14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

1. mál, fjárlög 1967

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar brtt. við fjárlagafrv. og við brtt. fjvn., en brtt. mínar eru á þskj. 146.

Í fyrsta lagi er um að ræða breyt., sem varða skólabyggingar. Hin fyrsta till. mín er um, að gert verði ráð fyrir lítils háttar fjárveitingum til barnaskólabygginga á tveim stöðum á Austurlandi til undirbúningsframkvæmda, en það er til byggingar leikfimihúss í Höfn í Hornafirði 250 þús. kr. og til byggingar barnaskóla á Fáskrúðsfirði 250 þús. kr. Á báðum þessum stöðum er brýn þörf fyrir þær framkvæmdir, sem sótt er um leyfi til þess að byggja. Á Höfn í Hornafirði skortir tilfinnanlega aðstöðu til leikfimikennslu, en á Búðum í Fáskrúðsfirði er orðin mjög brýn þörf á því að stækka barnaskólahúsið, svo að hægt sé með eðlilegum hætti að koma þar fyrir bæði barnakennslu og unglingakennslu. Ég sé ekki ástæðu til þess að skáganga beiðni þessara tveggja staða um það, að framkvæmdir þeirra á þessum sviðum séu viðurkenndar og það megi ætla til þeirra eins og til margra annarra staða lágmarksupphæð í sambandi við undirbúningsframkvæmdir. Það skiptir staðinn allmiklu máli að fá slíka viðurkenningu, því að hér er um að ræða, að lagt er í ýmiss konar kostnað í sambandi við undirbúning málsins, en þetta skiptir vitanlega engu höfuðmáli í sambandi við fjárhagshlið fjárlaga. Ég vænti því, að hv. þm. geti fallizt á að samþ. þessar tillögur mínar, sem eru í fullu samræmi við það, sem gildir um ýmsa aðra staði.

Þá legg ég í öðru lagi til varðandi gagnfræðaskólabyggingar, að varið verði 900 þús. kr. til byrjunarframkvæmda að byggingu heimavistarhúsnæðis við gagnfræðaskólann í Neskaupstað, en flyt auk þess aðra till. um sama efni sem varatillögu, ef ekki fæst samstaða um aðaltili., að varið verði 250 þús. kr. til undirbúningsframkvæmda í sambandi við byggingu þessa heimavistarhúsnæðis við gagnfræðaskólann í Neskaupstað.

Ég verð satt að segja að lýsa því yfir, að mér þykir alveg furðulega vera staðið að afgreiðslu þessa máls, sem varðar byggingu heimavistar við gagnfræðaskóla í Neskaupstað, og get ekki annað séð en að þar sé látin gilda önnur regla en um allar aðrar í landinu. Þannig er ástatt við þennan skóla, að skólahúsnæði gagnfræðaskólans í Neskaupstað er orðið allt of lítið. Það er tvísett þar í allar kennslustofur, en auk þess fer svo fram allmikil kennsla í skólanum þar að auki og allmikið af unglingum á Austurlandi sækir til þessa skóla úr nágrannabyggðarlögum, og það hafa því komið upp óskir um það, að byggð yrði heimavist við gagnfræðaskólann í Neskaupstað fyrir aðkomunemendur og einnig til þess að leysa önnur húsnæðismál þessa skóla. Samkv. ráðleggingum fræðslumálastjóra og skólaeftirlitsmanns og í fullu samráði við menntmrh. var gerð teikning af heimavistarhúsnæði fyrir gagnfræðaskólann og allar áætlanir gerðar. Þessar áætlanir eru búnar að liggja fyrir fjvn. og framkvæmdavaldinu núna í á þriðja ár, en till, hafa ekki fengizt teknar upp við afgreiðslu fjárl., ekki einu sinni um það, að þessi framkvæmd sé viðurkennd sem undirbúningsframkvæmd, þó að teikningar og allt liggi fyrir og hafi þegar verið greiddar, að vísu af þeim aðila, sem hér á hlut að máli.

