18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna lítillar brtt., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. 4. þm. Sunnl. Brtt. er um það, að við 3. gr. bætist „6 millj. kr. til greiðslu ríkisframlags vegna vatnsveitna“.

Eins og kunnugt er, er mjög víða í landinu verið að eiga við vatnsveituframkvæmdir, og á Suðurlandi eru a.m.k. 5 sveitarfélög í slíkum framkvæmdum, og hafa forsvarsmenn þessara sveitarfélaga mjög komið að máli við okkur þm. Sunnl. um það að reyna að leysa að einhverju leyti með þeim fjárhagsvandræði, sem þeir eru í vegna þessara framkvæmda. Það er nú hin stóra vatnsveituframkvæmd þeirra í Vestmannaeyjum. Á Stokkseyri eru þeir að leggja vatnsveitu um þorpið hjá sér. Sömuleiðis eru Eyrbekkingar að hefja slíkar framkvæmdir fyrir sig. Í Þykkvabænum er þessum framkvæmdum sennilega, að verða lokið, og í Austur-Landeyjum mun vera fyrirhugað að ráðast í slíkt fyrirtæki nú á næstunni. Þetta er það, sem ég veit um á Suðurlandi, en ég hygg, að svona sé þetta víðar um landið, að það sé mikil þörf fyrir vatnsveitur, en styrkur sá, sem skv. l. kemur nú til þessara framkvæmda, er bæði lítill og dregst að fá hann, og það væri mikil nauðsyn, að einhvern veginn yrði útvegað fé til að styðja þessar framkvæmdir með lánum, og því er þessi till. fram borin. Vænti ég þess, að hún fái góðar undirtektir hér hjá hv. alþm.