07.04.1967
Neðri deild: 60. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

105. mál, orkulög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég mun hafa færri orð um þetta mál en hv. síðasti ræðumaður, sem talaði hér og byggði sitt mál upp á fullum misskilningi, þar sem hann heldur því fram, að það sé verið að taka úr höndum ríkisins, alla forustu í ráforkumálum. En það er ekkert undarlegt, þótt það sé dálítill misskilningur hjá hv. þm., þegar hann ræðir um þessi mál, þar sem hann spurði að því hér áðan, hvaða stefna hefði verið mótuð með Landsvirkjunarlögunum. Og það virtist sem hann hefði alls ekki gert sér grein fyrir því, hvaða stefna þá var mótuð. En þegar tekið var eftir því, hvað hann hafði að segja, var nú svo margt líkt í hans stefnu og þeirri stefnu, sem mótuð var með Landsvirkjunarl., því að hv. þm. talaði um það, að það ætti að stefna að því að hafa sem víðast stórar virkjanir. Það ætti að stefna að því síðar að tengja þessar virkjanir saman, koma landinu sem mest í eitt net og þá vitanlega til þess að skapa sem mest öryggi og sem jafnasta aðstöðu fyrir alla landsmenn. Og með Landsvirkjunarl. var þessi stefna mótuð. Þess vegna var talað um það, að það mundi á sínum tíma koma lína frá Búrfellsvirkjun norður í land. Það hefur verið talað um, að það kæmi lína frá Laxárvirkjun austur á land eða lína frá Lagarfossvirkjun vestur um Norðurland, lína frá Laxárvirkjun vestur um Norðurland og þannig koll af kolli, þannig að það verði eitt allsherjar rafvæðingarnet um landið. Og þessari stefnu lýsti ég, þegar rætt var um Laxárvirkjunarl. Mér kemur þess vegna alveg á óvart, þegar hv. þm. spyr að því, hvaða stefna hafi vérið mótuð með Landsvirkjunarl., og það er ekkert undarlegt, þótt það vefjist fyrir honum, hvaða stefna sé mótuð með þessu frv., úr því að hann hefur ekki, hv. þm., gert sér grein fyrir því, hvaða stefna var mótuð með Landsvirkjunarl. Og að halda því fram, að það sé verið að taka forustu úr hendi ríkisins skv. þessu frv., er náttúrlega hrein fjarstæða. Hv. þm. byggir það á því, að það sé verið að taka forustuna úr hendi ríkisins með því að það sé verið að skipta raforkumálastjóraembættinu, að það sé þarna skýrari verkaskipting heldur en áður hefur verið. Raforkumálastjóra er ætlað m. a. sem aðalverkefni undirbúningur og rannsóknir að virkjun, rafmagnsveitustjóra hins vegar að dreifa rafmagni meðal landsmanna á vegum rafmagnsveitna ríkisins. Þetta ætti að verða hægara og leysast betur með þessari verkaskiptingu en ef það væri aðeins einn embættismaður, sem hefði með það að gera, og það er hrein fjarstæða og algerlega rangt, þegar hv. þm. er að gefa það í skyn, að með þessu frv. sé flutt nokkurs konar vantraust á raforkumálastjóra, sem hefur gegnt mikilvægu og umfangsmiklu embætti um áratuga skeið. Það á raforkumálastjóri alls ekki skilið, og það er ekki viðeigandi af hv. þm. að vera með slíkar getsakir. Raforkumálastjóri hefur verið með í því, hann hefur verið ráðunautur og unnið með n., sem samdi þetta frv. Hann hefur í einstökum atriðum