18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

129. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég sá nú ekki ástæðu til þess, í minni örstuttu framsöguræðu, að fara að ræða þetta mál efnislega, vegna þeirrar samstöðu, sem var ekki aðeins í sjútvn. þessarar d., heldur og í Ed. um málið. Hins vegar er það alveg rétt, eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni, að erindi barst frá Alþýðusambandi Vestfjarða, og hafa þm. nú heyrt efni þess. Til frekari skýringar skal ég geta þess, að það hefur náðst fullt samkomulag á milli þeirra þriggja landssamtaka, sem hafa sjómenn innan sinna vébanda, en það eru Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands, um jafna skiptingu þessara nýju fjármuna, sem til samtakanna renna. Og auðvitað munu þau félög, sem hafa með sjómannasamninga að gera ein um sig enn þá og þurfa á slíkri aðstoð að halda frá sínum heildarsamtökum, eins og mér virðist vera farið fram á í erindi Alþýðusambands Vestfjarða, geta leitað til viðkomandi samtaka um það. Og það eru auðvitað fleiri, sem þar koma til greina, s. s. Sjómannafélag Vestmannaeyja, Sjómannafélagið Jötunn í Vestmannaeyjum og Sjómannafélag Akureyrar. Hins vegar vænti ég persónulega, að til þessa þurfi ekki að koma, því að flestum þm. mun kunnugt um það, að það standa yfir mjög alvarlegar tilraunir til þess innan Alþýðusambandsins að lagfæra skipulag þeirra þýðingarmiklu samtaka. Það var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta á síðasta Alþýðusambandsþingi, að unnið skyldi að því, að Alþýðusambandið yrði byggt upp af landssamböndum, sem þegar eru nokkur fyrir hendi, og vil ég t.d. nefna þau stærstu, Verkamannasambandið, Landssamband verzlunarmanna og Sjómannasambandið. Ég vænti þess því, ef af þessari heils hugar samvinnu, sem fyrirhuguð er, getur orðið, að þá eigi þessi sjómannafélög úti um land innan fárra ára sína aðild að Sjómannasambandinu og þar verði haft samráð um þau sameiginlegu mál, sem þessi félög þurfa að framkvæma.

Ég vissi það reyndar fyrr, að hv. 5. þm. Austf. var illa við þetta mál, og vildi helzt sjá það dautt strax í fæðingu, en mig hefði ekki órað fyrir því, að honum væri svo illa við það, að hann skuli, án þess að hafa gert neinar athugasemdir við það í sjútvn., henda hér fram við næstsíðustu umr. í þinginu, á síðasta starfsdegi deildarinnar, slíkri till., eins og hann gerði, sem ég álít að sé eingöngu gert til þess að reyna að drepa aðalmálið, en ekki vegna hins, sem ég þó skal taka undir með honum, að er ákaflega þýðingarmikið mál, en við ráðum bara ekki fram úr því hér með einni einfaldri brtt. á síðasta degi þingsins. Þótt einhver þm. hendi inn slíkri till., þá ráðum við ekki fram úr þeim vandamálum, sem hafa skapazt vegna verðfalls á síldarafurðum, það er alveg ljóst. Og það var hárrétt tekið fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 2. landsk. þm., sem hér talaði áðan, að með samþ. þessarar till. 5. þm. Austf. erum við auðvitað að stofna í voða starfsemi þýðingarmikilla sjóða, s. s. Fiskveiðasjóðs og Fiskimálasjóðs og reyndar fleiri stofnana, og áður en við getum samþ. slíka till. verðum við að gera okkur einhverja grein fyrir því, hvaðan við eigum að fá fjármuni í staðinn til þess að eðlileg starfsemi geti haldizt uppi, ekki aðeins hjá þessum sjóðum heldur og önnur sú starfsemi, sem útflutningsgjaldið stendur undir, þannig að ég tek hiklaust undir það, sem síðasti ræðumaður sagði, og mun greiða atkv. gegn þessari till. 5. þm. Austf., þótt ég hins vegar geri mér fulla grein fyrir þeim vandamálum, sem hann drap á í ræðu sinni. En við munum ekki ráða fram úr þeim hér á síðasta degi þingsins með því að samþykkja svona einfalda brtt., eins og hann leggur til að við gerum.