07.04.1967
Neðri deild: 60. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

105. mál, orkulög

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft frv. það, sem hér er til umr., til meðferðar og fjallað um það á allmörgum fundum, sem n. hélt. Eins og fram kemur í áliti meiri hl. fjhn., varð ekki samstaða um afgreiðslu málsins, og klofnaði því n. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem fluttar eru á þskj. 348. Annar minni hl., hv. framsóknarmenn, leggur til, að frv. verði samþ. með brtt., sem þeir flytja á þskj. 340, en annar minni hl., hv. þm. Lúðvík Jósefsson, leggur til, að frv. verði fellt. Þær brtt., sem fluttar eru á þskj. 348, eru þannig fluttar af meiri hl. Enda þótt 1. minni hl. fjhn. sé sumum þeirra að verulegu leyti sammála, var þessi háttur hafður á, að meiri hl. flytti till., þar sem 1. minni hl. var auk þess með aðrar breyt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni frv. hér, hæstv. raforkumálaráðh. gerði það hér við 1. umr. En ég ætla að leyfa mér að fara örfáum orðum um þær brtt., sem meiri hl. flytur, svo og um meðferð málsins í hv. fjhn.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl., voru kvaddir á fund n. þeir aðilar, sem sömdu þetta frv., þeir Jón Sigurðsson hagsýslustjóri, Valgarð Thoroddsen, rafmagnsveitustjóri ríkisins og Gísli Jónsson, rafveitustjóri í Hafnarfirði. Þá kom einnig til viðræðna við n. raforkumálastjóri, Jakob Gíslason, og lagði hann fyrir n. nokkrar aths. við frv., og voru þær lagðar fram hér á hv. Alþ. Þá bárust n. einnig brtt. frá Sambandi íslenzkra rafveitna, svo og Tæknifræðingafélagi Íslands og Félagi löggiltra rafvirkjameistara. N. fór yfir allar þessar aths., og eru þær till., sem fram eru komnar og bornar fram í nafni meiri hl., sprottnar af þeim aths., sumum hverjum, en þær ekki allar teknar til greina. Bréf þau, sem bárust frá Tæknifræðingafélagi Íslands, svo og Félagi löggiltra rafvirkjameistara, voru tekin til greina hér í brtt. meiri hl., en bréf Tæknifræðingafélagsins fjallaði um, að ekki væri ástæða til þess, að í embætti forstjóra rafmagnseftirlits ríkisins né heldur rafmagnsveitna ríkisins væru verkfræðingar, þar gætu tæknimenntaðir menn eins komið til greina til starfa. Nm. voru sammála um, að hér væri á ýmsan hátt bent á rétt atriði, og leggja því til, meiri hlutinn, í 8. brtt. svo og 11., að þar sem stendur í frv. í 39. og 56. gr.: „og skal vera verkfræðingur að menntun“, falli það niður í báðum tilfellum, og sé það látið á vald veitingarvaldsins á hverjum tíma, hvort í þessi störf eru ráðnir verkfræðingar eða tæknifræðingar, því að vel getur einnig komið til greina, að í þessi embætti séu skipaðir menn, sem e.t.v. hafa einhverja aðra menntun en þá, sem hér hefur verið rætt um. Í sambandi við bréf Félags löggiltra rafvirkjameistara hafði verið á það bent af hálfu raforkumálastjóra, að við 41. gr. væri réttara orðalag það sem kemur hér fram í brtt. á þskj. 348. Ég ætla þá í örfáum orðum að rekja brtt. Það er þá fyrst, að við 1. gr. bætist: „Stofnunin tekur við öllum eignum og tekur á sig efndir á skuldbindingum embættis raforkumálastjóra að undanskildum þeim, er um ræðir í 56. gr.“, en þar er tekið fram, að rafmagnsveitur ríkisins taki við eignum og rekstri rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins, og þótti því eðlilegt, að sams konar ákvæði væri um Orkustofnunina í sambandi við yfirtöku á eignum svo og skuldbindingar raforkumálastofnunarinnar.

