14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

1. mál, fjárlög 1967

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Mig langar að fara hér örfáum orðum um fjárlagafrv. og vissan þátt í því.

Mér finnst mjög ískyggileg sú þróun, sem á sér stað í æ ríkari mæli með hverju ári, að fjárlögin taka risaskref upp á við, en raunverulega fer sú þjónusta við framkvæmdir í landinu, sem þau ættu að styðja, að sama skapi hlutfallslega minnkandi, eftir því sem útgjaldaupphæðin fer hækkandi. Stærri og stærri hluti útgjaldanna fer í eyðslu við ríkisbáknið, sem sífellt þenur sig út og þarf meira og meira fé til eyðslu og þjónustu við alls konar óarðbær störf. Fjöldi af ríkislaunuðu fólki vex hröðum skrefum, svo að mikill hluti ríkisteknanna fer til þess að borga laun. Afleiðingin er svo sú, að verkefnin, sem bíða úrlausnar, safnast fyrir til tjóns fyrir atvinnuvegi og þýðingarmikla þætti í menningarmálum þjóðarinnar. Það dregst að byggja nauðsynlegar hafnir, leggja varanlega vegi, byggja orkuver og dreifa raforkunni út um byggðirnar, byggja sjúkrahús, heilsuhæli, elliheimili og ekki sízt skóla, svo að aðeins sumt sé nefnt af því, sem tefst og dregst að framkvæma. Sú ríkisstj., sem fer með völdin, segist vilja styðja frjálst framtak og efla einstaklingana til atvinnurekstrar. En frumskilyrðið til þess, að frjálst framtak þegnanna í þjóðfélaginu geti notið sín, hlýtur að vera það, að yfirstjórn þjóðfélagsins hlúi að og byggi upp í landinu skilyrði til þess, að þegnarnir geti látið krafta sína og vilja til framtaks koma að fullu gagni. Á meðan ekki er hægt að halda áfram af eðlilegum hraða af hálfu hins opinbera að skapa fólki og samtökum þess skilyrði, sem nauðsynleg eru til að byggja upp traust og fjölþætt atvinnulíf, er ekki grundvallarstefnan rétt né heilbrigð, og á meðan verður efnahagsleg afkoma á völtum fótum. Mér finnst, að sá mikli mannfjöldi, sem starfar hér í ríkiskerfinu, sé orðinn allt of stór. Hins vegar eru undirstöður okkar að fjárhagslegu öryggi allt of veikar að mínum dómi. Ríkið þyrfti að geta lagt meira af mörkum til að treysta þær.

