21.02.1967
Efri deild: 42. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

129. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er gamall kunningi hv. þdm. og hefur verið flutt árlega nokkur undanfarin ár. Þær einar breyt. eru frá fyrri l. í þessu frv., að nú er gert ráð fyrir annars vegar að til samtaka sjómanna, sem nú munu vera í þrennum heildarsamtökum, renni 0,79% eða sami hundraðshluti og til LÍÚ hefur gengið á undanförnum árum.

Í öðru lagi er lagt til, að á þessu ári a.m.k. verði útflutningsgjöld af loðnumjöli og loðnulýsi, samkvæmt 2. gr. laganna ekki innheimt, og eru færð fyrir því rök í aths. við frv. þetta, af hvaða ástæðum það er, og er hér um framkvæmd að ræða á samkomulagi, sem aðilar komust að í verðlagsráði sjávarútvegsins við verðlagningu þessara afurða, nú fyrir skömmu.

Við umr. málsins hér fyrir um það bil ári síðan var mjög rætt um hið fyrra atriði, sem ég nefndi, þ. e., að samtökum sjómanna yrði veittur úr þessum sjóði sami hundraðshluti og útvegsmönnum eða það sama og til þeirra hefur verið veitt, og hirði ég ekki um að endurtaka þau rök, sem til þess liggja, en upphaflega var þetta gjald til komið vegna þeirra starfa, sem LÍÚ innti af hendi í sambandi við bátagjaldeyriskerfið svonefnda, en hefur síðan staðið óbreytt, þrátt fyrir niðurlagningu þess kerfis. Þótti því eðlilegt, að samtök sjómanna fengju hér sömu hlutdeild að.

Endanlega hefur mér ekki borizt samkomulag sjómannasamtakanna um skiptingu þessa fjár, en ég hygg þó, að það sé að mest öllu leyti frá því gengið, og þau þrenn samtök, sem hér eiga hlut að máli, þ.e.a.s. Sjómannasamband Ísl., Alþýðusamband Ísl. og Farmanna- og fiskimannasamband Ísl., muni skipta þessum hundraðshluta í þrennt sín á milli, en eins og ég sagði, hefur ekki enn þá frá þeim borizt endanlega þeirra samkomulag, en við þessi samtök mun verða haft samráð um setningu þeirra reglna, sem gert er ráð fyrir, að sjútvmrh. setji skv. þessum l.

Ég tel ekki þörf á að hafa nánari skýringar, nema sérstakt tilefni gefist til með frv., en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.