07.04.1967
Neðri deild: 60. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

105. mál, orkulög

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá fjhn., varð nefndin ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég hef skilað sérstöku nál. varðandi afstöðu mína til málsins, og hún er sú, að ég er andvígur þessu frv. og vil því láta fella það. Ég hef ekki flutt neinar brtt., af því að þetta er mín meginafstaða til málsins, að hér sé ekki stefnt í rétta átt, heldur í þveröfuga átt við hið rétta í rafmagnsmálum okkar. Ég neita því þó ekki, að það sé hægt að betrumbæta þetta frv. eins og það liggur fyrir, með því að fá þar samþ. nokkrar brtt., en ég tel, að meginefni frv. sé óæskilegt og af því eigi fyrst og fremst að fella frv. Það er því nokkur ástæða til þess að reyna að glöggva sig á því, hvert er í rauninni meginefni þessa frv. Að hverju er verið að stefna í raforkumálum okkar með flutningi þessa frv., og hvað er það, sem virðist sérstaklega vaka fyrir hæstv. ríkisstj. í raforkumálum landsins með flutningi þessa frv.? Ég veit, að allir hv. alþm. kannast vel við það, að það var í rauninni mörkuð ný stefna í raforkumálum landsins með raforkulögunum, sem sett voru árið 1946. Fram að þeim tíma hafði meginþunginn í raforkumálum landsins hvílt á bæjar- og sveitarfélögum. Hin einstöku bæjar- og sveitarfélög urðu að hafa forgöngu um það að leysa sín rafmagnsmál eða rafmagnsmál þeirra svæða, sem skiptu þau mestu máli. Fram að þeim tíma voru hér flutt frv. eða till. á Alþ. margar um svipuð efni, svo að segja á hverju þingi. Þá var það ýmist bæjar- eða sveitarstjórn á Norðurlandi, Austurlandi, Vestfjörðum eða annars staðar á landinu, sem sótti til Alþ. með beiðni um það að fá ríkisábyrgð fyrir svo og svo miklu láni til framkvæmda í raforkumálum. Og þá var það, fram að þessum tíma, að aðstoð ríkisins var veitt í sambandi við raforkumál fyrst og fremst í því formi að veita bæjar- og sveitarfélögum ríkisábyrgðir fyrir lánum, sem áttu að ganga til raforkuframkvæmda. Einnig var um það að ræða, að ríkið hafði sína stofnun, sem veitti nokkrar tæknilegar upplýsingar til framkvæmda í þessum efnum. Og ég skal ekki fara lengra út í það að þessu sinni að rekja þetta ástand, sem hér var. En með raforkulögunum frá 1946 er mörkuð ný stefna hér á Alþ. í raforkumálum þjóðarinnar, og það var ekki vitað, að neinn flokkslegur ágreiningur væri um þá stefnu, sem þá var upp tekin. Það voru að vísu ekki allir á einu máli um það, hvernig þessum málum skyldi skipað, en það var ekki um það að ræða fyrst og fremst, að sá ágreiningur væri af flokkslegum toga spunninn. Á þessum tíma höfðu í rauninni allir sannfærzt um það, sem eitthvað höfðu skipt sér af þessum málum, að það væri orðið nauðsyn að taka upp nýja stefnu í raforkumálum landsins, stefnu, sem miðað gæti að því að leysa raforkumál þjóðarinnar á hagkvæmari hátt en áður hafði verið gert. Og þá var sú stefna mörkuð, að ríkið skyldi taka að sér forustuna um það að rafvæða landíð, reisa stærstu orkuverin, koma upp stærstu orkuveitulínunum um landið og reyna að sjá landsmönnum, hvar svo sem þeir ættu heima, og atvinnurekstrinum í landinu, reyna að sjá þessum aðilum fyrir þeirri raforku, sem þeir þyrftu á að halda. Það var alveg augljóst mál öllum, að gamla fyrirkomulagið leiddi til margra rafveitna, margra smárra orkuvera dreifðra um landið, sem eðli málsins samkvæmt væri óhagstætt í rekstri. Nú, meðan þetta gamla kerfi var í gildi, þá varð ríkið auðvitað í mörgum tilfellum að hlaupa undir bagga og standa undir þeim lánum, sem það hafði tekið að sér ábyrgð á, og jafnvel að greiða hinum einstöku rafveitum beina fjárhagsstyrki.

Frá þessu öllu átti að hverfa stig af stigi með þeirri stefnu, sem mörkuð var með raforkulögunum frá 1946. En í upphafi þeirra laga segir, að ríkið eitt skuli hafa heimild til að reisa og reka raforkuver, sem séu stærri en 100 hestöfl. Með þessu var því slegið föstu, að ríkið skyldi hafa einkaréttaraðstöðu til þess að koma upp raforkuverum í landinu. Síðan var að vísu að því vikið vegna þessa ástands, sem fyrir var, að þeir aðilar í landinu, sem komið hefðu upp raforkuverum og stæðu að mörgu leyti með hálfnað verk, hefðu ekki fullvirkjað, t.d. þau vatnsföll, þar sem þeir höfðu þegar reist fyrri hlutann eða fyrsta hlutann af sínu orkuveri, að þá yrði þessum aðilum þó með sérstöku leyfi ríkisvaldsins heimilað að halda áfram að fullvirkja, þar sem verkið var hálfnað, en þó gert ráð fyrir því, að ríkið gengi inn í þessi orkuver jöfnum höndum að auknum hluta og að ríkið yrði varðandi öll stærri orkuverin a.m.k. helmingseignaraðili og stefnt að því, að ríkið eignaðist þessi meginorkuver öll. Í þessari 1. gr. raforkulaganna frá 1946 var svo eitt heimildarákvæði handa ráðh., að hann mætti þó veita heimild til þess að koma upp orkuveri, sem væri innan við 2 þús. hestöfl, ef sérstök meðmæli frá raforkumálastjóra lægju fyrir í slíku tilfelli. En með löggjöfinni hafði einmitt verið ákveðið, að raforkumálastjóri skyldi vera æðsti maður landsins í raforkumálum þjóðarinnar.