Ég ætla mér ekki í þetta sinn að hafa fleiri orð almennt um fjárlögin. En mig langaði og til þess var erindið gert upp í ræðustólinn — til að drepa hér á eitt atriði, að vísu af mörgum, sem ég er óánægður með í afgreiðslu fjárlaganna. Eins og kunnugt er, var á sinum tíma sett á fót stofnun, sem nefnd er Vélasjóður ríkisins. Þessari stofnun var sett það hlutverk að sjá um að kaupa og leigja einstaklingum og ræktunarsamböndum vélar til jarðræktarstarfa, einkum skurðgröfur til að ræsa fram mýrar til ræktunar. Þessu hlutverki hefur vélasjóður gegnt með góðum árangri um áratugi. Nú hefur á síðari árum farið svo, að ýmsir einstaklingar hafa fengið sér vélar og farið inn á starfssvið vélasjóðs og valið úr beztu verkefnin, en vélasjóður situr síðan eftir með hin erfiðari verkefni, sem einstaklingar hafa ekki hug á að vinna og vilja alls ekki vinna, en nauðsynlegt er þó engu að síður að séu tekin og unnin og að þau svæði, sem þar er um að ræða, séu ræst og þurrkuð, enda eiga bændurnir vissulega heimtingu á því, að þeir fái vélarnar leigðar, þó að verkefnin, sem þeir ætla að láta vinna, séu erfið. Þetta ástand veldur því, að rekstur vélasjóðs hefur versnað verulega og að því getur komið og það fyrr en varir, að honum verði ekki fært af erfiðum fjárhagsástæðum að sinna því hlutverki, sem honum er með lögum ætlað að hafa með höndum og framkvæma. Ég vil sem dæmi nefna það, að á s.l. ári keypti vélasjóður tvær vökvaknúnar skurðgröfur til þess að geta sinnt nauðsynlegum verkefnum á Vestfjörðum, sem venjulegar gröfur, sem vélasjóður á til, gátu ekki leyst af hendi, verkefnin voru þannig. Þessi verkefni vildi enginn og gat enginn annar, eins og á stóð, tekið að sér, en bændurnir á Vestfjörðum áttu heimtingu á því, alveg eins og aðrir, að þeir fengju fullnægjandi tæki leigu til starfa hjá sér. Þessar tvær vökvaknúnu gröfur, sem keyptar voru á þessu ári, kostuðu 2.4 millj. kr. samanlagt. Nú er rekstrarfé vélasjóðs ekki til margskiptanna og hann getur ekki lagt þetta fram af eigin rammleik. Hins vegar er það svo, að í jarðræktarlögunum eru ákvæði um það, að ef fjárhagur vélasjóðs leyfi ekki kaup á nægilega mörgum vélum til þess að fullnægja þeirri starfsemi, sem honum er ætluð, leggi ríkissjóður það til, sem á vantar, eftir því sem fé er til þess veitt á fjárlögum, að fengnum rökstuddum till. vélanefndarinnar og meðmælum Búnaðarfélags Íslands. Nú hefur vélanefndin reynt eftir megni að fá veitta fjárhæð á þessu fjárlagafrv., sem hér er til meðferðar nú, til þeirra vélakaupa, sem ég nefndi, en fjárveitingavaldið hefur daufheyrzt við þeim kröfum. Studdum við í minni hl. fjvn. óskir vélanefndarinnar, enda er okkur vel ljóst, að framræslan má ekki stöðvast. Okkur er það líka vel ljóst, að ef vélasjóður væri ekki starfræktur og enginn opinber aðili vissi fyrir víst, hvaða kostnaður er eðlilegur við framræslu, eru sterkar líkur til þess, að verð framræsluskurðanna hækkaði og þá auðvitað þar með útgjöld ríkissjóðs, en eins og öllum er kunnugt, greiðir ríkissjóður 70% af heildarframræslukostnaðinum, og er sú upphæð núna á þessu fjárlagafrv. áætluð 25 millj. kr. á næsta ári.

Ég er ekki í neinum vafa um, að rekstur vélasjóðs er ríkissjóði mjög hagkvæmur. Með vélum hans eru unnin verk, sem litlar líkur eru til, að menn fengjust til að vinna með eigin vélum, a.m.k. ekki þar sem verkefnin eru erfið og torleyst. Vélasjóður hefur talið sér skylt að halda framræslukostnaðinum eins lágum og frekast hefur verið unnt, og er það bæði hagur fyrir ríkissjóð og bændur. Sem dæmi um það, hvernig það verkar fyrir vélasjóð, að einstaklingar taka beztu verkefnin, en vélasjóður verður að sæta hinum verri og erfiðari, er það, að á árunum fyrir 1960, áður en samkeppninnar fór að gæta að marki, voru meðalafköst skurðgrafanna hjá vélasjóði um og yfir 100 þús. rúmmetrar á ári, en nú lítur út fyrir, að afköstin verði á þessu ári, sem er að verða liðið, um 60 þús. rúmmetrar, meðalafköst. Þetta liggur í því, að vélasjóður verður að vinna hin verri verk.