Þetta er mjög undarlega að málum staðið og alveg furðulegt, að þeir, sem fara með æðstu stjórn þessara mála, skuli fyrst ráðleggja mönnum að ráðast í framkvæmdakostnað, en síðan neita því á eftir, að taka megi upp þessa framkvæmd og viðurkenna formlega á fjárl. Ég sneri mér því fyrir ári til menntmrh. skv. beiðni bæjarstjórnarinnar í Neskaupstað og spurðist fyrir um það, hvort Neskaupstaður mætti ráðast í þessa byggingu fyrir eigið fé, án þess að leitað yrði að sinni eftir nokkurri fjárveitingu frá ríkinu. En ég fékk stíft nei við þessari beiðni, slíkt væri ekki hægt, vegna þess að framkvæmdin hefði ekki fengið neina viðurkenningu enn á fjárl., ekki einu sinni þessa litlu byrjunarfjárveitingu, sem nefnd er á liðnum til undirbúningsframkvæmda.

Nú hefur enn verið sótt um það, í þriðja skipti, að fá þessar framkvæmdir viðurkenndar og engin höfuðáherzla lögð á það, að hinn aumi ríkissjóður þurfi að áætla stóra fjárveitingu til framkvæmdarinnar, heldur aðeins að áætla hér einhverja smáupphæð til viðurkenningar, svo að ekki sé hægt að neita um það, að heimastaður megi byggja fyrir eigið fé í því tilfelli, þar sem um nauðsynjaframkvæmd er að ræða. En þá bregður svo við, að enn fáum við neitun um, að það megi viðurkenna þessa framkvæmd sem undirbúningsframkvæmd. Það er svo saga út af fyrir síg, að þeir verða svolítið skrýtnir í framan, þessir háu yfirmenn fræðslumála, þegar rætt er við þá um það, hvernig á þessu standi, hvað sé hér eiginlega í veginum. Mér dylst það að vísu ekki, að hér er um freklega misbeitingu á valdi að ræða. Hér er verið að mismuna aðilum á hinn herfilegasta hátt, vegna þess að tilteknir aðilar vilja koma í veg fyrir það, að byggt sé tiltekið skólamannvirki á þessum stað.

En hvað um það, það þýðir kannske ekki að deila við dómarann. En það er rétt, að það fái að koma alveg skýrt fram, hverjir það eru, sem neita Neskaupstað um það að fá að leysa vandamál sín í sambandi við skólamál, og það einnig á þeim grundvelli, þegar þeir bjóðast til að leggja fram fjármunina sjálfir. En þannig liggur málið fyrir nú. Af þessum ástæðum hef ég flutt tvær till. um þetta mál: Annars vegar um það, sem mér þykir fullt réttlæti standa til, að varið verði 900 þús. kr. til þessarar framkvæmdar, þ.e. sem þátttöku í framkvæmdakostnaði. En ef ekki er hægt að fallast á það, vegna þess að svo sé naumt siglt fjárhag ríkissjóðs, þá fer ég fram á, að það sé tekin lágmarksupphæð, 250 þús. kr., undir liðnum til undirbúningsframkvæmda. Og vel mætti semja um það eflaust á milli bæjarstjórnarinnar í Neskaupstað og fjmrn., að þeir gætu sloppið við að borga þessar 250 þús. kr. um einhvern tíma, ef það stendur á því, ef hægt væri að fá viðurkennda framkvæmdina, þannig að hægt væri að athafna sig í þessum efnum eins og þarfir standa til. Ég trúi því satt að segja ekki, að það eigi eftir að koma hér fram við atkvgr., að meiri hluti þm. vilji beita þennan stað slíkum órétti eins og virðist hafa orðið niðurstaðan hjá meiri hl. fjvn. í þessu tilfelli.

