18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

179. mál, lántaka vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í frv. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna framkvæmdaáætlunarinnar árið 1967 er 6. gr. á þá lund, að ríkisstj. sé heimilað að taka lán allt að 12½ millj. kr. vegna flugvalla- og vegagerðar á Vestfjörðum. Sennilega er það í tilefni af þessu, sem Vestfjarðaáætlun svokölluð hefur dregizt inn í þessar umræður.

Vestfjarðaáætlunin hefur áður dregizt inn í umr. hér á hv. Alþ., og í skýrslum ríkisstj. hefur hún stundum verið nefnd og þá ekki verið annað að heyra en að hún væri fullgerð og eiginlega að mestu leyti komin til framkvæmda, og mætti a.m.k. ætla, ef hún er fullgerð og verið að framkvæma hana, að hún væri a.m.k. kunnug í heild og í einstökum atriðum þm. Vestfjarðakjördæmis. En það hefur gerzt nokkrum sinnum, þegar þessi áætlun hefur borizt í tal hér á Alþ., að ég hef gengið mig upp í Efnahagsstofnunina og óskað eftir sem Vestfjarðaþm. að fá áætlunina í hendur. En alltaf hefur það farið svo, að ég hef farið áætlunarlaus til baka og með þær upplýsingar, að áætlunin væri ekki til og hana væri ekki hægt að afhenda. Einu sinni man ég það, að mér var sagt, að það væru að vísu til drög að samgöngumálaþætti hennar á norsku, en það er ekki búið að þýða þann kafla enn þá á norsku, já, á norsku. Ég sagðist kunna dálítið í norsku og mér mundi notast þessi kafli, ef ég fengi hann óþýddan. En þá bar að því, að það var ekki talið ráðlegt að gera það að sinni, en það skyldi athugað síðar.

Nú í des., rétt fyrir jólafrí þingsins, barst Vestfjarðaáætlunin í tal hér á þingfundi. Ég held, að það hafi bara verið af tilefni hæstv. fjmrh. í sambandi við fjárlög eða einhverja skýrslu, sem hann gaf þinginu, og hann talaði um Vestfjarðaáætlunina sem plagg, sem Norðurlandsáætlunin mundi að einhverju leyti miðuð við og byggð á. Þarna væri komin reynsla í sambandi við Vestfjarðaáætlunina. Ég hringdi því í Efnahagsstofnunina og bað í símann um þann mann í stofnuninni, sem hefði sérstaklega með Vestfjarðaáætlunina að gera. Stúlkan, sem svaraði í símann, sagði: Já, það er Bjarni Einarsson, og ég gef yður samband við hann. Og ég fékk samband við Bjarna Einarsson. Ég sagði honum hver ég væri og óskaði eftir því, að ég fengi nú í hendur Vestfjarðaáætlunina, sem unnið hefði verið að í nokkur ár og oft dregizt inn í opinberar umræður. Já, því miður, hún er nú ekki tilbúin, og auk þess höfum við fengið fyrirmæli frá ríkisstj. um það að afhenda hana engum. Ekki einu sinni þm. kjördæmisins? spurði ég. Nei, engum, og til þess að það verði gert, verðið þér að fá heimild ríkisstj. sérstaklega. Svo ræddum við nokkuð um þetta mál, og hann vildi fáar upplýsingar gefa, en sagði: Það er bezt ég gefi yður samband við forstöðumann stofnunarinnar, Jónas Haralz. Já, það er ágætt, sagði ég, og ég fékk samband við forstöðumanninn. Já, Vestfjarðaáætlunin, það hefur ekki verið samin nein Vestfjarðaáætlun, segir hann, nema kaflinn um vissa þætti samgöngumála, þ.e.a.s. um flugvelli og vegi. Ekki alla þætti samgöngumálanna? spurði ég. Ekki um samgöngur á sjó? Nei, ekkert við því snert. Og það er eiginlega ekkert til um þetta annað en þau drög að áætlun, sem norsku sérfræðingarnir gerðu, sem ferðuðust nokkuð hér um fyrir nokkrum árum til athugunar á undirbúningi að vissum þáttum Vestfjarðaáætlunarinnar. Og hefur ekki verið unnið að áætluninni nú upp á síðkastið? spurði ég. Nei, ekkert síðan 1965, og sannast sagna þá höfum við engan vinnukraft til þess að sinna þessu verkefni, hérna í stofnuninni. Þetta skrifaði ég niður hjá mér þarna jafnóðum og símtalið fór fram og á það minnisblað í fórum mínum, þótt ég hafi það ekki hér við höndina. En ég hef nokkrum sinnum litið á þetta furðublað og held þess vegna, að ég fari nokkurn veginn rétt með það, sem á því stendur. Þessir þættir samgöngumálanna, sem búið er þó eitthvað að vinna og setja á blað, segi ég, hverjir eru meginþættirnir í því? Jú, það er í raun og veru ekkert annað en lántakan og það að verja þessari lántöku að ákveðnum hluta til flugvallanna á Patreksfirði, í Sandodda og við Ísafjörð og til vegalagningarinnar á milli þessara flugvalla. Það er þátturinn um samgöngurnar, sem unninn hefur verið, og annað felst ekki í honum en þetta. Hinn þátturinn, sem einnig varðar samgöngu- og atvinnumálin, er sá, að láninu, erlenda láninu, hefur að öðru leyti verið varið til hafnarbóta á Vestfjörðum, þ.e.a.s. til Patreksfjarðar, til Þingeyrarhafnar, til Suðureyrarhafnar, og núna á s.l. sumri var unnið fyrir þetta lánsfé í Bíldudalshöfn, og til stendur á næsta ári að vinna í Flateyrarhöfn.