Ég held mér sé óhætt að segja það, að við framsóknarmennirnir í fjvn. séum þeirrar skoðunar, að mikillar framræslu sé enn þörf hér á landi og að vélasjóðurinn sé sú stofnun, sem eigi að tryggja það, að slík störf fáist unnin og að þau verði bændunum og auðvitað ríkinu sem ódýrust, og hvernig sem aðstæður eru um það að framkvæma verkin, þá eigi allir bændur kost þess að fá verk þessi unnin. Það eru kannske einhverjir, sem halda, að ræktunin megi stöðvast, það megi nú stanza um stundarsakir á því sviði. En þar er ég á allt öðru máli. Ég hygg, að sá bústofn, sem nú er í landinu, sem settur var á nú á haustnóttum, sé alls ekki nógu vel tryggður með fóðurforða í vetur eftir meðalsumar og meðalheyfeng yfir landið í heild. Þó er kúastofninn mun minni nú en í fyrra, og sauðfé mun ekki hafa fjölgað, að því er ég hygg. Við þurfum því enn þá að stórauka ræktunina, þótt ekki væri til annars en þess að vera birgir af fóðri, af heyi, fyrir þann bústofn, sem til er. En bústofninn þarf líka að aukast, og ég hygg það vera lágmark, að hann aukist til samræmis við fjölgun þjóðarinnar. Það má ekki minna vera að mínum dómi. Við eigum að beita í auknum mæli á ræktað land og auka þannig afurðirnar af gripum okkar.

Verkefnið er því mikið fram undan fyrir skurðgröfur og aðrar jarðræktarvélar. Sem dæmi ætla ég að nefna það, að til þess að koma 25 hektara túnstærð á öll býli landsins, þarf enn að rækta 39430 hektara skv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá landnámsstjóra. Ræktunarsambönd bændanna vinna ötullega ásamt vélasjóði að þessum verkefnum, en hin síðari ár hefur sá styrkur, sem ræktunarsamböndin hafa fengið til vélakaupa, farið mjög minnkandi. Til þess hefur ekki verið varið í fjárl. nema 1 millj. kr., og er sú fjárhæð í þessu fjárlagafrv. óbreytt, 1 millj. kr., eins og verið hefur að undanförnu. Það hafa verið veitt til beltadráttarvéla 25% af kaupverðinu hin síðari ár, en var lækkað á þessu ári niður í 20%. Þetta framlag má ekki lægra vera að mínum dómi, og ég álít, að það þyrfti að hækka. Nú liggja fyrir hjá vélasjóði umsóknir frá 16 ræktunarsamböndum um framlag á vélar, sem þessi ræktunarsambönd hafa keypt, bæði á þessu ári og undanförnum árum, og vitað er, að enn bætast við núna á næsta ári vélar, sem ræktunarsamböndin verða að kaupa, til þess að þau geti haldið starfsemi sinni áfram. Þess vegna var það, að vélanefnd vann að því við fjvn., að fjárveiting til styrktar vélakaupum ræktunarsambandanna yrði nú aukin, en án árangurs.

Við teljum, framsóknarmennirnir í fjvn., að það sé ákaflega varhugavert að draga úr ræktun eða stuðningi við hana. Það þarf ekki annað en að árferði kólni eitthvað um sinn og uppskeran minnki, þá mun bústofn landsmanna verða að minnka, nema til komi mjög aukin ræktun. Hér kemur ekki annað til mála að okkar dómi en við Íslendingar séum okkur nógir um mjólkurafurðir og kjöt. Landið okkar er vel til slíkrar framleiðslu fallið og ekkert vit í öðru en að nýta þá landkosti. Ég tel þess vegna, að það sé mjög misráðið hjá þeim meiri hluta, sem ræður afgreiðslu fjárl., að vilja ekki hlynná að því með fjárframlögum, að vélasjóður og ræktunarsamböndin verði sem bezt fær um að rækja sín ræktunarstörf.

Herra forseti. Ég taldi ekki verða hjá því komizt að gera þennan þátt mála hér að nokkru umtalsefni við lokaafgreiðslu fjárl., til þess m.a. að það komi skýrt fram, að við framsóknarmenn í fjvn. erum óánægðir yfir því, að ekki skyldi vera komið til móts við óskir vélanefndar í þeim málum, sem ég hef hér drepið á, og enn fremur til að vekja athygli hv. þm. á þessu máli, sem er að mínum dómi athyglisvert og töluvert alvarlegt. Ég skal svo , ekki tefja þessar umræður meira.