13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Við í minni hluta fjhn. gerum, eins og þegar er komið fram í umr. nokkrar brtt. við þetta frv. Ég hefði nú að mestu getað látið nægja að vísa til nál. okkar, ef ekki hefðu þegar komið fram andmæli gegn þessum till., sem ég hlýt að fara um nokkrum orðum.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að út séu gefin á þessu ári til sölu ríkisskuldabréf eða spariskírteini ríkissj. að upphæð 125 millj. kr. Í sambandi við fjáröflunaráætlun ríkisstj., sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir, fyrir nokkrum dögum í Sþ., kom í ljós, að ríkisstj. ætlar sér að gera samninga um það við bankana að knýja bankana til þess að kaupa skuldabréf fyrir 10% sparifjáraukningarinnar, sem gert er ráð fyrir, að verði 70–80 millj. kr. — hæstv. fjmrh. mun hafa nefnt 70. Úr öðrum áttum hef ég heyrt aðeins hærri tölur nefndar, en það skiptir ekki verulegu máli hvort er. Þetta hyggst hæstv, ríkisstj. gera á sama tíma og í gildi eru reglur um bindingu sparifjár í Seðlabanka Íslands, sem nemur 20–30% af sparifjáraukningu. Hér er þess vegna gert ráð fyrir því að taka mjög verulegan hluta af sparifjáraukningu inn í Seðlabankann, inn í skyldulán, sérstaklega þegar að því er gáð, að reynslan hefur verið sú undanfarin ár, þegar út hafa verið boðin þessi ríkisspariskírteini, sem hafa bæði verið með háum vöxtum og vísitölutryggð en ekki skattskyld, að það fé, sem til þeirra kaupa hefur farið, hefur komið að mestu úr sparisjóðum bankanna og úr öðrum innlánsstofnunum. Það er alkunna og þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að lýsa því, að viðskiptabankarnir eiga nú mjög í vök að verjast með að uppfylla það meginhlutverk sitt að skaffa atvinnuvegunum nauðsynlegt rekstrarfé til þess að halda framleiðslu sinni gangandi. Við teljum í minni hluta n., að ekki geti farið saman allt þetta þrennt, sem hér er gert ráð fyrir að gera. Og fyrsta brtt. okkar gerir þess vegna ráð fyrir því, að Seðlabankinn noti ekki á þessu ári heimild sína til sparifjárbindingar af sparifjáraukningu þessa árs.

Við teljum það óhjákvæmilega nauðsyn, að ekki sé gengið lengra í því en þegar er orðið að gera viðskiptabönkunum ókleift að halda framleiðsluatvinnuvegunum í sæmilega eðlilegum rekstri, því að það er alkunna, að rekstrarfjárskorturinn hefur leitt til sívaxandi óhagkvæmni í rekstri. Ýmis rekstrarfyrirtæki hafa orðið að fara ýmsar óæskilegar leiðir og gera ýmsar óæskilegar ráðstafanir af þessum ástæðum.

Önnur brtt. okkar lýtur svo að því, að það skuli vera skylt að telja þessi bréf fram eins og aðrar eignir manna, þó að við höfum ekki neitt við það að athuga, að þau séu ekki skattskyld, þ.e.a.s. að ekki sé greiddur af þeim eignarskattur.

Það kom fram hjá hv. frsm. meiri hlutans hér áðan, að hann hafði einkum tvennt við þetta að athuga, og var hvort tveggja atriði, sem við höfum heyrt áður í slíku sambandi. Annað var það, að þetta mundi torvelda sölu bréfanna. Ég fæ ekki skilið, að þetta geti torveldað sölu bréfanna, nema þá af þeirri ástæðu, að um sé að ræða, að til kaupa á þessum bréfum yrði notað fé, sem skotið hefur verið undan tekjuskatti. Með því að gera bréfin ekki framtalsskyld, þá mundi þeim, sem hafa undir höndum fé, sem ekki hafa verið greiddir af skattar, vera gert auðveldara fyrir að koma því fyrir. Hæstv. fjmrh. hefur á undanförnum árum beitt sér nokkuð fyrir ýmsum virðingarverðum ráðstöfunum til þess að auka skatteftirlit í landinu, og mér virðist það ekki geta orkað tvímælis, að þeim mun fleiri möguleikar, sem eru skapaðir til þess að skjóta fé undan og koma fé fyrir, sem ekki hefur verið talið fram til skatts, þeim mun frekar hlýtur sú viðleitni að torveldast. Að því viljum við ekki eiga hlut. Við viljum styðja skynsamlega viðleitni í þá átt að efla skatteftirlit í landinu, en ekki brjóta það niður með ráðstöfunum af þessu tagi. Auk þess er það skoðun mín, að þau kjör, sem hafa verið á þessum bréfum — og ég geri ráð fyrir, að kjörin á þeim bréfum, sem nú verða boðin út, verði í einhverju samræmi við það, sem verið hefur, ekki kannske nákvæmlega þau sömu, um það skal ég ekki segja, en ég geri ráð fyrir, að þau verði eigi að síður hagstæð eins og verið hefur — séu þannig, að ég held ekki, að hv. frsm. þurfi að bera mjög mikinn kvíðboga fyrir því, að þessi bréf seljist ekki. Ég man ekki betur en að það hafi verið frá því skýrt í blaðafregnum og við ýmis tækifæri, að þessi bréf, sem boðin hafa verið út á undanförnum árum, hafi runnið út á svipstundu, og það er í sjálfu sér heldur ekkert að undra, þó að sparifjáreigendur, sem orðið hafa fyrir barðinu á vaxandi verðbólgu árum saman, þiggi það að koma peningum sínum fyrir í bréfum, sem bera hvort tveggja í senn, nokkuð háa vexti og verðtryggingu.

