08.04.1967
Neðri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

105. mál, orkulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Sannleikurinn er, að svo mikill lagabálkur, sem hér liggur fyrir, þarf, ef það á að vera nokkur mynd á afgreiðslu hjá Alþ., miklu lengri tíma til athugunar en nú hefur gefizt. Og það hefur oft undanfarið þótt hjá ríkisstj. eðlilegt að hafa það svo, þegar miklir lagabálkar væru lagðir fram, að þeir væru lagðir fram svo að segja á fyrra þingi, til þess að menn gætu kynnt sér þá og rætt um þá, en síðan væri seinna meir á næsta þingi á eftir málið lagt fyrir í byrjun þings og þar með séð um, að það næði fram að ganga.

Í þessu lagafrv., sem hér liggur fyrir, eru stórar og margar breytingar á öllu því kerfi, sem hingað til hefur verið um raforkumál ríkisins. Það er nú hálfleitt, að enginn þm. Alþfl. skuli vera hér inni nú, en mér finnst það dálítið kaldhæðið, að l. um raforkumálastofnun ríkisins, sem voru flutt af ráðh. Alþfl. 1946, þegar þau voru sett, og voru þá mjög merkileg lög, sem mörkuðu tímamót og voru alveg sérstaklega eftirtektarverð hvað snerti þann ríkisrekstur og þá samsöfnun allra raforkumálanna og yfirstjórn þeirra á einn stað, sem í l. fólst, — mér finnst það dálítið hart í raun og veru fyrir Alþfl., að hann skuli nú standa að því að framkvæma lög eða setja lög, sem sundurlima þessa stofnun og eyðileggja hana að meira eða minna leyti, eins og gert er með þessu frv. Það er alveg greinilegt, að það er tekin þveröfug afstaða hér á Íslandi miðað við það, sem tíðkast yfirleitt í Vestur-Evrópu, Frakklandi eða öðrum löndum, þar sem þróun þessara mála þykir vera í sæmilegu horfi. Þar þykir það alls staðar sjálfsagt að miða meira við það, að ríkið hafi með öll raforkumálin að gera og ríkið eigi í raun og veru ekki aðeins að sjá um sjálfar virkjanirnar og ekki aðeins um línurnar, sem fara út um landið, heldur meira að segja taki líka að sér dreifinguna á rafmagninu í bæjunum sjálfum. Hérna aftur á móti er farin alveg þveröfug leið. Hér er í fyrsta lagi verið að draga úr valdi ríkisins í þessum efnum, það er verið að gefa meira svigrúm, ef einhverjir aðrir aðilar færu að leggja út í þetta. Það er verið að sundra þeim ríkisstofnunum, sem þarna eiga hlut að máli, það er verið að eyðileggja nokkurn veginn raforkumálastofnun ríkisins og skipta henni upp í tvær til þrjár stofnanir, eftir að búið var að gera þann óskunda á s.l. þingi að gera landsvirkjunina að sérstakri stofnun í staðinn fyrir að láta raforkumálaskrifstofuna hafa með hana að gera. Nú er haldið áfram í því sama, og það má mikið vera, ef það kæmi ekki nokkru seinna að þegar núv. ríkisstj. væri búin að gera ríkisreksturinn eins ópraktískan og vitlausan og hægt væri, þá kæmi hún og segði, að þessi ríkisrekstur væri nú ekki rétt góður. Það yrði nú helzt að fara að leggja hann niður á eftir, láta einkaframtakið taka við honum. Fyrst að eyðileggja og spilla ríkisrekstrinum eins og hægt er, hafa hann eins ópraktískan og mögulegt er og síðan að reyna að drepa hann á eftir. Ég álít þess vegna í fyrsta lagi, að sú stefna, sem felst í þessu frv., sé alröng, það að draga úr því valdi, sem ríkið sjálft á að hafa í þessum efnum. Raforkumál eru yfirleitt þess eðlis, að það er rökrétt, að þau séu rekin út frá einni heildarstofnun. Meira að segja sjálft sölufyrirkomulagið, eins og heildsalan og smásalan í raforkumálunum, er satt að segja ákaflega ópraktískt. Nú, ég skal nánar koma inn á þá hluti, en það er strax atriði hér, sem ég vildi benda á í sambandi við III. kafla þessa frv. um vinnslu jarðhitans. Ef við erum að setja lög, nákvæmari en áður giltu um þessa hluti, er óhjákvæmilegt að ganga þarna miklu betur frá málunum. Hverju viljum við slá föstu um eignarrétt á jarðhita á Íslandi? Er það meiningin, að sá maður, sem átt hefur jörð, þ, e. yfirborðið til ræktunar, eigi líka að eiga hitann, sem þarna er undir, alveg ótakmarkað, hann eigi einkaeignarrétt á honum? Ég álít það vera hringavitlausa hugsun. Það, sem hægt væri að halda fram í slíku sambandi, það er e.t.v., að slíkur eigandi ætti jarðhitann eða réttindi til hans, réttara sagt, notkunar til vissra hluta svo og svo marga metra niður í jörðina.

