13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú reyna að gefa ekki tilefni til sérstakrar lengingar þessara umr., en ég geri ekki ráð fyrir, að hv. 6. þm. Sunnl., frsm. minni hl. n., telji óeðlilegt, að ég segi nokkur orð varðandi þær brtt., sem minni hl. hefur hér flutt.

Varðandi 1. brtt. verð ég að segja það, að ég álít það mjög óeðlilegt, að Alþ. taki ákvarðanir um, hvort Seðlabankinn notar bindingu eða ekki bindingu. Seðlabankanum er fengið það vald að fylgjast með fjármálaástandi í landinu og ástandi bankakerfisins. Ef hann í þessu sambandi, sem hér er um að ræða varðandi útgáfu spariskírteina, telur, að mjög sé þrengt að viðskiptabankakerfinu miðað við efnahagsástand í landinu, þá vitanlega tekur hann sínar ákvarðanir í samræmi við það. Það er hans skylda, ef svo má segja, að halda um púlsinn á efnahagslífinu og íhuga það, hversu sá straumur á að vera ör, blóðrás þess á að vera ör, þannig að það valdi hvorki háþrýstingi eða lágþrýstingi, ef svo má segja, og ég álít, að það væri mjög varhugavert, að Alþ. færi að grípa inn í þetta hlutverk bankans, sem vissulega er þýðingarmesta hlutverk hans og þarf að gerast af miklu meiri yfirsýn á ástandi hverju sinni heldur en mögulegt er að slá föstu hér á Alþ í sambandi við samþykkt frv. sem þessa. Ég skal ekkert um það segja nema það reynist rétt að minnka eitthvað bindingu, en það verður að skoðast hverju sinni eftir því, hvernig þar um er háttað.

Varðandi framtalsskyldumálið get ég verið hv. 6 þm. Sunnl. sammála, um það, að þessi ákvæði um framtalsfrelsi sparifjár og skuldabréfa almennt séð eru mjög hæpin og skapa vitanlega ýmsa erfiðleika við að halda uppi nægilega traustu skatteftirliti. Og þetta þarf að takast áreiðanlega til heildarathugunar, þó að ég vilji á þessu stigi ekkert fullyrða um það, hver niðurstaðan yrði við nánari athugun þess máls, en mér sýnist a.m.k. óhætt að segja, að það sé vafasamt, hversu heppilegt sé, að þessum ákvæðum sé haldið við. Við þekkjum hins vegar, að þetta hefur verið lögfest af þeim ástæðum — og það verður einnig að líta á þær ástæðar vegna skattasjónarmiðsins — að með þessu móti verði stuðlað að aukinni sparifjársöfnun og fé haldið að bönkum, sem annars er hætt við, að yrði utan bankakerfisins og mundi alveg með sama hætti verða svikið undan skatti hvort sem væri, þannig að það hefur þótt af þessum ástæðum eðlilegt að hafa þessi ákvæði.

Ég tel, að þetta mál eigi að takast til heildarathugunar og það ráði ekki úrslitum um skatteftirlit, hvort ákveðið verður að hafa hér annan hátt á með þessi spariskírteini heldur en önnur, sem út hafa verið gefin. Það tel ég ekki heppilegt. Og varðandi það, að það séu þó alltaf ærið margir, sem hafi l. í heiðri, jafnvel þótt viðurlög séu ekki til, og muni telja þessi bréf fram, þá mundi ég nú ekki segja, að það væri kannske rétt að breyta þeim af þeim ástæðum, því að það er nú yfirleitt ekki fólkið, sem svíkur undan sem telur þau fram, heldur hinir, sem reyna að nota hverja smugu til þess að komast undan. Þeir mundu auðvitað ekki telja þau fram, nema einhver viðurlög væru við því. Þetta er ekki stórmál út af fyrir sig, en varðandi þriðja atriðið, sem er ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs, veit ég að okkur greinir hér mjög á um skoðun á því máli.