verið með brtt., en alls ekki svo veigamiklar, að það umturni stefnunni og hægt sé að segja það, að það sé verið að taka frumkvæðið úr hendi ríkisins, þó að það megi virkja án leyfis allt að 1000 kw. og ráðh. geti veitt leyfi til að koma upp stöð allt að 2000 kw. Sannleikurinn er. nú sá, að það mun reynast bezt að hafa orkuverin sem stærst. Rafmagnið verður ódýrast frá stóru orkuverunum. Þess vegna munu ekki margir vera, sem óska eftir því að fá rafmagn frá litlum orkuverum. Auk þess er það alveg öruggt, að það verður ekki komið upp orkuveri upp að 2000 kw. og sennilega alls ekki heldur upp að 1000 kw. án þess að fá aðstoð frá Alþ., fá ríkisábyrgð, fá aðstoð með lánveitingu og þannig er þetta það smæsta enn þá í höndum Alþ., þótt þetta frv. verði gert að l. Ég tel rétt, að þetta komi fram, og það er hrein fjarstæða að halda því fram, að það sé verið að umturna raforkulögunum frá 1946 með þessu frv. Það er lagt til að breyta þeim í nokkrum atriðum, og er þá byggt á fenginni reynslu. Raforkulögin, sem eru meira en 20 ára gömul; þurftu endurskoðunar við, og með þessu frv. hafa þau verið endurskoðuð og þetta frv. leggur til að færa löggjöfina í það horf, sem hentar nútímanum og reynslan hefur sýnt, að þurfti að lagfærast. Og þegar hv. 5. þm. Austf. og hv. 1. þm. Norðurl. v. tala um raforkuráð og hv. 5. þm. Austf. sagði, að raforkuráð hefði raunverulega verið yfirstjórn raforkumálanna á undanförnum árum, þá vil ég ráðleggja hv. þm. að lesa raforkulögin betur, því að raforkuráð hafði aldrei neitt vald, það var aðeins ráðgefandi stofnun. Það gat samþ. till, til ráðh., en hafði ekki vald, og hv. 1. þm. Norðurl. v. og ég höfum báðir átt sæti í raforkuráði lengi. Okkur er báðum kunnugt um valdsvið raforkuráðs, okkur er báðum kunnugt um, hvað það var, sem raforkuráð fjallaði aðallega um. Og hvað var það? Hv. 1. þm. Norðurl. v. veit það. Það var það sama og orkuráði er ætlað að fjalla um nú. En í 69. gr. þessa frv. er tekið fram hvert verksvið orkuráðs sé. Orkuráð semur árlega fjárhags- og greiðsluáætlun fyrir raforkusjóð og sendir ráðh. svo snemma, að fylgt geti fjárlagafrv. til Alþ. Raforkuráð hefur fylgzt með starfsemi raforkusjóðs og oft gert till. um lánveitingar úr honum. Nú er hér rætt um orkusjóð og orkuráð í staðinn fyrir raforkusjóð og raforkuráð áður. Orkuráð gerir till. um lánveitingar og einstakar greiðslur úr orkusjóði, alveg eins og gert var áður úr raforkusjóði skv. fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins, og leitar staðfestingar ráðh. á þeim till. Orkuráð gerir enn fremur till. um ráðstöfun stofntillaga til lagningar rafmagnsveitna í strjálbýli skv. 2. mgr. 59. gr. Aðalverkefni raforkuráðs hefur verið að gera till. um rafmagnsveitur í strjálbýlinu og það verður aðalverkefni orkuráðs skv. þessu frv. Munurinn er harla lítill, og ég held, að þessir hv. þm., sem hafa talað, hafi ekki gert sér grein fyrir því eða ekki munað þá stundina, sem þeir voru hér uppi í pontunni, að raforkuráð var aðeins ráðgefandi aðili, sem ekki hafði vald til ákvörðunar.