Ég man eftir, að það var einu sinni lagt hér fram stjórnarfrv., þar sem, ef ég man rétt, lagt var til, að landeigendur skyldu eiga jarðhitann allt niður í 100 metra,, en það, sem þar væri fyrir neðan, ætti ríkið. Og það er nauðsynlegt að setja löggjöf um þetta, og það væri alveg hreint rangt að líta svo á, að landeigandi ætti að eiga þarna alveg ótakmarkaðan rétt. Við vitum, að við höfum áður deilt um svona hluti mjög skarplega hér á Alþ., og ekki voru það sízt sögulegar umr., sem fram fóru í sambandi við réttindi til vatnsaflsins á þingunum 1919–1922, þegar því var haldið fram af ýmsum, að landeigendur bókstaflega ættu vatnsaflið, og héldu þar með fram þeim undarlega hlut, að hvern dropa, sem rynni fram hjá í einni á, ætti landeigandinn og þegar sami dropi væri kominn að næsta landi, ætti næsti landeigandi hann. M. ö. o., þá væri það mál útkljáð praktískt á þann máta, að ríkið bannaði öllum hagnýtingu til raforku nema sjálfu sér og tæki þannig valdið og réttinn til notkunar á vatnsaflinu úr höndum landeigenda, án þess raunverulega að þetta viðkvæma eignarréttarspursmál væri til lykta leitt. Ég held, að þegar við förum nú að setja á ný ákveðnar reglur, ákveðin lög um jarðhitann, verðum við að athuga þessi mál alvarlega. Það er hægt að grafa 2 og 3 þús. metra niður í jörðina. Meinum við það virkilega, að landeigandi, sem upphaflega hefur keypt sitt land eingöngu til að rækta það, eigi að eiga þessi auðæfi? Við vitum, að í sambandi við ýmsa aðra hluti, í sambandi við námur og annað slíkt, gilda um þetta allt önnur lög hjá okkur. Þá hefur ríkið svo og svo mikinn rétt. Og þetta er mál, sem getur orðið mjög brýnt þá og þegar, þ. e. eignarréttur þjóðarinnar á jarðhitanum, með einhverjum vissum takmörkunum, skulum við segja, vegna eignarhalds landeiganda á yfirborði landsins o.s.frv. Það er orðið nauðsynlegt að setja löggjöf um þetta, og þegar Alþ. er að hreyfa við gildandi löggjöf um þessi mál, eiga þessir hlutir að koma þarna inn í. Það er sitt hvað, að þau lög, sem nú stendur til að breyta, eru, eins og þau hafa verið, ófullkomin. En þegar verið er að setja ný lög, þá verður að reyna að bæta það, sem ófullkomið var í þeim gömlu. Ég álít þess vegna alrangt, að því skuli vera alveg sleppt í þessu frv. og rétturinn til umráða og hagnýtingar jafnvel gerður enn þá ótvíræðari hjá hverjum landeiganda, án þess að nokkur takmörk séu þar fyrir sett. Ég held, að þetta sé alrangt. Nú, svo er vitanlegt, að annað mál snertir þetta í mjög ríkum mæli. Það er vitað, að langstærstu jarðhitasvæði landsins eru uppi á afréttum, og eignarréttarafstaðan í sambandi við jarðhitahlunnindi er a.m.k. að sumra áliti bót við þær. Ég vil taka það fram, að ég álit, að svo sé ekki. Ég álít, að það sé alveg hreint skýlaust, að ríkið sjálft eða almenningur, hvernig sem við viljum taka það, þjóðarheildin, þjóðfélagið, eigi jarðhitann á slíkum stöðum. Og þó að hreppar hafi átt þar afréttir til þess að reka fé á beit, snertir það ekki eignarréttinn á þeim auðæfum, sem í jörðinni eru. Ég held þess vegna, að það sé flanað að þessum málum með því að taka sig nú til og semja ný lög, m. a. um vinnslu jarðhitans, án þess að ganga úr skugga um þessa hluti og gera þetta alveg hreint ótvírætt. Þarna var mikil þörf á að ríkið skæri sjálft úr um, hvernig þessu sé háttað, svo að um þetta geti ekki risið neinar deilur. Ég vil bara minna á það, að fyrir nokkrum árum var það kannað hér á Íslandi, hvort mundi borga sig að vinna þungt vatn með því að nota jarðhitann. Eitt mesta