Þá hef ég leyft mér að flytja hér brtt. við 17. gr. fjárl. um það, að tekinn verði þar upp nýr liður, 1 millj. króna til þess að koma upp sjómannastofum á Austfjörðum, gegn jafnmiklu framlagi annars staðar að. Það hefur allmikið verið rætt um, að það væri mikil þörf á því að koma upp sjómannastofum í sjávarplássunum á Austurlandi til þess að bæta nokkuð aðstöðu þeirra hundraða sjómanna, sem verða að vera þar tímunum saman frá heimilum sínum við lélega aðbúð í mörgum greinum, og ég hef veitt því athygli, að m.a. þm. úr öðrum stjórnarflokknum hafa verið að leggja fram till. hér á Alþ. um það, að ráðstafanir yrðu gerðar í þessa átt. Aðeins í einu byggðarlagi fyrir austan hefur verið ráðizt í það að koma upp myndarlegri sjómannastofu af þessari tegund, og það er í Neskaupstað, og þar hefur allur stofnkostnaðurinn hvílt á bæjarfélaginu sjálfu, og ætla ég, að enginn hafi séð eftir þeim peningum, sem í það hafa farið. En hins vegar skortir mjög á með þessar sjómannastofur á öðrum stöðum á Austurlandi og því finnst mér í rauninni það minnsta, að Alþ. samþ. till. um að verja 1 millj. kr. í þessu skyni, að leysa nokkuð úr þessu vandamáli, þó með því skilyrði, að jafnmikið framlag komi annars staðar frá á móti til framkvæmda í þessum efnum. Ég held líka, að þeir, sem hér eiga aðallega hlut að máli, þ.e.a.s. síldveiðisjómennirnir, sem dveljast á Austurlandi, eigi fyllilega skilið af ríkisheildinni, þó að slíkt framlag yrði greitt í þessu skyni sem hér um ræðir.

Í mínum augum er það svo, að það reynir nokkuð á það, hvort menn meina eitthvað með fögrum orðum, sem þeir láta falla í þessa átt, hvort þeir vilja greiða eitthvert fé af höndum til þess að leysa vandann, því að það þarf meira en bara að flytja till. um það, að málið sé athugað.

Þá hef ég leyft mér að flytja hér brtt. við 20. gr. fjárlaga, en sá liður er um framlag til flugvallagerðar og flugöryggistækja á flugvöllum. Ég legg til, að sá liður verði hækkaður um 3 millj. kr. Hvort tveggja er, að að mínum dómi er varið allt of litlu fé til þess að bæta úr aðstöðunni í þessum efnum, en ég vil með minni tillögu leggja sérstaka áherzlu á þrjá staði í mínu kjördæmi, þar sem mjög brýnt er, að varið sé miklum mun meira fé en gert hefur verið til þess að bæta úr flugþjónustunni. Ég legg til, að af þessum 3 millj. gangi 1 millj. til flugvallargerðar á Vopnafirði, 1 millj. til flugvallargerðar í Breiðdal og 1 millj. til flugvallarins í Neskaupstað.

Vopnafjörður er sérstaklega orðinn illa staddur í samgöngumálum, borið saman við aðra staði á landinu. Þar er nú mjög lítill flugvöllur, sem dugir ekki hinum stærri vélum, og það er enginn vafi á því, að Vopnafjörður er orðinn sá staður í Austurlandskjördæmi, þar sem samgöngur eru orðnar lélegastar. Þetta kemur sér mjög illa fyrir þá, sem þar búa, og fyrir þá, sem atvinnurekstur hafa á þessum slóðum. Þarna er mjög góð aðstaða til þess að gera flugvöll, — alveg sérstaklega góð aðstaða, en það þarf vitanlega nokkurt fé til þess að undirbyggja þann gamla völl, sem fyrir er, og til þess að lengja hann, og það mundi ekki veita af þessari fjárhæð, sem ég legg til, að þarna verði tekin upp.