Hér er ekki um neina venjulega skuld að ræða við Seðlabankann. Hér er um það að ræða, að Seðlabankinn, þar sem ríkissjóður hefur sinn viðskiptareikning, hefur leyft ríkissjóði að yfirdraga, sem er auðvitað mjög óeðlilegt, að þurfi að gera á þenslutímum, reikning sinn um mjög verulegar fjárhæðir á undanförnum árum. Og slíkur yfirdráttarréttur — þó að það væri nú þolað — hefur sínar hættur og annmarka í för með sér. En ég held, að það hljóti að vera öllum mönnum ljóst, og má taka dæmi um það, ef menn yfirdraga sína viðskiptareikninga í banka, að bankinn muni ekki una því, að það sé byrjað á því að ávísa aftur og skapa nýjan stórfelldan yfirdrátt, heldur sé reynt að greiða upp það, sem fyrir er, og halda þessu innan eðlilegra marka. Með því að fara nú að ráðstafa greiðsluafgangi ríkissjóðs á s.l. ári umfram það, sem þessum yfirdrætti nemur, er þar auðvitað ekki um annað að ræða en það sé verið að dæla fé út úr Seðlabankanum á nýjan leik. Ég held, að það séu ekki hyggilegir búskaparhættir, og allra sízt eru þeir hyggilegir á þenslutímum, sem óneitanlega eru og þegar menn eru að tala um það, sem ég efast ekkert um, að allir hafi áhuga á að vinna gegn verðbólgu, er þetta ráðstöfun, sem er tvímælalaust verðbólguvaldur, að grípa til þess að ráðstafa fé Seðlabankans með þessum hætti, þó að það sé hægt formlega að segja, að hér sé um ráðstöfun á greiðsluafgangi að ræða, sem er þó ekki til af þessari ástæðu. Við vitum það líka, að það hefur sína stóru þýðingu fyrir bankakerfið, fyrir lánamöguleika bankanna, hvernig hagur ríkissjóðs er, og má á það benda, sem hefur sína miklu þýðingu og kannske skapar skilning á því, hversu þýðingarmikið það er, að ríkissjóður hafi góða afkomu, að á s.l. ári var lánað úr Seðlabankanum til bankakerfisins um 200 millj. kr. meira heldur en öll sparifjáraukning bankakerfisins á því ári nam. Og vegna hinnar góðu afkomu ríkissjóðs var hægt að gera þetta án þess að grípa til gagnráðstafana af hálfu Seðlabankans, þannig að hefði ekki verið þessi fjármyndun frá hálfu ríkissjóðs og ríkisstofnana, hefði þetta hlotið að leiða til alvarlegrar verðbólgumyndunar og verðbólguaukningar, ef ekki hefði þá verið gripið til annarra ráðstafana. Hv. þm. sagði, að það væri ástæðulaust að borga þetta allt á einu ári. Það hefur verið bent á það hér og raunar með fullum rétti, að það sé teflt mjög tæpt með fjárhagsafkomu ríkissjóðs á árinu 1967, og sumir hv. stjórnarandstæðingar hafa spáð því, að það mundi jafnvel verða halli, sem nemi hundruðum millj. hjá ríkissjóði á þessu ári, vegna þess að áætlun um tekjur sé svo hátt spennt. Þetta kann allt vel að vera, og þá gefur það auga leið, að því meiri ástæða er til þess að greiða þessar lausaskuldir frá fyrri tíma og því alvarlegra, ef við færum nú á þessu stigi að dæla út til nýrra framkvæmda þessu fé úr Seðlabankanum. Það hefur enn fremur verið á það bent, sem er augljóst mál, að það mun ganga á gjaldeyrisvarasjóðinn á þessu ári og kannske mjög alvarlega, ef áframhaldandi verðfall verður á útflutningsframleiðslunni, þar eð ekki hefur verið gripið til þess ráðs á móti að draga úr kaupgetu innanlands, heldur hefur verðlagi verið haldið föstu með niðurgreiðslum, þannig að þar verði ekki um neina kjaraskerðingu að ræða. Þá hlýtur náttúrlega miðað við óbreyttan kaupmátt að verða sama kaupgeta hjá fólki og þá ganga á gjaldeyrisvarasjóði.