jarðhitasvæðið á Íslandi er uppi í óbyggðum, norðan Eyjafjallajökuls held ég, jarðhitasvæði, sem hefur að geyma meiri hlutann, held ég að ég muni rétt, af öllu vinnanlegu hitamagni í jörð á Íslandi. Það var einkum þetta svæði, og svo hitasvæðið við Hengilinn, sem athugað var, vegna þess ógrynnis hitamagns, sem þar var, og þá kemur í ljós, að raunverulega er allt óklárt með eignarréttinn á þessum hlunnindum. Og við getum rétt hugsað okkur, hvernig fer, ef við höfum ekki tekið ákvarðanir um þessa hluti, áður en svona mál eru orðin brýn, áður en það er allt í einu um að ræða milljóna og kannske tuga og hundraða milljóna verðmæti, sem deilt er um, hver eigi. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt, þegar við erum að fjalla um svona lög, að þannig sé gengið frá þeim, að það geti ekki leikið neinn vafi lengur á, hvernig eignarrétti er þar háttað. Þetta vildi ég nú alveg sérstaklega benda á í sambandi við III. kaflann.

Þá vík ég enn fremur hér að VI. kaflanum. Mér skilst, og ég vona, að það verði leiðrétt, ef það er ekki rétt hjá mér, að þar sé meiningin að gera rafmagnseftirlit ríkisins að fjárhagslega sjálfstæðri stofnun, taka það undan raforkumálastofnuninni, sem sé liða raforkumálastofnunina í sundur og gera rafmagnseftirlitið að alveg sérstakri stofnun. Við vitum nú, hvað það þýðir venjulega, þegar verið er að búá til slíkar sérstakar stofnanir. Það þýðir venjulega að dubba upp einhverja dýra forstjóra með tilheyrandi skrifstofuhaldi í kringum sig, þar sem venjulega er haldið mun sparar á málum, hvað það snertir, ef þessir hlutir eru í einni stofnun. Ég rek augun í orðalagið í upphafi 38. gr.: „Orkustofnun hefur í umboði ríkisstj. yfirumsjón með eftirliti af hálfu ríkisins.“ Má ég spyrja: Er ekki farið að gera leik að því að reyna að gera ríkiskerfið hjá okkur sem allra flóknast og fyrirferðarmest, og það einmitt af hálfu ríkisstj., sem hefur þótt vera alveg hlynnt einkarekstri, m. a. vegna þess, að hún hefur haldið því fram, að einkarekstur væri oft praktískar rekinn en stofnanir ríkisins? Er unnið að því vitandi vits að reyna að gera ríkisstofnanirnar sem flóknastar og dýrastar og flestar, til þess seinna meir að eiga auðveldara með að reyna að drepa þær? Orkustofnun á í umboði ríkisstj. að hafa umsjón með eftirliti af hálfu ríkisins. Mér finnst þetta orðalag þannig, að a.m.k. þessir hæstv. ráðh., sem eru sérstaklega hlynntir praktískum vinnubrögðum og því, að ríkið ætti frekar að vera til fyrirmyndar í rekstri en hitt, ættu nú að fást til að endurskoða ofurlítið lagagreinar, sem eru á þessa leið. Ég hef tekið eftir þeirra tilhneigingu að reyna að gera alla þá hluti, sem ríkið snerta, sem allra flóknasta, reyna að setja í kringum þá ráð, sem skipuð séu helzt ótal öðrum ríkisstofnunum, þannig að oft sé það orðið svo, að þeir menn, sem í ríkisstofnunum eiga að vinna, séu helzt í svo mörgum ráðum, að þeir séu farnir að flækjast í þeim sjálfir, og sumir þeirra, sem þyki jafnvel ómissandi til þess að vera þar, séu kannske komnir í svona 10–20 mismunandi ríkisstofnanir:

Þegar bók var rituð hér um árið um Parkinsonslögmálið svokallaða, var því nú almennt haldið fram, að þetta væri eins konar ónáttúra, sem sýndi sig í sambandi við ríkiskerfið, að vilja alltaf hrúga þarna öllu mögulegu utan um það. Því hefur almennt ekki verið trúað, að það væri beinlínis tilgangur vissra ríkisstjórna að reyna að gera ríkiskerfið sem flóknast, fyrirferðarmest, sem allra sundurlimaðast og ópraktískast, til þess að það væri betra að ráðast á það á eftir. Hins vegar, hvort sem það er nú Parkinsonslögmálið, sem er þarna að verki, eða jafnvel eitthvað annað enn þá verra, verð ég að segja, að þegar svona frv. koma hérna fram, er það, það minnsta, sem hægt er að gera, að þau fáist almennilega athuguð og rædd og ekki sé reynt að pína þau í gegn á síðustu dögum þings, þegar yfirdrifið er að gera og þegar ríkisstj. á það yfirleitt einvörðungu undir hollustu stjórnarandstöðunnar, að mál, sem endilega þurfa þó að ganga í gegn, komist áfram. Það er vitanlegt, að vinnubrögðin hjá hæstv. ríkisstj. eru svoleiðis, að það er dyngt hér inn málum á síðustu stundu, sem síðan er ætlazt til, bara af hollustu stjórnarandstöðunnar, að gangi helzt svo að segja umræðulaust í gegnum þingið. Og svo er um leið farið að hafa þann hátt á að undirbúa þessi mál, þegar það eru t.d. stórmál, á þann máta, að það eru eingöngu settir menn úr stjórnarliðinu til þess að útbúa frv., í staðinn fyrir að hér áður fyrr þótti rétt, þegar stór mál voru á ferðinni, að setja þau í mþn., til þess að stjórnarandstaðan hefði þó einhverja möguleika til þess að athuga þessi mál. Ég vildi a.m.k. fá úr því skorið, hvort þetta er misskilningur hjá mér eða hvort það er meiningin að taka rafmagnseftirlit ríkisins þarna út úr og láta það verða fjárhagslega sjálfstæða stofnun. Og ég vildi þá um leið mega spyrja og heimta að fá þá hér yfirlit um: Hvað kostar Landsvirkjunin og hver er hennar skrifstofukostnaður og hvernig er háttað þar launum verkfræðinga og annarra slíkra, sem þar vinna? Ég kann ekki við, að það sé verið að taka út úr höndum ríkisins svo og svo mikið af fyrirtækjum og síðan sé máske farið að reka svo og svo mikið af því, sem slík fyrirtæki ættu að vinna, sem eins konar einkafyrirtæki, og ég mundi vilja biðja hæstv. ráðh. um að gefa okkur upplýsingar um það hér, hvernig háttar til með Landsvirkjunina, sem hér var með meirihlutavaldi ákveðið, að skyldi vera sjálfstæð stofnun í staðinn fyrir að fela raforkumálastofnun ríkisins hana. Hvernig er rekstur hennar? Hvað kostar hann? Eins og við vitum, er Landsvirkjun sameign ríkisins og Reykjavíkurbæjar og við fáum þess vegna ekki hér í sambandi við fjárl. og annað slíkt hennar reikninga, en það væri æskilegt, áður en haldið er áfram með þetta mál, að það lægi fyrir. Mig langar til að vita, hvað svona ríkisstofnanir kosta. Ég hafði hér um tíma nokkuð með þessa hluti að gera, á meðan Sogsvirkjunin starfaði, og ég benti á það hér í umr., sem fóru fram, þegar l. um Landsvirkjun voru sett. Á meðan Sogsvirkjunin starfaði, þótti það vera réttur mórall af hálfu ríkisins að reyna að gera hluti ódýra fyrir almenning. Það var þá ekki farið að leitast við að gera, allt sem allra dýrast, til þess að auka verðbólguna sem mest. Þá var það svo, að þegar Sogsvirkjunin var sett, var það ákveðið með l. frá Alþingi, að það mætti einvörðungu leggja 5% á rafmagnið í heildsölu til bæjanna. Þegar Landsvirkjun var sett á stofn, var allt slíkt afnumið. Þá voru meira að segja gerðir sérstakir samningar um lán við útlenda banka, þar sem voru undangengin sérstök skilyrði um, að það yrði að leggja svona og svona mikið á, þannig að álagning skyldi vera til að safna í sjóði og annað slíkt, eins skynsamlegt og það er að safna í sjóði á meðan verðbólga gengur með 10–15% hækkun á ári, sama sem að kasta fénu í ekki neitt. Og þetta var pínt hér í gegn í fyrra að gera þessar breytingar. Það var horfið burtu frá því að reyna að hugsa þannig, að almenningur gæti fengið ódýrt rafmagn. Það