Með þessu frv. er alveg augljóst, hvað vakir fyrir hæstv. raforkumrh., sem stendur að flutningi þessa máls, og ríkisstj. væntanlega allri, að taka nú upp nýja stefnu í raforkumálum þjóðarinnar, breyta frá þessari meginstefnu, enda er það alveg augljós tilgangur með þessu frv. Það er skýrt tekið fram í grg. frv., sem hér liggur nú fyrir til umr., að eitt meginatriðið í þessari væntanlegu löggjöf sé einmitt það að afnema einkarétt ríkisins í raforkumálum, og síðan koma frv.-gr., sem beinlínis opna stórlega frá því, sem áður var, möguleika til þess að aðrir geti tekið þátt í byggingu raforkuvera og rekstri þeirra eftirleiðis. Í 7. gr. frv., eins og það liggur fyrir, er sagt, að til þess að reisa og reka raforkuver stærra en 2 þús. kw. þurfi leyfi Alþ. En sem sagt, raforkuver upp að 2 þús. kw. getur ýmist ráðh., hver svo sem hann er, veitt leyfi fyrir, eða þá að beinlínis er gert ráð fyrir, að hægt sé í sumum tilfellum að koma upp sérstökum topp- og varastöðvum upp í 1000 kw., án þess að leitað væri eftir slíku leyfi. Það er alveg augljóst mál, að með þessu er verið að marka stórfellda stefnubreytingu í raforkumálum þjóðarinnar. Á því er vitanlega gífurlega mikill munur, hvort það er bundið í l., að ríkið eitt skuli hafa heimild til þess að koma upp raforkuverum eða hvort gengið er út frá því, að viðkomandi raforkumálaráðh. geti veitt einstökum aðilum heimildir til þess að koma upp sínum raforkuverum. Með því að opna fyrir þennan möguleika á nýjan hátt, er verið að snúa til gamla skipulagsins, sem hér var ríkjandi, sem leiddi af sér stórfelld vandkvæði í ýmsum tilfellum. Ég skal nú nefna dæmi um það, hvers konar hættur vofa hér yfir alveg augljóslega. Ef slík ákvæði sem þessi væru sett í lög, væri það orðið í hendi viðkomandi raforkumálaráðh., hvort hann heimilaði að reisa raforkuver, sem væri undir 2000 kw. Hann þyrfti ekki að leita til Alþ. með það, það væri hans mál. Mér er nú sem ég sjái t.d. núv. hæstv. raforkumálaráðh., ef kæmu til hans aðilar, t.d. úr hans kjördæmi, sem þrýstu á hann svona á passlegan hátt og vildu fá að reisa raforkuver, af því að það þætti standa svona sæmilega af sér þar með að koma upp raforkuveri, sem væri innan við 2000 kw. Og sá staður vildi þá taka sig út úr því svæði, sem hann er á, og leysa sín raforkumál með sérvirkjun. En 2000 kw. virkjun er hreint ekki lítil virkjun. Miðað við þá raforkunotkun, sem lengst af hefur verið lögð til grundvallar hér á landi, mundi vera talið, að 2400 kw. virkjun, sem væri svona sæmilega örugg með orku, væri mjög góð fyrir svona 4000 manna bæ og þó væri hún fullgóð, þar sem um það væri að ræða, að hægt væri að skjóta inn toppstöðvum þar á milli, þegar orkuna þryti eða eitthvað drægi úr henni. Ég er ósköp hræddur um það af fenginni reynslu, að núv. hæstv. raforkumálaráðh. og ekki hann einn, heldur margir aðrir ráðherrar líka og ekki aðeins ráðh, í núv. ríkisstj., heldur í flestum þeim ríkisstj., sem ég hef þekkt til, að þá gæti farið svo fyrir þeim ráðh. að hann yrði við beiðni heimastaðar síns, sem væri í hans kjördæmi, þetta stór og vildi draga sig úr og leysa sín raforkumál með því að virkja einhverja heimasprænu, sem þó hefði yfir þessari orku að ráða. En þetta gæti orðið til þess, að nærliggjandi svæði, jafnvel heil sýsla, tvær sýslur eða heill landshluti, hann yrði þannig settur, eftir að slík sérvirkjun hefði verið gerð á einum stað, að það væri í rauninni brostinn grundvöllurinn fyrir því, að leysa raforkumál viðkomandi heildarsvæðis á vitlegan hátt fyrir framtíðina með því að nýta staðina alla saman og reyna að leysa raforkumál þeirra á sent hagstæðastan hátt yfir heildina. Þá hefði sem sagt þurft að hafa þennan stað, sem ég var hér að gera ráð fyrir að e.t.v. óskaði eftir að leysa sín mál út af fyrir sig, þá hefði þurft að hafa hann með í heildinni. Það er því veruleg hætta á ferðum, að þetta ákvæði geti leitt til þess, að aftur komi upp sérvirkjanir og smávirkjanir og dreifing, aukin dreifing á orkuframleiðslunni, sem verði mjög óhagstætt, þegar litið er á málið frá heildarsjónarmiði séð. En þeir, sem flytja þetta frv., telja þetta einmitt eitt aðalatriði málsins að hverfa frá þeirri stefnu, sem mörkuð var með raforkulögum frá 1946, og að taka upp að meira eða minna leyti möguleika á því, að aftur verði horfið inn á gamla kerfið, sem hér var gildandi fyrir 1946. Ja, ég geri nú svo sem ráð fyrir því, að hæstv. raforkumrh. kunni að segja sem svo, eins og þeir menn segja, sem finna það, að þeir eru komnir í nokkurn vanda, að það sé ekki nein ástæða til að ætlast til þess að ráðh. raforkumála, hann geri ekki yfirleitt það, sem bezt sé fyrir heildina í þessum málum, og veiti þar af leiðandi ekkert svona leyfi, þar sem svona standi á. En ég segi: það á að marka stefnuna í löggjöf alveg skýrt, og það á ekki að breyta þeirri meginstefnu nema með ákvörðun Alþ. Sú meginstefna á ekki að vera undir geðþótta einstakra ráðh., því að við höfum þá reynslu, að einn þeirra getur litið svona á málið og annar á hinn veginn. Og auðvitað meina þeir, sem þetta ákvæði vilja setja inn í lög, eitthvað með því, þeir eru hér að opna fyrir þennan möguleika.