Svipað er að segja um flugvöll í Breiðdal. Þar er einstaklega góð aðstaða til þess að gera flugvöll fyrir stærri flugvélar, og það mundi líka leysa úr miklu vandamáli fyrir það fólk, sem þarna býr, sem er einangrað tímunum saman á árinu.

Ég hef svo einnig leyft mér að leggja til, að til flugvallarins í Neskaupstað verði varið 1 millj., en flugið þangað hefur leyst alveg gífurlega mikinn vanda á undanförnum árum, ekki aðeins fyrir íbúana í Neskaupstað, heldur ekki síður fyrir síldveiðiflotann, sem rekinn er fyrir Austurlandi. En það hefur auðvitað orðið í þeim efnum eins og í mörgum fleirum, að þar hefur bæjarfélagið í Neskaupstað þurft að standa svo að segja undir öllum framkvæmdum. Þar hefur verið byggt flugskýli, en beinlínis greitt úr bæjarsjóði Neskaupstaðar. Og það annað, sem þar hefur verið gert, hefur orðið að vinnast á þann hátt, að bæjarfélagið þar hefur orðið að leggja fé fram, því að fé hefur ekki verið til hjá hinum opinbera aðila. En mér finnst fullur tími vera kominn til þess, að það sé viðurkennt, að það sé réttmætt að leggja fram ekki minna fé en hér er um að ræða til flugvallarins í Neskaupstað. Enn þá hefur ekki unnizt svigrúm til þess að koma upp því, sem flugmálastjóri sjálfur telur að sé alveg nauðsynlegt af öryggistækjum í sambandi við það daglega flug, sem þarna á sér stað, en það verður vitanlega ekki gert, nema eitthvert fé sé veitt til þess að leysa þann vanda, sem þarna er um að ræða.

Þá hef ég leyft mér að flytja brtt. við 22. gr. fjárl. Þar legg ég til, að tekinn verði upp nýr liður um það, að varið skuli 15 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs á árinu 1966 til félagsheimilasjóðs og verði fjárhæðinni varið til greiðslu á vangreiddu framlagi sjóðsins til félagsheimila. Það vita allir hv. alþm., að hér er um mikið vandamál að ræða. Byggð hafa verið allmörg félagsheimili víða á landinu, og þau hafa ekki fengið nema lítinn hluta af því fjármagni greiddan úr félagsheimilasjóði, sem áætlað hefur verið að þessar framkvæmdir fengju þaðan, vegna þess að sjóðinn skortir fé.

Nú er oft búið að ræða þetta mál hér í Alþ., og allir hv. þm. eða flestallir, hefur mér heyrzt, viðurkenna, að hér er um mikið vandamál að ræða, sem verður að leysa. Það er alveg ómögulegt að hafa það öllu lengur á þann hátt, sem það er. Ég get aðeins nefnt það sem dæmi í sambandi við félagsheimili í Neskaupstað, sem byggt var fyrir allmörgum árum og átti skv. þessum reikningum inni hjá sjóðnum kringum 2 millj. kr., að það, sem það hefur nú um nokkurra ára skeið fengið greitt, hefur ekki numið vöxtum af þessari upphæð. Þannig er þetta eflaust í mörgum tilfellum öðrum, og þetta tel ég alveg óviðunandi. Nú mun það liggja fyrir, að allríflegur greiðsluafgangur verður hjá ríkissjóði á yfirstandandi ári, og þá má það ekki vera minna en 15 millj. séu teknar af þeim greiðsluafgangi og varið í þessu skyni. Ég vil vænta þess, að þeir fjölmörgu þm., sem hér hafa á undanförnum árum rætt um þetta vandamál og lýst yfir áhuga sínum á því að greiða úr þessu máli, geti stutt þessa till., sem ég flyt hér.

Ég hef þá gert hér nokkra grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt, og skal svo ekki orðlengja frekar um afgreiðslu fjárlagafrv.