Við 2. gr. er nánari skýring á hlutverki Orkustofnunar, skv. till. raforkumálastjóra, þ. e. að á eftir orðunum „sé fullnægt“, komi: „og orkulindir landsins hagnýttar“. Þetta er nánari skýring. Niðurlag 2. tölul. orðist svo: „aðrar rannsóknir á sviði orkumála, eftir því sem tilefni gefast, og ef við á gegn greiðslu“.Hér stendur hins vegar í frv.: „aðrar rannsóknir á sviði orkumála, eftir því sem tilefni gefast, og sérstakar rannsóknir fyrir orkufyrirtæki eftir beiðni í hvert sinn og gegn greiðslu“. Þetta er nánast orðalagsbreyting, og það er reynt að halda sér við, að stofnunin taki að sér rannsóknir á sviði orkumála eingöngu, eftir því sem tilefni gefast, og ef það er fyrir stofnanir, sem eru ekki á vegum Orkustofnunar, sé það gegn greiðslu, ef þannig hagar málum. Svo er það 4. töluliður. Í stað þess, sem stendur í frv.: „um þetta skal Orkustofnun hafa samvinnu við aðrar ríkisstofnanir og stofnanir, sem ríkið er aðili að, og annast áætlanagerð til langs tíma,“ er lagt til, að orðalagið verði: „um þetta skal Orkustofnun hafa samvinnu við aðrar ríkisstofnanir og aðila, sem vinna að áætlunargerð til langs tíma,“ sem sagt að binda þetta við aðrar ríkisstofnanir og svo þá aðila, sem fara sérstaklega með þessi mál, þ.e.a.s. áætlunargerð til langs tíma.

3. brtt. er við 6. gr., og felur í sér, að í stað orðsins „einstaklingum“, komi: „öðrum aðilum“, þ. e., að binda þetta ekki við einstaklinga.

Við 7. gr. er hins vegar gerð veigameiri brtt. Í frv. er gert ráð fyrir því, að heimilt sé að reisa og reka topp- og varastöð, allt að 1000 kw., án sérstaks leyfis. Hér er lagt til, að orðin „topp- og“ falli niður, þ.e.a.s. að greinin hljóði svo: „þá er heimilt að reisa og reka varastöð, allt að 1000 kw., án sérstaks leyfis“. Það kom fram í n., að um þetta eru menn ekki sammála. Hins vegar var n. þeirrar skoðunar að athuguðu máli, að heimila bæri að reisa og reka varastöðvar, sem væru allt að 1000 kw., án sérstaks leyfis, en n. féllst ekki á að mæla með slíkri heimild varðandi toppstöðvar, sem mundu þá verða, ef til kæmu, meira og minna verkandi inn á rafmagnskerfið, og leggur því til, að þessi orð falli niður.

5. till. er orðalagsbreyt. við 12, gr. Í stað orðsins „álitið“ komi: „skoðað“ — Brtt. er við 18. gr., þ. e., að aftan við 2. málsgr., þar sem stendur: „ráðherra sá, sem fer með raforkumál, ákveður orkuveitusvæði hverrar héraðsrafmagnsveitu“, bætist: „að fenginni umsögn viðkomandi sveitarfélags:“ — N. telur eðlilegt, að leitað sé álits viðkomandi sveitarfélags um orkuveitusvæðið, áður en það er ákveðið.

Í 26. gr. leggur n. til, að þar sem stendur: „ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast lán allt að 80% upphaflegs stofnkostnaðar héraðsrafmagnsveitna að fenginni umsögn Orkustofnunar“, skuli orðið „upphaflegs“ falla niður. Þegar þeir, sem sömdu þetta frv., voru beðnir skýringar á því, hvað við væri átt með þessu orðalagi, kom það nánast fram hjá þeim, að þeirra hugsun væri, að heimilt væri að ábyrgjast lán allt að 80% stofnkostnaðar hvers áfanga hjá héraðsrafmagnsveitum, og að athuguðu máli var talið, að þetta orð gæti fallið niður, enda upphaflegur kostnaður nánast ekkert annað en stofnkostnaður. Það, sem talið var, að verið væri að fyrirbyggja með þessu, var, að þegar nýir áfangar væru byggðir, væri ríkisstj. ekki heimilt að ábyrgjast nema 80% af stofnkostnaði hins nýja áfanga, það væri ekki heimilt að endurmeta það, sem eldra væri, þó að til verðhækkana hefði komið, og veita 80% út á það nýja áætlunarverð, sem þá væri komið.