Þegar grein er gerð fyrir því hér í aths. við frv., hvað hafi vakað fyrir hæstv. ráðh. með skipun sérstakrar n. til þess að endurskoða raforkulögin frá 1948, þá segir, að í bréfi ráðh. til n. hafi staðið, „jafnframt því sem skipulag raforkuvinnslu og raforkudreifingar á vegum ríkisins verði íhugað í ljósi þeirrar stefnu, sem mörkuð hefur verið með setningu laga um Landsvirkjun.“ Hvaða stefna var mörkuð í raforkumálum þjóðarinnar með lögum um Landsvirkjun? Ég veit ekki betur en lögin um Landsvirkjun hafi verið túlkuð þannig hér á Alþ., að það hafi beinlínis verið ætlunin í upphafi að koma þar upp raunverulegri landsvirkjun, þ.e.a.s. stórvirkjun í raforkumálum, sem ætti í rauninni að vera fyrir landið sem heild. Og upphaflega var þannig staðið að málinu, að það var ekki aðeins allt Suðvesturlandið, sem stæði að Landsvirkjun, heldur var ætlunin; að tengilína yrði á milli Suðurlands og Norðurlands og Norðurlandsveitukerfið tengt við Suðurlandsveitukerfið og síðan var meiningin, að samtenging yrði á öllu raforkukerfi landsins í framtíðinni. Það er rétt, að það kom fljótlega í ljós, að forustumenn í núv. ríkisstj. virtust ekki kæra sig um það, að ríkið — að íslenzka ríkið — hefði á hendi fullkomna forustu í þessari landsvirkjun. Þeir vildu ganga þannig frá yfirstjórn fyrirtækisins, sem var verið að koma upp, að íslenzka ríkið átti ekki að vera nema helmings aðili á móti Reykjavíkurborg einni. Og þó að ísl. ríkið yrði að sjálfsögðu að leggja til svo að segja allt það fjármagn, sem þurfti til að ráðast í Búrfellsvirkjun, þá var þó gengið svo frá yfirstjórn á þessu fyrirtæki, að þess var vandlega gætt, að íslenzka ríkið sem heild mátti ekki háfa eina gráðu fram yfir Reykjavíkurborg í valdi í þessu fyrirtæki. Hvor aðili um sig, íslenzka ríkið annars vegar og Reykjavíkurborg hins vegar máttu tilnefna tvo menn í stjórn fyrirtækisins, en oddamanninn mátti íslenzka ríkið ekki tilnefna. Nei, ef þessir tveir aðilar, Reykjavíkurborg og íslenzka ríkið, ekki gátu orðið sammála um þennan oddamann, þá átti hæstiréttur að skera úr, hver persónan ætti að vera. Það var auðvitað augljóst, að hér lágu pólitískar hvatir til í sjálfu sér. Það var verið að reyna að hafa áhrif á það, hvernig farið yrði í framtíðinni með stjórn þessa mikla fyrirtækis. En í rauninni er ekki hægt að segja, að með lögunum um Landsvirkjun hafi verið mörkuð nein ný stefna út af fyrir sig í raforkumálum landsins, því að það var a.m.k. ekki látið uppi þá að það væri ætlunin, að Landsvirkjun næði aldrei nema aðeins yfir Suðvesturlandssvæðið og síðan ætti að deila upp öðrum hlutum landsins í tilsvarandi fyrirtæki, kannske mörg fyrirtæki, sem öll ættu að vera byggð upp á sams konar grundvelli eins og Landsvirkjunarfyrirtækið um Þjórsárvirkjunina var byggt upp. Það kom ekki fram og því var ekki neinni slíkri stefnu slegið fastri í sambandi við setningu l. um Landsvirkjun.