Hitt atriðið, sem hv. frsm. meiri hlutans hafði við þetta að athuga, var það, að það þýddi ekki að hafa ákvæði um skyldur, nema jafnframt væru sett ákvæði um viðurlög við að uppfylla ekki þær skyldur. Við þetta er nú tvennt að athuga.

Í fyrsta lagi það, að skattstjórar eða skattyfirvöld hafa almennar heimildir til þess að áætla á menn, sem staðnir eru að röngum framtölum, og mér er ekki kunnugt um, að það sé neitt skilyrði fyrir slíku, að hið ranga framtal hafi raunverulega haft áhrif á skattgreiðsluna.

Í öðru lagi eru nú sem betur fer æði margir af þegnum þessa lands, sem enn, þrátt fyrir það siðferði, sem farið er að tíðkast hér í sívaxandi mæli, hafa þó þann hugsunarhátt, að þeir vilja uppfylla lög og reglur og gera það með glöðu geði.

Það er þess vegna enginn vafi á því, að reglur geta haft mikil áhrif til góðs, þó að ekki sé beinlínis beitt viðurlögum, þó að ekki séu beinlínis ákveðin viðurlög við að brjóta þær.

Nú, í þriðja lagi vildi ég svo í sambandi við þetta segja, að ég er reiðubúinn til þess, ef þessi mótbára ræður úrslitum um afstöðu hv. þm. til þessarar brtt., að ræða við hann um að gera við 3. umr. brtt. um það, sem við getum orðið ásáttir um, að væru hæfileg viðurlög við slíku broti.

Þriðja brtt. hjá okkur í minni hluta gerir ráð fyrir því að auka töluvert ráðstöfun á greiðsluafgangi ársins 1966. Hæstv. fjmrh. mun hafa látið svo um mælt, að greiðsluafganginum, sem hann hefur talið nema 474 millj. kr., sé að fullu ráðstafað með þeim 53 millj., sem 8, gr. þessa frv. felur í sér. Hann hefur gert grein fyrir þessu á þann hátt, að 140 millj. hafi nú verið ráðstafað til verðjöfnunarsjóðs fyrir frystiiðnaðinn og 30 millj. til landbúnaðarhagræðingarsjóðs og 3 millj. vegna kals og að 247 millj. verði ráðstafað til þess að greiða niður skuld í Seðlabanka Íslands, og svo að meðtöldum þessum 53 millj. kr. virðist mér, að þetta dæmi gangi upp, en þar að auki hefur hæstv. fjmrh, nefnt 20 millj. í sambandi við togara, ef ég man rétt.

Við í minni hlutanum erum þeirrar skoðunar, að fjárveitingavaldið, hv. Alþ., eigi að taka afstöðu til þess, hvernig greiðsluafganginum er ráðstafað, og það hefur það ekki gert nema að litlu leyti. Við erum enn fremur þeirrar skoðunar, að þá skuld í Seðlabankanum, sem stofnað var til með umframeyðslu áranna 1964 og 65, sé ekki eðlilegt að greiða með umframskattlagningu á einu ári. Við lítum svo á, að þar sem nú er búið að taka þetta fé af þjóðfélagsþegnunum, þá sé eðlilegt, að því verði ráðstafað á ýmsan hátt eða einhverjum hluta þess a.m.k. þeim til hagsbóta, einmitt til þess að greiða fyrir og jafna þann skakka, sem orðinn er á opinberum þjónustuframkvæmdum, m. a. vegna niðurskurðar þeirra á undanförnum árum.