voru teknar ákvarðanir um, að það skyldi okra á rafmagninu. Á tímum Sogsvirkjunarinnar var það haft svo, að það var tekin sú ákvörðun af stjórn Sogsvirkjunarinnar að fela rafmagnsveitunni í Reykjavík að reka það fyrirtæki, þannig að allt bókhald og slíkt yrði sem ódýrast, eins og líka reyndist rétt. Sogsvirkjunin kom sér aldrei upp sjálfstæðu fyrirtæki með sérstökum forstjóra, sérstökum gjaldkera og sérstökum bókara, sérstöku fólki til að vinna. Mönnum þótti þá rétt að hugsa þannig, að það væri rétt að reyna að spara, jafnvel þó að ríkið og Reykjavíkurbær ættu í hlut. Menn skoðuðu það sem sitt; verkefni að reyna að framleiða ódýrt rafmagn, en ekki að reyna að gera það sem dýrast. Meira að segja, þegar allar eignir Reykjavíkurbæjar voru afhentar Sogsvirkjuninni, voru þær afhentar á því bókfærða verði, sem þá var, en ekki með því endurmatsverði, sem nú er farið að tala um, einmitt til þess, að það skyldi vera sem hægast fyrir Sogsvirkjunina að hafa rafmagnið sem ódýrast. Nú er kominn annar tími. Nú eru fyrirskipanirnar um að okra og samið um það við útlenda aðila, sem lán eru tekin hjá, og það dýr og ópraktísk lán. Og ég vildi mega heyra hér. Hvernig standa málin núna viðvíkjandi Landsvirkjun og hvernig er útlitið þar? Hvernig eru hennar reikningar og hvað er kostnaðurinn þar, og hvernig er það til samanburðar við raforkumálastofnunina? (Gripið fram í.) Já, ég vonast nú til, að hæstv. ráðh. fylgist ofurlítið með þessum málum, og ég vona, að fyrirlitning núv. ríkisstj. á Alþ. sé ekki orðin slík, að Alþingi geti ekki fengið lagðar fyrir þær upplýsingar, sem krafizt er. Það er það minnsta, sem einn ráðh. getur gert, sem fer fram á, að mál séu afgr. á síðustu stundu, að sýna Alþingi fulla virðingu í slíku sambandi. Það er orðið hneyksli, hvernig núv. hæstv. ríkisstj. hugsar sér Alþ. eingöngu sem afgreiðslustofnun fyrir sig. Núv. ríkisstj. er að eyðileggja algerlega þingræðið á Íslandi, hún er að lítillækka Alþingi niður í það að eiga að vera eins og skrifstofa fyrir Stjórnarráðið. Og þegar rætt er um byggingu nýs alþingishúss, liggur manni helzt stundum við að ætla, að það ætti að búa til ofurlítið kot á stjórnarráðstúninu til þess að menn gætu komið þar inn og skrifað nafnið sitt, meiri hluti Alþingis, undir það sem ríkisstjórnin áliti að ætti að gera. Það er orðið svo í smáu og stóru, að meira að segja þm. stjórnarflokkanna mega ekki hafa sannfæringu eða framfylgja henni um nokkurn skapaðan hlut, hve smátt sem það er, ekki einu sinni í sambandi við fjárlög, sem lengst af hefur þó tíðkazt, á meðan Alþingi hefur starfað. Það er þess vegna ekki nóg fyrir hæstv. ráðh. að kalla bara fram í og segja: „ Reikningar Landsvirkjunar verða birtir.“ Við viljum, áður en við gefum ráðh. meiri heimild en gefin er nú þegar, fá að vita ofurlítið, hvernig það hefur tekizt hjá honum þetta nýja bragð, sem hann vildi setja á rekstur ríkis og þess opinbera í sambandi við að koma upp Landsvirkjuninni. Við viljum vita, hvað hún hefur kostað, og hvort það hefði kannske ekki verið eins praktískt að láta raforkumálastofnunina sjá um hana, eins og Rafmagnsveita Reykjavíkur sá um rekstur Sogsvirkjunarinnar á meðan hún var og hvað er það, sem þarf að fela í þessu sambandi. Nú, ég fæ þá sem sé út úr þessari 38.–39. gr., að það eigi að taka rafmagnseftirlit ríkisins út úr raforkumálastofnuninni og gera það að sjálfstæðri stofnun, og ég veit, hvað slík sjálfstæð stofnun þýðir venjulega, og þess vegna langaði mig til þess að vita, hvað Landsvirkjunin kostaði.