Þetta eru nú aðalatriðin, aðalkjarninn í því, sem hv. 5. þm. Austf. talaði um hér í sinni löngu ræðu áðan, og ég tel ekki ástæðu til að fara nánar út í ræðu hans. Og ég veit það, að hv. þm. hafa sumir hverjir borið þetta frv. saman við raforkul. frá 1948, og þá sannfærast menn um það, að hér er ekki verið að stíga spor aftur á bak. Hér er ekki verið að vinna að því að gera rafvæðinguna í landinu erfiðari en áður, heldur jafnvel auðveldari. Og þegar hv. 5. þm. Austf. talar um tækniráðið og hneykslast á því, að það sé ekkert um það í þessu frv., hvert verkefni þess er, hefur hv. þm. alveg gleymt að lesa 2. gr. þessa frv., því að þar er beinlínis fram tekið, hvert hlutverk Orkustofnunar er, og tækninefndinni er ætlað að vera orkumálastjóra til ráðuneytis til þess að fullnægja þessu hlutverki, sem Orkustofnun er ætlað að inna af hendi, og þegar hv. 5. þm. Austf. talar um það, að rafmagnsveitur ríkisins eigi ekki að hafa sama hlutverk og þeim er ætlað skv. raforkul., virðist hv. þm. hafa gleymt að lesa 58. og 59. gr. þessa frv. Ég held, að það hefði verið betra fyrir hv. þm. að lesa þessar gr., áður en hann fullyrti það, að rafmagnsveitur ríkisins ættu ekki að inna af hendi svipað skv. þessu frv. og skv. l., því að það er beinlínis sagt hér: „Rafmagnsveitur ríkisins skulu hafa það verkefni, annaðhvort einar sér eða í samvinnu við önnur fyrirtæki, að framleiða, dreifa og selja raforku hvort heldur er í heildsölu eða í smásölu á tileknu orkuveitusvæði, enda gegni önnur héraðsrafmagnsveita eigi því hlutverki. Til þess að ná tilgangi þessum hafa rafmagnsveitur ríkisins heimild til hvers konar samninga við aðra aðila, enda sé í öllu fylgt fyrirmælum laga .þessara við gerð þeirra.“ Þá er sagt í 59. gr., að rafmagnsveitur ríkisins afli fjár til nýrra mannvirkja með heimtaugagjöldum neytenda, með lántökum og ráðstöfun fjár úr fyrninga- og varasjóði rafmagnsveitna. Rafmagnsveitur ríkisins fá enn fremur stofntillag, eftir því sem fé er veitt á fjárl., til byggingar veitna í strjálbýli, þegar áætlanir sýna, að tekjur af veitunni muni ekki nægja til að standa straum af kostnaði hennar. Þegar þetta er athugað, er séð, að fullyrðingar hv. 5. þm. Austf. hér áðan fá ekki staðizt.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. ræddi hér um brtt., sem hann og flokksbróðir hans flytja á þskj. 340, og gerði grein fyrir þeim. Hv. þm. taldi, að réttur ríkisins væri minni skv. þessu frv. en skv. raforkul. og nefndi þar rýmkaða heimild til þess að virkja án leyfis eða koma upp stöð án leyfis allt að 1000 kw. í stað þess, að í raforkul. er aðeins miðað við 100 kw. En ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég sagði um þetta hér áðan, því að það á við ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. eins og hv. 5. þm. Austf., og ummælum hv. 1. þm. Norðurl. v. um raforkuráð er áður svarað.

Þá er í rauninni ekki um annað að ræða heldur en bráðabirgðaákvæði, sem þarf að taka sérstaklega til athugunar í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. Bráðabirgðaákvæði eins og þetta á ekki heima í orkulöggjöf. Ég er sammála hv. þm. um það, að það eigi að hraða því að ljúka rafvæðingunni. Ég held, að okkur greini ekkert á um það. Ég held, að okkur greini heldur ekkert á um það; að það eigi að gera áætlun um þetta, enda hefur raforkumálaskrifstofan unnið að áætlunargerð, og raforkumálaskrifstofan og starfsmenn hennar hafa nokkuð nákvæma áætlun fyrir hendi og nú er unnið að rafvæðingunni þannig, eins og hv. þm. vita, að það eru lagðar línur á þá bæi, sem eru með vegalengdina 1–1½ km. Þessu miðar nokkuð vel áfram. Á s.l. ári mun hafa verið tengt við 200 bæi, eða þar um bil, ég man það ekki nákvæmlega, og það er unnið að þessu, eftir því sem mögulegt er. Og það er rétt, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, þetta er að komast á síðasta snúning. Þetta