Varðandi síðustu till. er það vitanlega alveg rétt hjá hv. þm., að það er mikil nauðsyn nú í dag að koma við aukinni hagkvæmni í atvinnuvegunum, og möguleiki til þess að tryggja lífskjörin liggur auðvitað í því, að hægt sé að framleiða með sem ódýrustum og hagkvæmustum hætti. Síðustu árin hefur verulega verið að gert í þessum efnum, bæði með beinum ráðstöfunum stjórnvalda í þágu iðnaðar og nú síðast landbúnaðar og enn fremur hefur fjármunamyndun í vélum og tækjum verið meiri síðustu tvö árin en nokkru sinni áður, ekki hvað sízt í sambandi við hagræðingu, sem atvinnuvegirnir hafa beitt sér fyrir sjálfir. Ég álít, að þessi till. eigi þó ekki heima hér af þeirri ástæðu, að Framkvæmdasjóði Íslands er ætlað að hafa forgöngu um það að afla lánsfjár til atvinnuveganna, þ.e.a.s. til stofnlánasjóðs þeirra. Stofnlánasjóðirnir hafa allir því verkefni að gegna að lána til stofnframkvæmda, og gera það auðvitað í stórum stíl, eftir því sem fjármöguleikar þeirra leyfa. Það er vitanlega á valdi Framkvæmdasjóðsins og í samráði við þessa sjóði að ráðstafa fé til þeirra, sem ætlað væri til slíkrar framleiðniaukningar, án nokkurra nýrra lagaheimilda, og Framkvæmdasjóðurinn hlýtur að meta það, hvort hann getur aflað meira fjár en gert er ráð fyrir nú í sambandi við framkvæmdaáætlunina til þessara þarfa. Það þarf heldur enga ríkisábyrgð fyrir Framkvæmdasjóðinn, vegna þess að hann hefur ríkisábyrgð á öllum sínum lánum, enda er gert ráð fyrir því hér í brtt., að þetta fé yrði endurlánað til sérstaks sjóðs. Ég sé nú ekki, að það væri æskilegt, að það væri sérstök framleiðnilánadeild við Framkvæmdasjóðinn, heldur eigi þetta að vera á vegum lánastofnana atvinnuveganna sjálfra, sem hafa bezt skilyrði til þess að hafa yfirsýn yfir það og dæma um, hvað sé nauðsynlegast að gera á þessu sviði. Ég tel þess vegna, að allir möguleikar í þessa átt séu opnir og það með eðlilegri hætti heldur en þó að farið yrði að gera þá breytingu, sem hér um ræðir, og ákveða hér stórfellda lántöku, sem mér skilst nú einnig, að gæti óneitanlega haft áhrif á greiðslumöguleika bankanna, ef þetta lán yrði tekið á innlenda markaði með verðbréfasölu eða einhverju slíku, sem gert er jafnvel ráð fyrir í till., að kunni að verða. Ég get sem sagt ekki fallizt á þessa brtt. Ég get heldur ekki fallizt á, að það sé rétt, að um neinar óreiðuskuldir sé að ræða hjá ríkissjóði við þá aðila, sem hér er lagt til, að féð gangi til af greiðsluafgangi. Það hefur verið greitt lögum samkvæmt það, sem skylt er að greiða, bæði til skóla og sjúkrahúsa. Það er greitt skv. þeim l., sem þar um gilda. Framlögin til hafna hafa að vísu safnazt fyrir, en það er engin óreiðuskuld að því leyti til, að það er ekki skylt að greiða þetta nema eftir því, sem fé er veitt til þess í fjárl. Það má segja, að væri æskilegt að geta varið meira fé til hafnargerðar. Ríkisstj. hefur að sínu leyti greitt fyrir því síðustu árin í framkvæmdaáætlun sinni, að til hafnanna væri aflað lánsfjár.

Að lokum vil ég svo vekja athygli á því að þær 8 millj., sem gert er ráð fyrir, að renni til félagsheimila, eru ekki innan ramma þess, sem hinar aðrar fjárveitingar eru, vegna þess að fé til félagsheimila er ekki veitt úr ríkissjóði, og það hvílir þar af leiðandi engin skylda á ríkissjóði að veita fé til félagsheimila. Það er vandamál út af fyrir sig, hvernig á að leysa þeirra fjárhagsmál. En ég held, að það þurfi nú að gera sér grein fyrir því heildarvandamáli, hvernig á að leysa þá í fjárþörf, áður en gripið er til þeirra úrræða að fara að verja beinlínis fé úr ríkissjóði til þeirra þarfa, nema það sé þá jafnframt hugsunin að setja einhverjar ákveðnar reglur um framtíðarsamskipti ríkissjóðs og félagsheimilasjóðs að þessu leyti.