Þegar kemur að rafmagnsveitum ríkisins, sýnist mér líka, að það eigi að taka rafmagnsveitur ríkisins út úr raforkumálastofnuninni. Þær hafa verið í henni fram að þessu. Ég er nú enn þá ekki búinn að skilja vitið í því. Er það vegna þess, að hæstv. ráðh. líti svo á, að þetta sé glimrandi gróðafyrirtæki? Það hefur nú ekki reynzt fram að þessu með rafmagnsveitur ríkisins. Af hverju er verið að taka þetta þarna út úr? Hvaða ástæða er til þess? Ég hef ekki heyrt nokkur rök færð fram fyrir því enn þá. Er það kannske bara vegna þess, að einhvern mann langi til að verða forstjóri? Er það vegna þess, að Sjálfstfl. þurfi að koma fyrir svona og svona mörgum forstjórum og þurfi að flýta sér fyrir kosningar til þess? Hvað er það, sem þarna er um að ræða? Hafa rafmagnsveitur ríkisins ekki verið reknar sæmilega í sambandi við raforkumálastofnunina? Hefur eitthvað verið að því þar? Hvaða ástæða var til þess að sundurliða þetta? Í 57. gr. er mælt svo fyrir, að ráðh. skipar forstjóra rafmagnsveitna ríkisins. Hann skal heita rafmagnsveitustjóri ríkisins, og þetta á að vera alveg sjálfstæð stofnun og heyra beint undir þann ráðh., sem fer með raforkumál. Þá fara þær að verða svona 3–4–5 stofnanirnar, þar sem gat verið ein. Ég get ósköp vel skilið frá hálfu Sjálfstfl., ef hann vill reyna að eyðileggja ríkisrekstur eins og hægt er, að fara inn á þetta. Þá er bezt fyrir hann að segja það. En ef hann vill láta ríkisreksturinn vera sem praktískastan, reyna a.m.k. fésýslumenn, þegar þeir reka sín fyrirtæki, heldur að hafa þau frekar stærri og þar með ódýrar rekin en að skipta þeim upp í mörg. Ég fæ ekki séð annað en hér sé verið að vinna hreint skemmdarverk. Ég veit ekki, af hverju er verið að vinna þetta skemmdarverk, en e.t.v. er það vegna þess, að raforkumálastofnun ríkisins, eins og hún hefur verið rekin, hefur verið einhver bezt rekna ríkisstofnunin í landinu. Raforkumálastofnun ríkisins hefur verið rekin með mikilli fyrirhyggju. Það hafa verið tekin upp þar og haft framtak þar um mörg mál, sem máske mátti stundum segja, að væri á takmörkunum, að heyrðu undir hana, en hafa engu að síður komið þjóðfélaginu að gífurlegum notum, og lengi vel voru þeir menn, sem nú eru að verða viðurkenndir meðal beztu vísindamanna heims, einmitt starfandi hjá raforkumálastofnuninni, eftir að þeir höfðu lokið sínum embættisprófum, og raforkumálastofnunin tók við þessum mönnum, notfærði þeirra sérþekkingu til þess að rannsaka einmitt auðlindir þjóðar okkar og benda á, og það yfirleitt með miklum og góðum árangri, hvernig hagnýta mætti þessar auðlindir sem bezt. Þetta gat raforkumálastofnun ríkisins gert, vegna þess að hún var stórt fyrirtæki með sæmilega rúman fjárhag og hafði sínar mörgu deildir undir sér, sem hún réði yfir. Nú á sem sé að láta þetta fyrirtæki svona að hálfu veslast upp, og það er hart einmitt þess vegna, að þarna er um eitt af beztu ríkisfyrirtækjunum að ræða. Og mér finnst það alveg sérstaklega hart af Alþfl. að ljá máls á því að eyðileggja þetta fyrirtæki, vegna þess hvern hlut Alþfl. átti í því, hans ráðh, einmitt 1946, að gera frv. um raforkumálastofnun ríkisins að lögum, það mikla þjóðnýtingarmál, sem þá var sett í gegn, góðu heilli. Það er ákaflega