim lánum móttöku og ráðstafa þeim, og er því sótt eftir þeim heimildum í 6. gr. þessa frv.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir í 7. gr. að leita heimildar til kaupa á öryggistækjum vegna flugmála, lántöku vegna raforkumála og til landshafna, þar sem þetta eru allt framkvæmdir á vegum ríkisins og nauðsynlegt að afla sérstakra lánsheimilda í þessu skyni.

Í 8. gr. frv. er farið fram á heimild þingsins til þess að mega ráðstafa 53 millj. kr. af greiðsluafgangi ársins 1968 til tiltekinna framkvæmda, annars vegar 25 millj. kr. til vegagerðar, og eru þá hafðar í huga sérstaklega þær framkvæmdir, sem orðið hafa á ýmsum vegum og þó fyrst og fremst brúm vegna náttúruhamfara og sem ekki var að sjálfsögðu hægt að sjá fyrir, þegar vegaáætlun var samin, og fé skortir því til að leysa þann vanda. Þessum málum verða gerð nánari skil af hæstv. samgmrh. í sambandi við endurskoðun vegaáætlunar, þegar hún kemur til meðferðar í Alþingi.

Þar sem talið var kleift að verja nokkru meira fé eða 26 millj. kr. að auki til framkvæmdaáætlunarinnar af greiðsluafgangi, þótti sjálfsagt, að því fé yrði varið til þeirra framkvæmda, sem ríkinu ber beint að kosta og eðlilegt er, að kostaðar séu, eftir því sem tök eru á, með beinum fjárframlögum frá ríkissjóði, en það eru annars vegar skólabyggingar og hins vegar sjúkrahús.

Þá hefur, með fyrirvara um samþykki Alþ., verið leitað eftir kaupum og gerðir bráðabirgðasamningar um kaup á fasteignum hér í miðbænum, þ. e. eignunum nr. 12 við Vonarstræti og Skjaldbreiðareigninni við Kirkjustræti og nokkrum lóðum öðrum, sem henni fylgja, og er það í framhaldi af þeirri ákvörðun Alþ. að heimila að kaupa eignir SÍS, sem heimilað var með fjárlögum fyrir árið 1967, en tilgangslaust er í rauninni að framkvæma þau kaup nema að fá tiltekinn skika hér samfelldan í miðbænum, ef það á að koma að fullum notum, og með hliðsjón af þeirri stefnu, sem þá var mörkuð — og enda var þá gerð grein fyrir því, að það yrðu að fara fram frekari kaup eigna — hefur verið talið rétt að nota tækifæri, sem gefizt hafa, til þess að fá þessar eignir, og er af fróðum mönnum talið, að þetta hafi tekizt með viðhlítandi kjörum, þó að þetta sé að vísu dýrt, þá séu þetta tiltölulega hagstæð kjör miðað við það, sem gerist í þessum efnum.

Þá er loks óskað eftir heimild til að kaupa íbúðarhús á Laugarvatni, eftir eindregnum tilmælum samstjórnar skólanna þar, því að með einhverjum hætti verður að sjá fyrir mötuneyti og ýmsum öðrum þörfum vegna byggingarframkvæmdanna þar eystra.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls og svo sem séð verður af þessari grg. og þessu frv., er gert ráð fyrir að fjármagna hinar opinberu framkvæmdir innan fjáröflunar- og framkvæmdaáætlunar í ár, annars vegar með spariskírteinaláni, hins vegar með PL-480, sem verður nú nokkru minna en á s.l. ári, vegna þess að það eru minni vörukaup frá Bandaríkjunum en á því ári.

Þá er gert ráð fyrir, að einnig sé hægt að verja 25 millj, kr. af enska láninu til framkvæmda. Það eru endurgreiðslur, sem eru hraðari en greiðslur lánsins til lánveitenda og því talið, að endurlána megi það fé. Loks er fyrirhugað, að lagðar verði fram 53 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1966 til framkvæmdaáætlunarinnar og með þessum hætti sé hægt að afla þess fjár samtals, sem gert er ráð fyrir, að þurfi að fá til viðbótar öðrum fjárveitingum, til þess að hægt sé að ráðast í þær framkvæmdir, sem framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir, að unnar verði á þessu ári innan hennar ramma á vegum ríkisins sjálfs.

Ég legg þá til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn. og vildi leyfa mér að beina því til hv. n., að hún leitist við að hraða afgreiðslu málsins eins og frekast er unnt.