14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

1. mál, fjárlög 1967

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason) [frh.7]:

Ég vænti, enda þótt þessar brtt. komi svona seint fram, að alþm. geti fallizt á að samþykkja þær.

Út af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, síðan ég hafði framsögu fyrir till. n., vildi ég aðeins segja nokkur orð.

Varðandi þær athugasemdir, sem komu fram frá samnefndarmönnum mínum í minni hl. n., þeim hv. 3. þm. Vesturl. og 10. landsk., sem sérstaklega var í sambandi við skólamálin, vil ég segja það, að það, sem ég benti sérstaklega á varðandi þá reglu, sem fjvn. hefur tekið upp um fjárveitingar til skólamála, og það, sem hefur farið mest úr skorðum í þeim efnum, byggist ekki á því, að þær hækkanir, sem hafa átt sér stað á byggingartímabilinu, hafi færzt svo mikið úr skorðum, heldur á hinu, að það hefur verið breytt svo mikið til um sjálfar byggingarnar, frá því að upphaflega áætlunin var gerð og þar til skólabyggingunni lauk. Þar munar langmestu. Þess vegna hefur orðið að fara inn á þá leið að deila því, sem safnazt hefur saman á byggingartímabilinu, á þessum 5 árum, og því síðan skipt niður á 3 ár. Báðir þessir hv. þm. héldu því fram, að það þyrfti að gera miklu betur í þessum efnum en gert væri í þessu fjárlagafrv. Vissulega er það rétt, að það væri æskilegt, að það væri hægt að taka meiri og stærri áfanga í byggingu skóla hér í landinu heldur en þessar fjárveitingar leyfa. En hitt vil ég benda á, sem ég hef þó gert áður við sama tækifæri, að ef við berum saman þær niðurstöður, sem liggja fyrir frá tímabili vinstri stjórnarinnar, og þær fjárveitingar, sem nú er varið til þessara framkvæmda, þá er þar ólíku saman að jafna. 1958 eru fjárveitingar til allra skólabygginga í landinu samtals að upphæð 19 millj. 300 þús. kr. Í þessu fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, er hins vegar þessi upphæð 162 millj. kr. Ef við svo gerum okkur grein fyrir þeirri breytingu, sem hefur átt sér stað á byggingarkostnaðinum á þessu tímabili, skv. þeim upplýsingum, sem liggja fyrir frá hagstofunni, þá var byggingarvísitalan 1958 134 stig, í dag er byggingarvísitalan skv. upplýsingum hagstofunnar hins vegar 298 stig. Það er því augljóst mál, að enda þótt við tökum þessa hækkun, sem átt hefur sér stað á byggingarkostnaðinum, og tökum líka með í reikninginn þá fólksfjölgun, sem eðlileg er og átt hefur sér stað í landinu á þessu tímabili, þá þyrfti þessi upphæð ekki að vera til þess að jafnast á við fyrra tímabilið nema rúml. 42 míllj. kr. Hér er því staðið þannig að þessum málum, að upphæðin er hér um það bil fjórum sinnum meiri, hún er sem sagt ferfalt meiri en áttí sér stað á þeim tímum, sem þessir góðu hv. þm. fóru með völdin í landinu.

Það er annað, sem talar líka nokkuð skýru máli í þessum efnum og sýnir þróunina í skólamálum landsins. 1958 eru samtals um 90 farskólahverfi starfandi víðs vegar um landið. Í dag er þessi tala komin niður í 23 farskólahverfi. Ég vil segja, að þetta talar skýru máli um þá þróun, sem átt hefur sér stað í skólabyggingum hér á landi á þessu tímabili. Og það er að sjálfsögðu bein afleiðing af þeim miklu og stórkostlegu skólabyggingum, sem átt hafa sér stað í dreifbýlinu, að á þessu tímabili hefur farskólum getað fækkað sem raun ber vitni, svona mikið, ég vil segja hálfgerðu vandræðafyrirkomulagi, sem allt til þessa hefur víða þurft að bjargast við.

Í fjárlagafrv. er í 22. gr. XVI lagt til, að heimilað verði að kaupa fasteignir af S.Í.S. við Kirkjustræti vestan alþingishússins. Tillaga þessi var rædd í nefndinni. Nm. óskuðu ekki eftir að gera breytingar á till., en þeir óskuðu hins vegar eftir, en mér láðist að geta þess í framsögu, að taka það fram, að þessi kaup séu ekki á neinn hátt í tengslum við hugsanlega byggingu alþingishúss, a.m.k. ekki á þessu stigi málsins. Eins og ég sagði áðan, láðist mér að geta þess í framsögu, sem meðnm. mínir óskuðu eftir, að ég kæmi á framfæri í sambandi við þennan lið í fjárlögunum, og ég hef þá gert það hér með.

Að svo komnu máli sé ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta að þessu sinni.