Meginbreytingarnar varðandi okkar raforkumál, sem felast í þessu frv., eru að mínum dómi þessar:

Í fyrsta lagi er stefnt að því með þessu frv. að breyta um forustuhlutverk ríkisins í raforkumálum. Það á að rýmka heimildir til prívataðila til þess að koma upp raforkuverum og reka raforkuver. Og það á mjög að rýmka heimild ráðherra til þess að hafa áhrif á það, hvernig raforkumálin í landinu þróast. Það á sem sagt að hverfa frá því, frá þeirri meginstefnu, að ríkið eigi að reisa aðalraforkuverin í landinu, eigi að hafa forustu um það að leggja aðalveitulínurnar og eigi að hafa á hendi rekstur þessara mannvirkja.

Í öðru lagi er stefnt að því með þessu frv. að leysa í rauninni upp núverandi raforkumálaskrifstofu ríkisins. Þessi raforkumálaskrifstofa hefur verið ein stærsta framkvæmdastofnun ríkisins nú um nokkurra ára skeið. Hún hefur ekki aðeins haft í sínum höndum mjög víðtækar rannsóknir á þessu þýðingarmikla sviði orkumálanna og ekki aðeins verið til ráðuneytis ríkisstj. á hverjum tíma, heldur hefur hún staðið í beinum stórframkvæmdum við að koma upp orkuverum, sem hafa átt að fullnægja raforkuþörfinni í heilum landshlutum, og hún hefur staðið fyrir því að leggja aðalorkuveitur og að taka síðar að sér raforkusölu í stórum stíl. Nú er stefnt að því að splundra þessari skrifstofu, þessari raforkumálastofnun og í rauninni á að gera hana algerlega að áhrifalausri stofnun.

Í þriðja lagi felur þetta frv: það í sér, að rafmagnsveitur ríkisins, sem áður höfðu verið undir beinni stjórn raforkumálaskrifstofunnar, þar sem gert var ráð fyrir, að meginframkvæmdavaldið væri í okkar raforkumálum, að þær verði nú skildar frá embætti raforkumálastjóra og hans skrifstofu og rafmagnsveitur ríkisins gerðar að sérstöku rekstrarfyrirtæki, með sérstökum framkvæmdastjóra, sem á að heyra beint undir raforkumálaráðherra. Áður hafði að vísu verið gert ráð fyrir því, að ráðinn yrði sérstakur rekstrarframkvæmdastjóri fyrir rafmagnsveitur ríkisins, og það var ráðinn sérstakur rekstrarframkvæmdastjóri, sem var undir yfirstjórn raforkumálastjóra. Svo að það þurfti ekki að gera þessa skipun þess vegna, enda beinlínis gert ráð fyrir því í raforkulögunum frá 1946, að sá háttur yrði á hafður, að sérstakur rekstrarstjóri yrði ráðinn fyrir þetta fyrirtæki, Rafmagnsveitur ríkisins. En ætlunin er líka greinilega að breyta um hlutverk rafmagnsveitna ríkisins. Í raforkulögunum frá 1946 var það skýrt tekið fram í 6. gr. l., hvert væri hlutverk og hver væri skylda rafmagnsveitna ríkisins. En upphaf 6. gr. l. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Rafmagnsveitur ríkisins skulu hafa það verkefni að afla almenningi og atvinnuvegum landsins nægrar raforku á sem hagfelldastan og ódýrastan hátt, með því að vinna hana sjálfar, kaupa eða taka við henni frá öðrum orkuverum eða orkuveitum“ o.s.frv.

Sem sagt skýrt tekið fram, að þær skulu hafa það verkefni að afla almenningi og atvinnuvegum landsins nægrar raforku. Skyldan var færð yfir á þessa stofnun, það var þessi stofnun, sem átti að afla nægrar raforku og sjá um, að hún væri til fyrir atvinnulífið í landinu og fyrir almenning í landinu. Og þannig hefur verið á þessu haldið. Það hafa verið gerðar kröfur frá bæjar- og sveitarfélögum og frá atvinnulífinu til rafmagnsveitna ríkisins um það, að þær sæju um það á hverjum tíma, að næg raforka væri fyrir hendi. Og þær hafa reynt að leysa þetta alveg eftir því, sem geta hefur frekast verið til. En sem sagt, þeir aðilar, sem áður töldu það vera skyldu sína, og það var þeirra skylda, sveitarfélaganna í landinu, að leysa raforkumálin, þeir hurfu úr þessari skyldu, en skyldan færðist yfir á þessa ríkisstofnun í staðinn. En skv. þessu frv., sem hér liggur fyrir nú, á ekki lengur að hvíla þessi skylda á rafmagnsveitum ríkisins. Nú er verkefni rafmagnsveitna ríkisins á allt annan hátt, sem sagt á þann hátt, að það skuli blátt áfram verða verkefni þeirra að framleiða og selja raforku. Sem sagt fyrst og fremst greinilega við það miðað að reka þau fyrirtæki, sem fyrir eru í landinu. En skyldan er tekin af. Þetta fyrirtæki getur auðveldlega sagt skv. þessum lögum á eftir, að á því hvíli engin sérstök skylda til þess að afla atvinnuvegunum í landinu eða almenningi nægrar raforku við sem hagstæðustu verði. Skylda rafmagnsveitna ríkisins er að reka þær veitur, sem rafmagnsveitur ríkisins ná yfir á hverjum tíma, og svo er það þeirra mál, hvort lengra verður haldið eða ekki. Hér er alveg greinilega um stefnubreytingu að ræða.

