07.02.1967
Neðri deild: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

105. mál, orkulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta er mikill lagabálkur, sem hér er um að ræða, og ég efast ekki um, að ýmislegt kunni að vera nýtilegt þar í, og verður vafalaust, um leið og frv. verður rætt í n., athugað um afstöðuna til þessa máls. En það er tvennt í því, sem mér finnst, að þurfi sérstaklega athugunar við af þeim ákvæðum, sem ég álít neikvæð. Það fyrsta er, að með þessu frv. er dregið úr því einkavaldi ríkisins, sem slegið var föstu með raforkulögum 1946, og það er mál, sem þarf a.m.k. vel að athuga, áður en það er gert, því að almennt er það nú svo með þróunina í raforkumálum, að hún hefur heldur þótt erlendis eiga að ganga í þá áttina að sameina bókstaflega allt raforkukerfið undir einn þátt en að sundra því. En þetta er hlutur, sem þarf vel að athuga.

Hinn þátturinn í þessu frv., sem mér finnst neikvæður, er, að hér er enn verið að draga úr og veikja og sundra raforkumálastofnuninni. Þegar Landsvirkjunarlögin voru til umr. hjá okkur hér á Alþ., gerði ég þá aths. þar við, að ég áleit, að hið nýja orkuver, sem þarna ætti að reisa, ætti beinlínis að heyra undir ríkið og raforkumálastofnunina og með því að koma upp sérstakri Landsvirkjunarstjórn, væri verið að nokkru leyti að skapa tvöfalt ríkiskerfi þarna í, tvöfalt, opinbert kerfi, ópraktískt og að ýmsu leyti athugavert að mínu áliti. Nú er gengið enn lengra í þessu. Nú á að taka þarna rafmagnsveitur ríkisins undan raforkumálastofnuninni og gera að sérstakri ríkisstofnun. Ég veit ekki ástæðurnar til þess. Almennt hefur stundum a.m.k. verið talað um það, að frekar þyrfti að reyna að spara í ríkisapparatinu, en hér virðist tilhneigingin vera sú að skapa nýjar ríkisstofnanir, nýjar stjórnarnefndir og annað slíkt þar í kring. Ég held einmitt, að raforkumálastofnun ríkisins hafi verið með bezt reknu embættisstofnunum íslenzka ríkisins. Máske er það þess vegna sérstaklega, sem þótt hefur rétt að veikja hana. En ég álít margt í þessu, þó að efalaust sé margt til framfara, vera spor aftur á bak frá þeim lögum, sem sett voru hér á Alþ. 1946 undir forustu hæstv. núv. utanrrh. En ég skal ekki orðlengja neitt um þetta nú. Þetta er mikið frv. og ýmislegt nýtt í því og þarf sinnar stúderingar við á milli umr. nú og umræðna í flokkunum til þess að taka endanlega afstöðu til þess.