Það er einnig á það að líta, að ríkissjóður skuldar fleirum en Seðlabankanum. Hv. frsm. meiri hluta fjhn. var sammála mér um það, að skuldin í Seðlabankanum væri óreiðuskuld, enda var orðalagið frá honum komið. Hann hafði notað það í fjhn., en hann var hins vegar ósammála mér um það, að skuldahalarnir vegna lögboðinna framlaga ríkisins til ýmissa verklegra framkvæmda væru óreiðuskuldir. Nú er það auðvitað álitamál, hvernig nota beri slíkt orðalag, og ekki skal ég út af fyrir sig fara að deila við hv. frsm. fjhn. um það, hvort þetta orð sé hentugt í þessu sambandi, en hitt er alveg ljóst, að ríkissjóður á eftir að greiða hlut sinn í opinberum framkvæmdum víðs vegar um land, sem þó er lögboðinn, og þetta kemur fyrst og fremst niður á sveitarfélögunum, sem ekki hafa verið ofhaldin í seinni tíð, því það eru ekki nema nokkrar vikur síðan teknar voru af þeim 20 millj., sem þau áttu rétt á skv. lögum til þess að hjálpa til að greiða verðbólgukostnað hjá útgerðinni.

Við teljum þess vegna eðlilegra, að það sé reynt að gera nokkur skil á báðum þessum vígstöðvum og leggjum því til, að tæplega helmingur af þeirri greiðslu, sem hæstv. fjmrh. hefur hugsað sér, að fari til Seðlabankans, fari til þessara þarfa. Hv. frsm. meiri hlutans kallaði þetta að taka féð úr Seðlabankanum. Þetta fé var tekið úr Seðlabankanum 1964 og 1965. Spurningin er um það núna, hvort eigi að greiða það allt aftur eða hluta þess, og spurningin er raunar fyrst og fremst um það, við hvaða aðila ríkissjóður á að meta meira að standa í skilum eða hvort gera á nokkur skil hjá báðum, og við teljum það eðlilegustu leiðina.

Í sambandi við þriðju brtt. vil ég aðeins geta þess, að við höfum hækkað framlagið til vegagerðar úr 27 millj., sem gert er ráð fyrir í frv., upp í 94. Okkur virðist eðlilegt, að þegar ríkissjóður hefur þó þann afgang, sem raun ber vitni á árinu 1966, þá sé ekki ástæða til annars en að standa við þau hátíðlegu loforð, sem gefin voru hér við samþykkt vegalaganna, um það, að ríkisframlag til vegagerðar skyldi ekki verða lægra en 47 millj. kr. á ári, en nú hefur verið látið undir höfuð leggjast að samþykkja þær 47 millj. í tvö ár, þ. e. fyrir árin 1966 og 1967, og þykir okkur eðlilegt, að það sé leiðrétt við þetta tækifæri. Á hinum tveim liðunum, sem í 8. gr. eru í frv., höfum við ekki gert breytingar, en höfum lagt til, að 50 millj. skiptist nokkuð á hafnir, skóla, sjúkrahús og til félagsheimila.

En síðasta brtt. okkar er nokkuð annars eðlis. Við leggjum til, að inn í frv. komi ný gr., sem felur í sér í stórum dráttum efnisatriði frv., sem við framsóknarm. í þessari d. lögðum fram í upphafi þings um framleiðnilánadeild við Framkvæmdasjóð Íslands. Við erum þeirrar skoðunar, að það sé mikil nauðsyn á því og jafnvel meiri nú en oftast áður að gera öflugar ráðstafanir til þess að auka framleiðni og hagræðingu í atvinnuvegunum. Vegna vaxandi innlends framleiðslukostnaðar hefur samkeppnisaðstaða allra innlendra framleiðsluatvinnuvega raskazt, svo sem öllum hv. þm. er kunnugt. Eina færa leiðin, sem þessi fyrirtæki hafa til þess að mæta búsifjum, sem af því leiða, er sú að auka tækni sína, auka vélvæðingu sína, auka sjálfvirkni og gera hverjar þær ráðstafanir bæði tæknilegar og skipulagslegar, sem geta leitt til minnkandi framleiðslukostnaðar. Við teljum, að það skorti mjög tilfinnanlega lánastarfsemi í þessu sérstaka augnamiði, og það hefur iðulega verið rökstutt af okkar hálfu, ég sé ekki ástæðu til að fara að þessu sinni mjög ítarlega út í það, það hefur hvað eftir annað komið fram hjá ýmsum samtökum atvinnuveganna, og bæði Iðnaðarmálastofnun Íslands og Búnaðarfélag Íslands hafa mælt með samþ. frv. okkar um þetta efni, sem legið hefur fyrir þessari hv. d. á þremur þingum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að sinni, herra forseti, að fara fleiri orðum um þetta, en legg til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem við leggjum til á þskj. 460.