Nú, það eru fleiri ákvæði í þessu frv., sem bera það augljóslega með sér, að það er stefnt að því að breyta verulega til um stefnu í raforkumálum landsins. Með þessu frv. er alveg augljóslega verið að draga einnig úr áhrífum Alþ. á yfirstjórn raforkumálanna í landinu. Skv. núgildandi raforkulögum kaus Alþ. raforkumálastjórn, stjórn eða raforkumálaráð, eins og þau annars hafa heitið, en raforkumálaráð hafði mjög víðtæk verkefni skv. lögunum og átti að fylgjast með öllum meiri háttar framkvæmdum í raforkumálum landsins og gát gert um þær till. Þar hafði Alþ. sitt íhlutunarvald um framkvæmd málefna, en með þeirri skipan sem nú er gert ráð fyrir að taka upp skv. þessu frv., má segja, að Alþ. sé sett út úr hvað áhrif snertir varðandi öll meiri háttar atriði um orkumál. Alþ. á að vísu að fá að kjósa áfram í svonefnt orkumálaráð, en þá er bara þess gætt með ákvæðum um þetta orkumálaráð, að það á hreinlega ekkert að gera. Það er að vísu gert ráð fyrir því, að orkumálaráð megi gera till. til ráðh. um skiptingu á því fé, sem Alþ. er þá búið að ákveða fyrir hvert einstakt ár til dreifiveitna um sveitir landsins. Nú hefur raforkumálaráð raunverulega verið yfirstjórn hins mikla raforkusjóðs ríkisins, sem er orðið mikið fyrirtæki. Skv. upplýsingum, sem fjhn. fékk, var eignarhliðin á reikningi raforkusjóðs nú í árslok 1966 talin rúmlega 800 millj. kr. Skuldir voru að vísu þar á móti talsvert miklar, hér er ekki um hreina eign að ræða. Skuldlaus eign sjóðsins er talin vera skv. reikningum 205 millj. kr., en þessar tölur sýna, að raforkusjóður var þegar orðinn býsna mikil stofnun, og yfirstjórn hans hafði því vitanlega talsvert mikið um þessi mál að segja. Þær reglur höfðu verið á um langan tíma, að yfirstjórn raforkumálanna gat ráðstafað fjármunum raforkumálasjóðs í þágu rannsókna, og ýmissa undirbúningsframkvæmda varðandi framkvæmdir í raforkumálum, og á þann hátt var raforkumálastjórnin ekki algerlega bundin við þær fjárveitingar, sem ákveðnar voru á fjárl. hverju sinni til undirbúningsframkvæmda í raforkumálum eða til rannsókna við þau fjölbreytilegu atriði, sem koma fram í undirbúningi að virkjunum, en með þessu frv. er ákveðið, að breyting skuli verða á í þessum efnum, og það kom fram við viðræður í n. við þá menn, sem staðið höfðu að því að semja frv. f. h. ríkisstj., að það væri sérstakt kappsmál að sjá um það, að stjórn orkumálanna, eins og hún á að heita skv. frv., hefði enga möguleika til þess að notfæra sér neina sjóði eins og áður um raforkumálasjóð, til þess að standa undir rannsóknum eða undirbúningsframkvæmdum varðandi þessi mál, og það skýrt tekið fram, að þessir aðilar fengju ekki að standa að neinum framkvæmdum eða ráðstöfunum í þessum efnum, nema samkvæmt þeim ákvörðunum, sem Alþ. hefði tekið fyrir hvert einstakt ár við afgreiðslu fjárlaga, og þannig átti sem sagt að hafa meira aðhald að þeim mönnum, sem stjórnað hafa þessum málum, en hingað til hefur verið. Nú er það alveg vitað mál, að rannsóknarstarfsemi eins og fram hefur farið á vegum raforkumálaskrifstofunnar á undanförnum árum og undirbúningsvinna, sem þar var unnin, er mjög breytileg frá ári til árs, eftir því hvernig á stendur með verkefni. Og þar sem tiltölulega stór verkefni geta komið upp jafnvel í miðri rannsókn og verða ekki auðveldlega séð fyrir, hefur það verið mjög þýðingarmikið fyrir yfirstjórn raforkumálanna að hafa möguleika til þess að ráða sér starfsmenn, m. a. vísindamenn á þessu sviði, sem ekki var kannske of auðvelt að ná til, og geta tryggt sér starfskrafta þeirra um eins eða tveggja ára skeið, eftir því sem á stóð. En það er mjög hætt við því, ef hitt skipulagið verður tekið upp, að orkumálastjórnin megi ekki ráða sér menn til slíkra starfa nema skv. fyrirframgerðri áætlun í sambandi við fjárl. hverju sinni, þá liggi margar slíkar athuganir eftir og dragist úr hömlu. Ég tel því, að þetta nýja fyrirkomulag, sem þarna er markað í þessu frv., það sé mjög til hins verra, enda lagði raforkumálastjóri fram till. til breytinga á frv. í þessa átt og lagði á það mjög ríka áherzlu, að fallizt yrði á þetta sjónarmið hans. En þó að fram hefði komið í n. að mínum dómi mjög víðtæk viðurkenning á því frá mörgum nm., að rétt væri að athuga þessa beiðni raforkumálastjóra, ja, þá komu skilaboð frá hæstv. ríkisstj. fljótlega til n. um það, að við þessu væri alls ekki hægt að verða, því að þetta skyldi standa á þann veginn, að yfirstjórn orkumálanna hefði ekki þessa möguleika nema skv. sérstakri samþykkt frá Alþ. fyrir hvert einstakt ár.

