07.02.1967
Neðri deild: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

105. mál, orkulög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Það er ekki ástæða til þess að fara að taka upp langar umr. um þetta mál að svo stöddu. En vegna þess að hv. 3. þm. Reykv. (EOl) var að tala um tvö atriði, sem hann taldi vera spor aftur á bak, þegar dregið væri úr, eins og hann kallaði, valdi ríkisins í þessum málum, vil ég taka það fram, að það er í rauninni ekki. Það er ráðgerð sú breyting að afnema einkarétt ríkisins til þess að reisa og reka raforkuver, það er þannig orðað. En hins vegar er þannig um hnútana búið, að ríkisvaldið hefur allt að einu í hendi sér, hverjir fá leyfi til þess að reka raforkuver, vegna þess að það verður að bera það undir Alþ., og hv. 3. þm. Reykv. er þó allavega sammála því, að meiri hl. Alþ. fái að ráða, hvort út af því verður brugðið, að einhverju sveitarfélagi yrði gefið leyfi til þess að virkja. En þetta atriði verður nú allt ljósara, þegar hv. þm. hafa skoðað málið og það verður til meðferðar hér í þinginu. Þessu frv. var útbýtt í gær, og það er ekki eðlilegt, að hv. Alþ. hafi kynnt sér það til hlítar síðan.

Annað atriðið var það, að það væri verið að sundra raforkumálastofnuninni. Það er alls ekki hægt að segja, að það sé verið að sundra henni. Það er verið að skilgreina nánar verksvið tveggja aðila, annars vegar raforkumálastjóra, orkumálastjóra og hins vegar rafmagnsveitustjóra. Það er ekki verið að setja á stofn nýtt ríkisbákn. Það er alveg misskilningur, ef einhver heldur það. Það er ekki verið að auka kostnað við rekstur rafmagnsveitnanna eða við rekstur orkumálanna. Það er ekki verið að því. Og hv. 3. þm. Reykv. sannfærist um það, þegar hann hefur kynnt sér frv. betur. Það er ekki verið að lýsa vantrausti á raforkumálastofnunina, það er ekki með þessu frv. verið að segja, að hún hafi verið illa rekin. En þessi starfsemi öll er svo víðtæk og hefur orðið víðtækari en áður hin síðari ár, að það þykir eðlilegt að skilgreina betur á milli rafmagnsveitna ríkisins, sem jafnframt eru héraðsrafmagnsveiturnar, og Orkustofnunarinnar, og þegar þetta frv. er lesið yfir og menn gera sér grein fyrir þeim verkefnum, sem hvor aðili hefur um að sjá, orkumálastjóri og rafmagnsveitustjóri, held ég, að öllum ætti að vera ljóst, að verkefni þeirra er vissulega það umfangsmikið, að það er eðlilegt, að þessir forstjórar tveir séu sjálfstæðir aðilar, sem heyra hvor um sig undir ráðherra.