hart, að það skuli verða hlutverk Alþfl., nú í þessari ríkisstj. að hjálpa til þess að eyðileggja þá ágætu löggjöf, sem hann átti þá vissulega heiður skilið fyrir. Ég held þess vegna, að það væri virkilega tími til kominn að stoppa hér við og athuga betur allan gang í þeim málum. Það var í þessu sambandi minnzt hér áðan á orkuráðið og þess hlutverk. Ég hef nú satt að segja verið að leita að fyrirmælunum um orkuráðið í þessari löggjöf, var nú búinn að finna hér ósköp lítinn kafla áðan, en það fór nú svo lítið fyrir honum, að ég hélt endilega, að það hlyti að vera eitthvað meira. Það var sem sé í 69. gr., þar sem mælt er fyrir um orkuráðið, og ég vildi spyrja: Er það virkilega rétt hjá mér, að það séu einu fyrirmælin um orkuráð, þessi í 69. gr.? Með leyfi hæstv. forseta: „Orkuráð semur árlega greiðslu- og fjárhagsáætlun fyrir orkusjóð og sendir ráðh. svo snemma, að fylgt geti fjárlagafrv. til Alþingis. Orkuráð gerir till. um lánveitingar og einstakar greiðslur úr orkusjóði, skv. fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins og leitar staðfestingar ráðh, á þeim till. Orkuráð gerir enn fremur till. um ráðstöfun stofntillaga til lagningar rafmagnsveitna í strjálbýli o.s.frv.“ Ég hef ekki fundið mikið annað. Það er kannske einhver yfirsjón hjá mér. Þá verð ég að biðja afsökunar. Er það annars staðar, eða er þetta rétt hjá mér? (Gripið fram í.) Ég skal lofa hæstv. ráðh. að heyra, hvað raforkuráð á að gera. Ég skal lesa það fyrir hæstv. ráðh., ef honum skyldi ekki vera alveg ljóst, hvaða vald raforkuráð hefur. Spurningin er ekki um, hvað hin og þessi ráð kunna að gera af því, sem þeim er falið, heldur hitt, hvaða vald þau hafa. Og ef það hefur tekizt smátt og smátt að láta raforkuráð hafa minna umfangs en æskilegt væri og heldur en það hefur lögum samkv., er það ekki til neinnar fyrirmyndar. Þá hefði satt að segja raforkumálaráðh. fyrir löngu átt að segja við raforkuráð: Ja, viljið þið nú ekki hugsa um þetta hérna líka, sem ykkur er falið? Og nú skal ég lesa fyrir hæstv. ráðh., með leyfi hæstv. forseta, hvert hlutverk orkuráðs er. Ef hæstv. ráðh. má vera að að hlusta, vildi ég lesa þetta fyrir hann, sem sé, svo að honum sé alveg ljóst, hvert vald er gefið raforkuráði með núverandi lögum og hvert vald hann hins vegar ætlar því með því frv., sem hann vill nú fá fram. 53. gr. núverandi raforkulaga hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Raforkuráð skal eiga kost á að fylgjast með rannsóknum raforkumálastjóra og rekstri rafmagnsveitna ríkisins. Ráðinu skulu send til athugunar og umsagnar: 1. Till. raforkumálastjóra um að reisa, kaupa eða leigja orkuver eða orkuveitu. 2. Till. ríkisstj. til Alþ. um að reisa ný orkuver og koma upp nýjum orkuveitum eða festa kaup á slíkum mannvirkjum. 3. Frv. að gjaldskrám rafmagnsveitna ríkisins. 4. Efnahags- og rekstrarreikningar rafmagnsveitna ríkisins og kostnaðarreikningar mannvirkja í smíðum, svo og skýrslur raforkumálastjóra um rekstur rafmagnsveitna ríkisins. 5. Fjárhagsáætlun rafmagnsveitna ríkisins og till. um lántökur, önnur fjárlög og ráðstöfun fjár úr raforkusjóði. 6. Frv. að reglugerð um rafmagnsveitur ríkisins. 