Hafið þér ekkert meira að upplýsa um þetta? spurði ég. Nei, það er ekkert annað. Vestfjarðaáætlunin, það, sem til er af henni, er þetta. Það er hin erlenda lántaka. Það eru drög að till. norsku sérfræðinganna og síðan að ákvarðanir hafa verið teknar um að verja þessu lánsfé til flugvallanna, vegagerðarinnar á milli þeirra og til nokkurra hafna. Verður unnið að áframhaldi áætlunarinnar? spurði ég. Það var einmitt þá, sem hann svaraði því: Nei, við höfum engan vinnukraft til þess, og við þessu verkefni hefur ekki verið snert síðan 1965. Ég fékk ekki þessi slitur af samgöngumálaþætti áætlunarinnar, þrátt fyrir það að ég óskaði þess eindregið, og var sagt, að það, sem

Bjarni Einarsson hefði um það sagt, væri rétt. Ríkisstjórnin hefði bannað að afhenda þetta, — það litla, sem til væri af drögum að áætlun. Ég verð að segja það, að mér finnst það furðulegt, að það skuli vera árum saman búið að tala um Vestfjarðaáætlunina sem einhverja staðreynd, vitna til hennar af þm. og ráðh. og meira að segja í opinberum skýrslum til þingsins, og svo skuli það sannast og reynast, að engin slík áætlun er til.

Vestfjarðaáætlunin átti að fjalla, að því er manni skildist, um samgöngumál á sjó og landi og í lofti. Hún átti að fjalla um atvinnumálin á Vestfjörðum, hún átti að fjalla um menningar- og menntamál, félagsmál, og auðvitað má ekki í slíka áætlun vanta raforkumál. En engir þættir eru til, það er fullupplýst. Það er upplýst hér nú, að látið sé í veðri vaka, að það verði rætt við sveitarstjórnir á Norðurlandi, en svo mikið er víst, að ekki hefur þannig verið að staðið á Vestfjörðum. Tveir menn frá Efnahagsstofnuninni — ég hygg, að það hafi verið Valdimar Kristinsson og Bjarni Einarsson — fóru einu sinni um Vestfirði með norsku ráðgjöfunum í þessum málum og hittu sýslumenn á Vestfjörðum og sýslunefndir í þremur sýslum. Til einnar sýslunnar komust þeir ekki og hafa ekki komizt enn. Það var svo vont í sjóinn fyrir Horn, að það var snúið aftur, svo að Strandasýslu fundu þeir nú aldrei. Menn urðu sjóveikir, og það hefur aldrei verið talað, svo ég viti, við nokkra sveitarstjórn, aldrei við nokkurt verkalýðsfélag, við enga framámenn á Vestfjörðum, og sízt af öllu hafa þm. Vestfjarða fengið nokkuð um þetta undrabarn að vita, þó að við höfum haft mikla eftirgangsmuni um að fá upplýsingar um málið. Og kalla þetta svo áætlun fyrir heilan landsfjórðung! Vinna svona að málinu. Mér finnst það furðulegt a.m.k. Ég veit ekki til, að Vestfjarðaáætlunin sé annað en erlend lántaka og ráðstöfun þess fjár án samráðs við þm. Vestfjarða nema þá einhverja fáa af þeim, og þetta eru engan veginn góð vinnubrögð. Ef ég hef eitthvað missagt um þessi fræði, þætti mér vænt um, að á þessum fundi kæmu fram leiðréttingar um það.