Það eru enn þá fleiri breyt. en þær, sem ég hef gert hér að umtalsefni, sem felast í þessu frv. Með frv. er gert ráð fyrir því, að sett verði á stofn allmikil n., sem kölluð er tækninefnd og á að verða ráðgefandi um orkumál. Það er ekki hægt að sjá, að þessi nefnd hafi neitt vald út af fyrir sig. Skv. frv. er gert ráð fyrir því, að í þessari tækninefnd verði fulltrúar frá ýmsum orkufyrirtækjum í landinu og svo frá þeim stofnunum, sem ekki eru nú víst að dómi ríkisstj. neinar minni háttar orkustofnanir, eins og Seðlabankinn og Efnahagsstofnunin, því að þær verða vitanlega að hafa sína fulltrúa inni til þess að fylla upp tölu fulltrúanna í þessari tækninefnd.

Þegar spurt er um það, hvert eigi í raun og veru að verða verkefni þessarar tækninefndar, fást ekki nein svör við því. Svo einkennilega er frv. upp byggt, að í þeirri grein, sem ein fjallar um þessa tækninefnd, segir með leyfi hæstv. forseta, orðrétt: „Nánari ákvæði um starfssvið og starfshætti tækninefndar Orkustofnunar skulu sett í reglugerð. Ráðherra ákveður starfskjör tækninefndarmanna.“ Og áður hefur aðeins verið sagt, að hún skuli vera til ráðuneytis um orkumál. Ekkert frekar er sagt um verkefni þessarar tækninefndar. Ekki neitt. Þetta er auðvitað móðgun við Alþ. að leggja fram svona frv. Að gera ráð fyrir því, að sett sé á stofn fjölmenn n., sem sagt er að eigi að vera til ráðuneytis um orkumál, en nánar um verksvið nefndarinnar er ekkert sagt í l., ekkert minnzt á það í grg., engin skýring um það í framsögu með frv., og þegar óskað er eftir upplýsingum um það í þeirri n., sem fjallar um málið, hvert eigi að vera verkefni þessarar n., nánar tiltekið, þá fást engar upplýsingar. Hér er ráðh. auðvitað aðeins að biðja um heimild til þess að mega ráða því einn, hvaða reglur eigi að gilda um verksvið þessarar n.

Þá er í þessu frv. að finna ákvæði það, að í þeim tilfellum, þar sem héraðsrafmagnsveitur, þ.e.a.s. rafmagnsveitur einstakra staða, eins og einstakra kaupstaða, óska eftir fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins til þess að koma upp orkuveri, þá skuli sú ríkisábyrgðarheimild, sem um langan tíma hefur verið í l. og verið miðuð við 85%, lækkuð í 80%. Það er enn ein breyt., sem felst í þessu frv.

