18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

129. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við það, sem hér hefur verið sagt um mína till. Það er fundið að því, að þessi till. skuli koma hér fram seint á þinginu, en ekki get ég gert að því, þetta mál er komið hingað í þessa deild til afgreiðslu nú rétt nýlega. Það er ekki mín sök, að frv. er þetta seint á ferðinni, heldur þeirra, sem standa að því að flytja frv. og eru svona seint á ferðinni með það. En eðlilegt er hins vegar, að mín till, sé flutt við frv., sem gagngert fjallar um það vandamál, sem ég hafði hér vikið að. Þá er það sagt gegn minni till., að hún kunni að setja í vanda ýmsa gagnlega sjóði sjávarútvegsins. Ég er hræddur um, að þeir geti komizt í meiri vanda, þeir ágætu sjóðir sjávarútvegsins, ef lítið eða ekkert yrði gert út og stofnað yrði til stórra deilna í sambandi við sjálfa undirstöðuframleiðsluna, vegna þess að boðið væri upp á þannig kjör, að það fengist enginn til að gera út. Svo bezt fær nú Fiskveiðasjóður, sem fær aðeins nokkurn hluta af sínum tekjum og tiltölulega lítinn hluta eftir, þessari leið, svo bezt fær hann sínar tekjur, að það sé eitthvert fjör í þeirri útgerð, sem hér er um að ræða. En það er mjög athyglisvert, að það hvarflar ekki að þessum sömu þm., að það sé neinn vandi, þó þeir séu að berjast fyrir því að taka hluta af þessu útflutningsgjaldi, sem annars á að renna til Fiskveiðasjóðsins og annarra slíkra, og deila því til þessara samtaka eða annarra samtaka, og það má undanþiggja loðnuafurðir og þess háttar, þegar vandi rís upp þar, það er allt í lagi, en ef sjálf meginundirstaðan á í hlut, þá þora menn ekki að horfast í augu við vandann. Það er vitað mál, að það stendur þannig á nú þegar, að sá sjóður, sem fær meginhlutann af þessu útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, hefur ekki nægilegar tekjur. Það þarf að afla honum viðbótartekna. Hann hefur verið rekinn með talsverðum halla. En mín tillaga miðast við það að setja bræðslusíldarafurðirnar á svipað stig og aðrar sjávarafurðir. Ég geri hreinlega ráð fyrir því í minni till., að það verði innheimt útflutningsgjald af bræðslusíldarafurðum, sem nemur 4%. En það mun vera mjög nærri því að vera meðaltalsgjald, sem nú er tekið af útfluttum sjávarafurðum. Ég vil því fyrst og fremst á þessu stigi málsins afnema þá aukaskattlagningu, sem verið hefur á bræðslusíldarafurðum til þess að standa undir ýmsum öðrum vandamálum, sem við höfum verið að glíma við. Og ég tel fyrir mitt leyti, að þeir sem ekki vilja fallast á það nú, einmitt þegar verið er að hreyfa við þessum lögum, að afnema á þessu stigi þá sérstöku skattlagningu, sem nú á sér stað á síldarafurðunum og er að finna í l. um útflutningsgjald, að þeir hafa ábyggilega ekki gert sér grein fyrir þeim vanda, sem við stöndum frammi fyrir í þessum efnum. Ég held mér því fast við mína till. og vænti þess, að hún fáist samþykkt hér í deildinni.