18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Í 6. gr. þessa frv. segir: Ríkisstj. er heimilt að taka lán allt að 12½ millj. kr. vegna flugvalla- og vegagerðar á Vestfjörðum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaða vegagerðir eru þetta? Eru þetta vegir, sem eru á vegáætlun núna með fjárveitingar eða er þetta eitthvað nýtt? Og að hve miklu leyti eru þessar 12½ millj. kr. til vega og að hve miklu leyti til flugvalla? Það er ekki nefnd nein Vestfjarðaáætlun í þessari gr., sem ekki er nú kannske von, því að ég hef grun um, að hún sé ekki til enn, þessi Vestfjarðaáætlun. Hún hefur aldrei verið birt Alþ., og fyrir ekki löngu síðan frétti ég, að hún mundi ekki vera tilbúin enn. Það er því viðkunnanlegra að fá vitneskju um það, fyrst þessa heimild á að veita, hvort hér er um einhverjar nýjar vegaframkvæmdir að ræða bara til að fullnægja fjárveitingum á vegáætlunum, sem áður er búið að ákveða fyrir tveimur árum. Og eins hitt, til hvaða flugvalla á þetta fé að fara og hve mikið til hvers fyrir sig, flugvalla og vega? Ég býst fastlega við, að þetta liggi alveg á borðinu hjá hæstv. ráðh. og hann geti svarað þessu mjög fljótt og auðveldlega. Ég vildi gjarnan fá einhverja vitneskju um það í leiðinni, ef það væri hægt, hvort þessi svokallaða Vestfjarðaáætlun muni vera til nú eða hvort hún muni verða til t.d. á næsta kjörtímabili eða hvenær það verði. En að verða til, þar á ég við að hún sé birt þm., en sé ekki eitthvert einkaplagg í stjórnarráðinu.