Ég hef nú gert hér nokkra grein fyrir því frá mínu sjónarmiði, hvað það er, sem fyrst og fremst felst í þessu frv. til orkulaga, sem hér liggur fyrir, og þá sérstaklega reynt að gera grein fyrir því, hvaða breyt. er um að ræða frá þeirri stefnu sem gildandi hefur verið í raforkumálum okkar. Í þessu sambandi tel ég eðlilegt, að menn reyni að gera sér grein fyrir því, að hverju er æskilegt að stefna í raforkumálum þjóðarinnar. Er æskilegt að stefna til eitthvað svipaðs fyrirkomulags um byggingu raforkumannvirkja og hér var fyrir 20 árum og leiddi óhjákvæmilega af sér byggingu tiltölulega margra raforkuvera og tiltölulega smárra? Eða er æskilegt að stefna að því, að raforkuþörf landsmanna verði leyst með allra stærstu virkjunum, sem mögulegt er að koma við hverju sinni? Ég held, að enginn vafi sé á því, að það eigi að stefna að þeim möguleika, eflaust stig af stigi, að við getum leyst raforkumálin í landinu sem mest með stórvirkjunum, og síðan eigi að stefna að því að tengja saman þau orkuver, sem fyrir eru í landinu, eða aðalorkuveitusvæðin. Að þessu held ég, að eigi að stefna, alveg eins og ákveðið var í raun og veru með raforkulögunum frá 1946. Það er í rauninni ómögulegt að vinna að þessu markmiði, svo að vel sé, nema með því að það sé ríkið, sem hafi forustuna í raforkumálum landsins og taki að sér að leysa öll stærstu verkefni þar. Það er ennþá meiri þörf á þessu hér á landi en víða annars staðar, vegna þess hvað hér er um fámenna þjóð að ræða og tiltölulega dreifða, en þó er það svo, að í flestum löndum, þar sem við þekkjum til, þar er beinlínis stefnt að þessu marki. Í hverju landinu af öðru hér í Vestur-Evrópu er einmitt stefnt að aukinni þátttöku ríkisins í lausn orkumálanna og þar hefur átt sér stað einmitt þjóðnýting í mjög stórum stíl í raforkumálum, t.d. bæði á Ítalíu og Frakklandi og miklu víðar. Menn hafa alls staðar komizt að raun um, að það er miklum vandkvæðum bundið að ná fram hagstæðustu lausn í sambandi við virkjanir, nema þar sem ríkið eða einn mjög stór aðili stendur að lausn orkumálanna. Og menn hafa líka rekið sig á það, að samtenging orkuvera og samtenging orkusvæða er mjög erfið í framkvæmd, þar sem margir eignaraðilar eru að orkuverunum. Þetta gefur alveg auga leið og þarf í rauninni ekki sérfróða menn í rafmagnsmálum til þess að sjá það. Sama máli gegnir um allar rannsóknir, sem eru nátengdar lausn raforkumálanna, þær verða ekki heldur unnar hér á landi, svo að vel sé, nema af ríkinu, og slík rannsóknarstörf þurfa að vinnast í mjög nánu samstarfi við þá, sem hafa með rekstur raforkuveranna að gera. Það er mjög mikil hætta á því, að ef frumkvæði eða forusta ríkisins verður ekki viðhöfð í þessum málum, fari svo, að ýmis einstök svæði í landinu, sem eitthvað liggja lakar við í sambandi við lausn raforkumálanna, verði afskipt. En mér dettur t.d. til hugar, af því að það hefur verið umræðuefni stundum hjá okkur á Austurlandi, að þar koma alveg augljóslega upp slík vandamál. Það er enginn vafi á því, að ef á að knýja fram það skipulag um lausn raforkumála á Austurlandi, að það verði að vera Austfirðingar sjálfir, sem myndi með sér fyrirtæki til. þess að leysa raforkumál sín, er mjög hætt við því, að þá kunni að vísu að taka sig saman nokkrir stærstu staðirnir, sem tiltölulega bezt liggja við, og leysi sín orkumál saman á þann hátt, sem þeir telja bezt fyrir sig, en þeir segi, að það sé vafasamt fyrir þá að leggja í mjög kostnaðarsamar línulagnir um langar leiðir til þess að leysa á þann hátt orkumál tiltölulega fámennra sveita, sem þar eiga hlut að máli. En það er skoðun okkar margra, að þetta sé miklu eðlilegra hlutverk ríkisheildarinnar að leysa raforkumál þjóðarinnar allrar, en ef uppdeilingarstefnan, ef svo mætti kalla hana, að deila landinu upp í mörg orkuveitusvæði og mörg orkuframleiðslufélög, ræður, er mjög hætt við því, að einstakar sveitir og jafnvel einstaka sýslur kunni að lenda þar út úr í sambandi við lausn raforkumálanna. Og eigi að keppa að því markmiði að reyna að hafa sama raforkuverð um allt landið, er alveg augljóst mál, að það er nauðsynlegt, að það sé einn aðili, sem fyrst og fremst stendur að því að leysa raforkumálin. Það er því mín skoðun, að meginefni þessa frv. stefni í öfuga átt. Það sé mjög óheppilegt. Ég sé ekki heldur, að það hafi verð nein þörf á því að rugla þessum málum á þann hátt, sem gert er með þessu frv., þó að hæstv. raforkumálaráðh. hafi verið ákveðinn í því að ráða sérstakan forstöðumann fyrir rafmagnsveitur ríkisins og koma embætti hans fyrir með einhverjum sérstökum hætti. Ég held, að það hefði mátt leysa þann vanda án þess að þurfa að rugla þessu meginkerfi, sem ákveðið hefur verið í uppbyggingu raforkumála okkar, og því sýnist mér það vera svo, að það hljóti í rauninni að liggja á bak við flutning þessa frv. alveg mótuð stefna hjá hæstv. ríkisstj. Hún vilji hverfa frá þeirri stefnu í raforkumálum landsins, sem mótuð var með raforkulögunum frá 1946, og taka upp nýja stefnu, sem miðar greinilega að því að slíta raforkukerfið í sundur og hafa hér marga aðila, sem eiga raunverulega að hafa á hendi forustu og stjórn í raforkumálunum. Ef þetta frv. á að tákna það, sem það hlýtur nú í rauninni að tákna að einhverju leyti, að þetta sé aðeins vantraust núv. ríkisstj. á raforkumálastjóra landsins og þeirri stofnun, sem hann hefur veitt forstöðu, held ég, að þeir hefðu getað komið því áliti sínu fram á annan hátt en ætla að rugla á þennan hátt til með raforkulög landsins, en á því er auðvitað enginn vafi, að flutningur þessa frv. í því formi, sem það er, er hið mesta vantraust á raforkumálastjóra, og þýðir ekkert fyrir ríkisstj. að vera að reyna að breiða einhverja dulu yfir það. Það er réttast fyrir hana að viðurkenna það, því að það er alveg greinilegt. En þó að ríkisstj. þurfi að koma fram einhverju slíku vantrausti, hélt ég, að hún kynni nú kannske að líta á þau stóru mál, sem hér er um að ræða og eru ein þau stærstu í íslenzkum þjóðmálum, svo alvarlegum augum, að hún þyrfti ekki að flytja frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, til þess að koma slíkri vantraustsyfirlýsingu sinni á framfæri. Vantraustið á raforkumálastjóra kemur m. a. fram mjög skýrt í einu ákvæði í þessu frv. ásamt svona með öllum öðrum meginefnisatriðum frv. En það er einmitt í síðustu gr. frv., en hún hljóðar þannig, að lög þessi taka gildi 1. maí 1967. Það er sem sagt gert ráð fyrir því, að ef það takist nú að berja þetta frv. gegnum þingið á þessum fáu dögum, sem eftir eru til þingloka, en þeir munu nú ekki vera öllu fleiri en svona 9.–10 vinnudagar, því að ég veit ekki betur en það sé fullákveðið, að síðasti starfsdagur þingsins verði 20. apríl, það hefur mér verið sagt, þá er samt sem áður gert ráð fyrir því, að frv., sem yrði nú gert að lögum hér í kringum 20. apríl, skuli ganga í gildi og byrja að framkvæmast 10 dögum síðar, eða 1. maí. Raforkumálastjóri hefur bent á það hjá fjhn., að hann teldi þetta í rauninni gersamlega óframkvæmanlegt, auk þess, sem hér væri eiginlega um hina sverustu móðgun að ræða bæði við sig og stofnunina. Og því var það, að ýmsir menn úr fjhn. fóru fram á það, að þessu ákvæði yrði breytt, lögin yrðu þá ekki látin taka gildi fyrr en nokkru síðar á árinu. En frá ráðh. kom alveg þvert nei við því. Það var ekki hægt að fá neitt samkomulag um það. 1. maí skyldi þetta taka gildi, þessi lög. Nú er hér gert ráð fyrir með þessu frv. að umturna þessari stóru ríkisstofnun, sem hefur fjölda manns í sinni þjónustu. Það á að skipta henni upp í nokkrar rekstrareiningar og einn starfsmaðurinn á að fara til þessa húsbónda og annar til hins. Hér er, eins og raforkumálastjóri orðaði það við fjhn., hér er um stofnun að ræða, sem miðað við árslok 1964 var komin með stofnkostnað upp á rúmar 1200 millj. kr. Hér er því ekki um neitt smáræðis fyrirtæki að ræða, en svo mikið liggur hæstv. raforkumálaráðh. á í þessum efnum, að hann þarf að reyna að þjösna því í gegn á þann hátt bæði á síðustu dögum þingsins, þessu máli, og vill knýja það fram 1. maí í síðasta lagi, eða 10 dögum eftir að málið yrði samþ. hér á Alþ., að skipta stofnunni upp, og er hann ekki til viðtals um það að hnika þar neitt til. Það sjá auðvitað allir og vita, hvað hér er á ferðinni Hæstv. ráðh. vill standa þannig að afgreiðslu þessa máls, að hann virðist óttast það, að e.t.v. komi til þess, að eftir 11. júní eða svo kunni að vera úti um hans valdadaga í ráðherrastól, e.t.v. kunni svo að fara og þá vill hann ekki á neitt hætta. L. skulu vera komin í gildi, hann skal vera búinn að koma þessu öllu í framkvæmd áður, hvað svo sem líður því, sem við á að taka um stjórn landsins. Honum er ekki nóg, að Alþ. hafi sett lög, ákveðið reglur og hann getur ekki ímyndað sér það, að neinn annar geti tekið við þessum l. og séð þá um það, að þau verði framkvæmd. Þetta á allt að snúast um hans persónu. Þetta eru auðvitað alveg furðuleg vinnubrögð. Og sá ráðh., sem reynir að halda því fram, að hér sé ekki um verulega móðgun að ræða við raforkumálastjóra landsins og hans starfslið, hugsar einkennilega.

