18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða almennt um það frv., sem hér liggur fyrir um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967. Þau fáu orð, sem ég segi hér, eru sögð eingöngu í tilefni af orðaskiptum hv. 3. þm. Vestf. og hæstv. fjmrh., um Vestfjarðaáætlun. Hv. 3. þm. Vestf, spurðist fyrir um þessa áætlun, hvort henni mundi verða lokið og hvort hún mundi verða birt eða hvenær. Hæstv. fjmrh, svaraði því, ef ég tók rétt eftir, að búið væri að gera það, sem hann nefndi rammaáætlun um Vestfirði, eftir væri að fylla út í rammann, a.m.k. að verulegu leyti, og nefndi sem dæmi um það, sem ætti að koma í rammann, þegar hann væri útfylltur, atvinnumál og menningarmál. Nú er það að vísu svo, að það sýndist nú vanta æðimikið í rammann, ef t.d. atvinnumálin vantar, og einnig allmikið, þar sem eru menningarmálin. Og ég vildi í framhaldi af þessu leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvenær vænta mætti, að þessari Vestfjarðaáætlun yrði lokið og hún birt. Ég er ekki að spyrja að þessu vegna þess, að ég hafi sérstaklega með höndum öðrum fremur að gæta hagsmuna Vestfjarða, það hafa þeir fyrst og fremst, þm. þess landshluta: En ég spyr vegna þess, að eins og kunnugt er, hefur verið skýrt frá því, að unnið hafi verið undanfarin ár að Norðurlandsáætlun. Í grg., sem mér hefur borizt í dag eins og fleiri þm. Norðurlandskjördæmanna að ég ætla, er skýrt frá því, að nú sé verið að vinna að þeirri áætlun í Efnahagsstofnuninni, en þegar þeirri athugun, sem nú stendur yfir, sé lokið, sé það ætlun Efnahagsstofnunarinnar, að skýrsla hennar verði rædd við fulltrúa sveitarstjórna og verkalýðssamtaka á Norðurlandi. Um það er auðvitað ekki nema gott að segja og sjálfsagt, að málin séu rædd við þessa aðila og ef til vill fleiri, en ég tel, að það væri mjög mikils virði fyrir slíka umræðufundi, sem haldnir kynnu að verða á Norðurlandi með fulltrúum Efnahagsstofnunarinnar og sveitarstjórnum og verkalýðsfélögum, að Vestfjarðaáætlunin lægi þá fyrir opinberlega, þannig að hægt væri að hafa nokkra hliðsjón af henni við þær umræður, en fram fara væntanlega á sínum tíma og að mér hefur nú skilizt á næsta sumri. Þess vegna vildi ég endurtaka þetta, að ég vil spyrja um það í tilefni þessarar umr., sem fram hafa farið, hvort þess megi vænta, að Vestfjarðaáætlunin verði tilbúin og kunngerð, áður heldur en þessir boðuðu umræðufundir fara fram á Norðurlandi.