er herzlumunurinn, sem eftir er, og ég held það sé ekki neinn ágreiningur milli okkar um það, að þetta eigi að gerast, a.m.k. að tengja bæi, sem eru með vegalengdina 1–1½–2 km. Hinir, sem hafa lengri vegalengd, verða a.m.k. að bíða eftir línu og verða þá að láta sér nægja dísilvélar. Það eru margir bændur, sem kaupa dísilvélar núna og eru í þessari fjarlægð, yfir 2 km, t.d. 210 á s.l. ári. Það er gert ráð fyrir, að það verði ekki færri, jafnvel fleiri á þessu ári. Það mun vera alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það hafi verið um síðustu áramót 3800 eða um 4000 býli, sem hafa rafmagn frá samveitum eða einkastöðvum, vatnsaflsstöðvum, en ég hygg, að það séu nærri 1000 býli, sem hafa þegar fengið rafmagn frá dísilvélum, og þá eru það 500 eða 700 býli, sem eru alveg rafmagnslaus. Ég hef hugsað mér, að það yrði lokið við rafvæðinguna ekki seinna en 1970, en hv. 1. þm. Norðurl. v. sagðist ekki kalla, að þeir hefðu rafmagn, sem hafa dísilvélar. Það er nú ekki rétt að fullyrða þetta, því að víst hafa þeir rafmagn, en það má segja, að það sé ekki sambærilegt, ekki eins gott eða ekki eins þægilegt og að hafa það frá samveitum. Fyrst um sinn, — ég vil ekki fullyrða, hversu lengi — verða þau býli, sem eru með meira en 2 km vegalengd milli bæja, að fá rafmagn frá dísilstöðvum, og það á fremur að hvetja bændur, sem þannig eru settir, til að fá sér dísilstöðvar en að vera rafmagnslausir. Raforkumálastjórnin hefur ýtt undir þetta með því, að á s.l. ári hefur verið varið allt að 10 millj. kr. til lána í þessu skyni. Lánin út á þessar vélar hafa verið um 80%. Síðar, þegar línur hafa verið lagðar til þeirra bæja, sem hafa tveggja km fjarlægðina, kemur vitanlega til álita og athugunar, hvort ekki á að leggja línur á bæi, þótt vegalengdin sé kannske upp í 2 km eða eitthvað meira. Það verður að fara eftir efnum og ástæðum, og það verður að vera á valdi ríkisstj. og Alþ. á þeim tíma, hversu hratt skuli í það farið, en ég er hvatamaður að því, að þeir, sem ekki geta fengið rafmagn frá samveitum á næstu 2–3 árum, fái sér dísilstöðvar, og þess vegna hefur verið stuðlað að því, að þeir gætu það, með því að hækka lánin á s.l. ári til muna frá því, sem áður var. Þetta bráðabirgðaákvæði á ekki heima í þessu frv., og þess vegna legg ég til, að það verði ekki samþ. Hins vegar er ég samþykkur því, að gerð verði áætlun um þetta og grg., sem væri birt við tækifæri, engin ástæða til að draga það, og það mun gleðja okkur alla, að það vantar ekki nema herzlumuninn til að ljúka þessu. Hvort það verður 1969 eða 1970, eða jafnvel dregst eitthvað fram á árið 1971, ætla ég ekki að fullyrða, en þetta er allt að nálgast.

Herra forseti. Svo vil ég að lokum flytja hér skriflega brtt., sem ég var nú búinn að skrifa áður en hv. 5. þm. Austf, talaði hér áðan, en brtt. er við 82. gr., og hún er ekkert merkileg. Hún er aðeins þannig, að í staðinn fyrir orðin 1. maí komi 1. júlí. Það er ekki rétt, sem hv. 5. þm. Austf. sagði hér áðan, að það hefðu komið boð frá mér í hv. fjhn. um það, að ég vildi alls ekki breyta þessari dagsetningu í frv. Ég lagðist aldrei gegn því, og ég hef rætt um þetta við raforkumálastjóra, það er nokkuð langt síðan ég gerði það, og hann taldi; að það væri miklu heppilegra vegna bókhaldsins að miða við mitt ár, 1. júlí, heldur en 1. maí. Það er náttúrlega því síður ástæða til að miða við 1. maí, þegar dregst fram undir apríllok, að lögin verði sett. Ef hv. Alþ. felst á að samþ. frv., getur það þó ekki orðið fyrr en á síðustu dögum. Þrátt fyrir þær fullyrðingar, sem hv. 5. þm. Austf. hafði hér uppi áðan, verður það vitanlega ekki látið verða til þess að spilla fyrir því, að till., sem áður var fyrir löngu ákveðin, verði flutt. Ég vil þess vegna, herra forseti, leyfa mér að afhenda þessa litlu brtt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið að sinni.