Ég hef nú vikið að þeim atriðum í þessu frv., sem ég tel, að skipti mestu máli. Hér er auðvitað fyrst og fremst um að ræða stefnumótandi afstöðu í mjög þýðingarmiklu máli. Afstaða okkar Alþb. manna til raforkumálanna er í þessum efnum alveg ljós. Við teljum, að meginatriðin, sem voru lögð til grundvallar í raforkulögunum frá 1946, hafi verið rétt. Þar hafi verið tekin upp rétt stefna og það hafi átt að vinna skv. þeirri stefnu. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því, að það tekur talsverðan tíma að nálgast það eða ná því marki, að allt raforkukerfi landsins verði samtengt og hægt verði að leysa raforkuþörf manna á Austurlandi og Vestfjörðum með stórvirkjun, sem kann að verða ráðizt í hér á Suðurlandi, eða stórvirkjun, sem þætti hagstætt að ráðast í á Austurlandi og þjónaði ekki eingöngu Austfirðingum, heldur jöfnum höndum öðrum landsmönnum eftir því, sem hagstætt þætti. Við teljum hins vegar, að að þessu eigi að stefna, en ekki að slíta raforkukerfið í sundur, ekki splundra þeirri forustu, sem byggð hefur verið upp á undanförnum árum á vegum ríkisins um framkvæmdir í raforkumálum. Það teljum við vera ranga stefnu, hættulega stefnu. Og því vil ég ekki trúa, að jafnvel þó að takist í þetta skipti að rugla nokkuð til um þessi mál, að það rugl fái þá að standa lengi. Ég trúi því ekki, að það komi ekki þeir tímar fljótlega, að leiðrétt verði slík mistök varðandi lausn á raforkumálum okkar og hér verði þá miklu frekar um svona auka- eða víxlspor að ræða. En ég er algerlega andvígur meginatriðum þessa frv. og tel, að þau séu til óþurftar í raforkumálum okkar og legg því til, að frv. verði fellt.