7. Erindisbréf, sem ráðh. gefur út handa starfsmönnum hjá raforkumálastjóra, rafmagnsveitum ríkisins og rafmagnseftirliti ríkisins. 8. Till. um ákvörðun orkuveitusvæðis héraðsrafmagnsveitna. 9. Frv. að reglugerðum og gjaldskrám héraðsrafmagnsveitna, ef ráðið óskar þess sérstaklega. 10. Till. um nýjar héraðsrafmagnsveitur ríkisins ásamt kostnaðar- og rekstraráætlunum um þær. 11. Frv. að reglugerð og gjaldskrám rafmagnsveitna ríkisins. 12. Ársreikningar og fjárhagsáætlun héraðsrafmagnsveitna ríkisins. 13. Frv. að reglugerð um raforkuvirki. 14. Till. til breytinga á raforkulögum og 15. Umsóknir um lánveitingar úr raforkumálasjóði samkv. 35. gr., tölul. 3 og 4.“

Þetta er 53. gr., sem tekur svona nákvæmlega fram um þetta. Í 52. gr. stóð enn fremur, að verkefni raforkuráðs sé að fylgjast með stjórn og framkvæmdum í raforkumálum, gera till. í þeim efnum og vera ríkisstj. til ráðuneytis í raforkumálum. Raforkumálaráð var upphaflega hugsað sem stofnun, sem Alþ, raunverulega notaði til þess að fylgjast með þessum málum og geta haft ýmiss konar frumkvæði í þeim. Raforkuráð hefur að vísu ekki orðið nærri því sú stofnun, er hún hefði gjarnan átt að verða. Engu að síður, ef einhver stofnun rís ekki undir því, sem hún ætti að vera samkv. lögum, ber að reyna að sjá til þess að breyta henni þannig, að hún rísi undir því. En þá ber ekki að reyna að svipta hana svo að segja öllu valdi og öllum möguleikum, öllu því eftirliti, sem Alþ. ætlast til að hún hafi, og gera hana bara að hjákátlegri, lítilli n., sem ein, tvær litlar línur í l. mæla fyrir um, hvernig starfa skuli. Það hefur nefnilega verið mjög eftirtektarvert, að það er eins og stefnan gangi út á það að reyna að draga úr valdi þeirra stofnana, sem Alþ. þannig kýs, en hlaða aftur á móti upp, eins og gert var t.d. í sambandi við rannsóknaráð ríkisins, ótal nefndum, tvöföldum t.d. þar, sem mestmegnis sé skipað af embættismönnum ríkisins, að embættismenn ríkisins, forstjórar hinna og þessara stofnana séu sjálfskipaðir í ótal ráð á þennan máta. Þess vegna er alveg greinilegt, að það er verið að gerbreyta því valdsviði, sem raforkuráð hefur haft fram til þessa, og þess vegna álít ég, að inn á það eigi Alþ. ekki að ganga. Það er nógu rík tilhneiging til þess að gera, eins og ég gat um áðan, Alþ. að afgreiðslustofnun í höndum ríkisstj. og það hefur verið árátta hjá fleiri ríkisstj. en þessari, þó að þessi gangi mjög langt í því, og það þarf að stinga þar við fótum. Ég vil sem sé alveg eindregið mótmæla því, að þetta frv. sé látið ganga fram nú, bæði vegna þeirrar óheillavænlegu stefnu, sem í því felst, vegna þeirrar sundurlimunar á ríkisfyrirtæki, sem í því felst, og vegna vanhugsaðra og illa undirbúinna kafla, sem í því eru, eins og kaflans viðvíkjandi jarðhitanum. Ég vil þess vegna eindregið leyfa mér að mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann sé ekki að reyna að keyra þetta frv. nú í gegnum þingið. Það kann engri góðri lukku að stýra fyrir hæstv. ríkisstj., ef hún vill hafa gott samstarf, eins og hún þarf á að halda, til þess að koma öllum þeim fjölda mála í gegn, sem nú bíða, ef á að beita í sambandi við mál, sem eru harðvítug deilumál og að mínu áliti mikil ógæfumál eins og þetta, þeim aðferðum að kúska þetta gegnum þingið, hvað sem það kostar.