Ég hafði áður gert grein fyrir 8. brtt. svo og fyrri lið þeirrar 9., þ.e.a.s. að orðin „og skal vera rafmagnsverkfræðingur að menntun“ í 39. gr. féllu niður, og við 41. gr., e-lið, að í stað þess; að í frv. er sagt „löggildingu á hæfum rafvirkjum og um menntun og hæfni eftirlitsmanna með raforkuvirkjum,“ þá stæði „löggildingu til rafvirkjunarstarfa og um menntun og hæfni eftirlitsmanna með raforkuvirkjum.“ Það, sem hér er átt við, er, að ráðh. setur í reglugerð um raforkuvirki ákvæði til varnar gegn hættu og tjóni af þeim og til varnar gegn truflunum af starfrækslu virkja, sem fyrir eru eða síðar kunna að koma. Og í reglugerð skal m. a. setja ákvæði um löggildingu aðila til þess að annast rafvirkjunarstörf. Það var þetta, sem félag rafvirkja benti m. a. á og þarna er tekið til greina. Við f-lið, þar sem ákveðið er að í reglugerð skuli sett heimild handa rafmagnseftirliti ríkisins til að láta stöðva um stundársakir starfrækslu raforkuvirkja, var talið eðlilegt að bæta inn í „eða héraðsrafmagnsveitum í umboði þess“. Undir mörgum kringumstæðum væru héraðsrafmagnsveiturnar tiltækari aðili til að taka ákvarðanir, og þá er hlutunum þannig hagað, að það sé gert í umboði rafmagnseftirlitsins og þannig, að það yrði þá sá aðili, sem síðast mundi kveða upp úr um það, hvort þær stöðvanir, sem héraðsrafmagnsveiturnar hefðu ákveðið, væru rétt metnar.

Við 53. gr. er 10. brtt., sem er orðalagsbreyting. Ég gerði áður grein fyrir 11. brtt. í sambandi við menntun forstjóra rafmagnsveitna ríkisins. — 12. brtt. er við 62. gr., þ. e. að 2. tölul. orðist svo: „Verð fyrir orku selda beint til notenda“ í staðinn fyrir, að þar stendur: „Verð fyrir orku selda og afhenta við húsvegg kaupenda eða notkunarstað þeirra.“

13. brtt. er við 63. gr., og hún er á þá lund, að á undan orðinu „eignaaukningu“ komi orðið „óhjákvæmilegri“. Það er talið, að með þessu sé lögð áherzla á, að teljum rafmagnsveitna ríkisins af raforkusölu skuli varið til að mæta rekstrarkostnaði þeirra og eðlilegri og óhjákvæmilegri eignaaukningu, þar með talin orkukaup, stjórn, gæzla, viðhald, vaxtagreiðslur og fyrning eigna.

Síðast er brtt. 14 við 74. gr., að í staðinn fyrir orðið „hefur“ í eftirfarandi málsgrein: „Orkustofnun hefur eftirlit með þeim framkvæmdum, sem orkusjóður veitir fé til“ komi orðin „getur haft“, — þannig að það sé ekki beint ákveðið í frv., heldur að það sé orðað með þessum hætti.

Eins og ég gat um áðan, þá mælir meiri hl. n. með því, að frv. verði samþ. með þessum brtt. og a.m.k. 1. minni hl. mun vera sammála um allar. þær brtt., sem hér eru lagðar fram, og sé ég því ekki ástæðu til þess að gera frekari grein fyrir afstöðu meiri hlutans.