07.04.1967
Neðri deild: 60. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

105. mál, orkulög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs vegna brtt., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 381 við 71. gr. frv., 3. tl. Ég ætla ekki að ræða það frv. almennt, sem hér liggur fyrir á þskj. 201 til orkulaga, en aðeins segja það þó, að við lauslegan lestur þessa frv. hef ég ekki fundið í því neitt, sem mér finnst gera það nauðsynlegt að eyða frá öðrum málum dýrmætum tíma þingsins nú undir lokin til að fjalla um þennan mikla frumvarpsbálk í 82 gr., sem er mjög seint fram kominn. Þykir mér reyndar trúlegt, að niðurstaðan verði sú, að þetta verði ekki afgr. í þinginu. Öðru máli þætti mér gegna, ef samþ. yrðu till. frá hv. minni hl. fjhn., sem liggja fyrir á þskj. 340, því að þá væri hér orðið um meiri háttar mál að ræða, sem ástæða væri til þess að gera gangskör að að afgr.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð almennt um frv., en koma að brtt. á þskj. 381 með örfáum orðum.

Það orkar víst ekki tvímælis, að þau muni vera nokkuð mörg býlin í sveitum þessa lands, sem ekki fá rafmagn frá samveitum eða frá einkarafaflsstöðvum nú fyrst um sinn, eða jafnvel á næstu árum. Um allmörg býli hér og þar um landið er það náttúrlega í nokkurri óvissu, hvort þau yfirleitt fá raforku á þennan hátt. Þessi býli þurfa á raforku að halda, ekki síður en önnur, og úrræðið er þá þetta, sem hér var minnzt á áðan, m. a. af hæstv. ráðh., að koma upp dísilstöðvum á heimilunum. Ég lít svo á, að aðstöðumunurinn á milli þeirra, sem verða að sætta sig við rafmagn frá dísilstöðvum á heimilum, og hinna, sem fá það frá samveitum, verði svo mikill, að þjóðfélagið eigi að leggja sig fram um það að greiða fyrir þeim, sem svo stendur á fyrir. Ég hefði álitið, að eðlilegasta leiðin í því efni, þar sem vonandi verður hér ekki að lokum um mjög mörg býli að ræða, væri sú, að ríkið ætti dísilstöðvarnar, sem ættu að vera á þessum heimilum, og bændurnir fengju þær á leigu með eðlilegu gjaldi, sanngjörnu, og að ríkisrafveiturnar sæju um eftirlit á stöðvunum. Meðan ekki er á það fyrirkomulag fallizt, sem mér finnst eðlilegt og á sér fordæmi á öðrum sviðum, finnst mér eðlilegt, að greitt sé að öðru leyti fyrir þessu svo sem unnt er. Þess vegna hef ég lagt það til í brtt. minni, að lán til slíkra dísilstöðva á sveitabýlum geti numið öllum stofnkostnaði. Ég held að það sé ekki nein ofrausn miðað við það, sem gert er á öðrum sviðum. Auðvitað eiga þessir menn að borga lánin og þá vexti, sem í gildi eru á hverjum tíma, en máli skiptir, að þeir geti fengið sem hæst lán. Ég hef einu sinni eða tvisvar skrifað raforkuráði um þetta mál og mælzt til þess, að ráðið tæki það til athugunar að fara þessa leið, en það hefur ekki viljað gera það, a.m.k. ekki gert það. Má vera, að það hafi talið sig skorta heimild til þess í l., en ef þessi brtt. væri samþ., er sú lagaheimild fyrir hendi. .Ég vildi mega vænta þess, að þessari till. yrði vel tekið.