08.04.1967
Neðri deild: 61. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

105. mál, orkulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er nú ljóst orðið, að hæstv. raforkumálaráðh. ætlar ekki að taka til máls í þessu máli. Ekki mun það þó vera vegna þess, að hann skilji, hvað þetta sé óverjandi mál, heldur vegna hins, að hann vill treysta á handjárnin að koma því í gegn. Það er mikil óvirðing, sem farin er að tíðkast hjá hæstv. ríkisstj. að sýna Alþ. Það var verið að leggja fyrir okkur áðan grg. ofurlitla, við skulum segja sæmilega grg. um tekjuafganginn 1966. Þar kemur í ljós, að það eru 1000 millj., 1000 millj. fram yfir fjárl., fram yfir það, sem áætlað er í fjárl., sem ríkið fær í tekjur. M. ö. o., Alþ. er nógu gott til þess að samþ. lög um slíkt, sem veitir ríkisstj. tekjur upp á 1000 millj. kr. fram yfir fjárl., en Alþ. er ekki nógu góð stofnun til þess að ráðh. tali við það og reyni að verja þau mál, sem er verið að reyna að pína í gegn.

Ég spurði hér áðan um það, viðvíkjandi reikningum Landsvirkjunarinnar, hvort hæstv. raforkumálaráðh. hefði nokkra hugmynd um þann rekstur, og hann minntist í þessu sambandi úr sæti sínu á reikningana. Það eru engir slíkir reikningar komnir. Það er 8. apríl í dag, það eru engir reikningar komnir enn þá, og ég vildi einmitt vita, hvort Alþ., sem hefur skapað þessa stofnun, geti fengið að vita nokkuð um, hvað þessi stofnun hefði kostað, nokkurn skapaðan hlut, og hvort við gætum borið það saman við raforkumálastofnunina og annað slíkt. Það fæst ekki, ekki nokkur skapaður hlutur.

Ég ætla ekki að fjölyrða neitt um þessi mál. Það er auðséð, að það sem ríkisstj. ætlar að gera að sínu sérstaka verki nú, það eru skemmdarverk á öllum sviðum, ekki sízt skemmdarverk á öllu því, sem nýsköpunarstjórnin gerði vel. Það var eitt af beztu verkum nýsköpunarstjórnarinnar að koma á raforkulögunum. Nú á að eyðileggja þau. Nú á að rífa og tæta þetta í sundur handa nokkrum embættismönnum, handa nokkrum gæðingum Sjálfstfl., af því að það þarf að skapa ný embætti handa þeim svo að mennirnir verði fínni.

Og þetta er ekki eina sviðið, þar sem þessi hæstv. ríkisstj. er að eyðileggja og vinna skemmdarverk.

Nýsköpunarstjórnin keypti á sínum tíma 30 togara. Þessi hæstv. ríkisstj. er búin að fækka togurunum á Íslandi um 30, úr 53 niður í 22. Hún er dugleg, þessi ríkisstj. Það hefur engin ríkisstj. unnið svona vel. Ekki einu sinni heil heimskreppa og heimsstríð gat valdið álíka tjóni á íslenzka togaraflotanum og þessi hæstv. ríkisstj. er búin að afreka. Á tímum heimskreppunnar fækkaði togurunum úr 47 niður í 27, það var alls um 20 togara, sem það fækkaði í flotanum, heimsstríðið og heimskreppan, en viðreisnarstjórninni tókst að fækka togurunum um 30. Það er auðséð, hvers konar ógæfuforusta það er, sem Sjálfstfl. hefur nú. Hann hefur einu sinni getað orðið að gagni, sá flokkur. En nú er hann auðsjáanlega að verða þjóðinni til óþurftar á öllum sviðum. Hér er að verða niðurrifsstjórn, sem eyðileggur það, sem til var, en skapar ekki nýtt í staðinn, ræðst á beztu ríkisfyrirtækin og tætir þau í sundur til að úthluta forstjórastöðum handa gæðingum sínum.

Ég minntist hér áðan á kaflann um jarðhitann, og fyrst ekkert var sagt af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi, vil ég leggja hér fram eina brtt. við 9. gr., á þá leið, að framan við gr. bætist, með leyfi hæstv. forseta:

„Jarðhitinn í jörðu niðri er eign þjóðarinnar. Alþ. ákveður hverju sinni með löggjöf um umráðarétt og hagnýtingu hans.“

Ég skal vel viðurkenna, að það hefði gjarnan mátt hafa þetta ýtarlegra. Ég man ósköp vel eftir lítilli löggjöf, sem kom hér einu sinni fyrir á Alþ., stjórnarfrv. um jarðhitamálin, eins og ég gat um áðan, þar sem miðað var við, að landeigendurnir skyldu eiga hitann allt að 100 m niður í jörðu, og þjóðin skyldi eiga það, sem væri þar fyrir neðan, þar sem þyrfti að bora lengra en 100 m til þess að ná honum.

Ég hefði gjarnan viljað flytja nákvæmari grg., en af því að ekki er einu sinni hægt að tala við ráðh., það er eins og þeir séu búnir að missa málið, sé ég ekki, að það sé til neins og legg þess vegna þessa till. fram og bið hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.

Svo vil ég að síðustu minna á það í sambandi við þessi nýju embætti, sem hér er verið að skapa, að það er að vísu tiltölulega auðvelt að pína það í gegn að skapa embætti. En þegar farið verður að leggja þessi embætti niður, þegar þessi tilhneiging ræður ekki lengur hjá þjóðinni, sem nú er drottnandi í hæstv. ríkisstj., þegar farið verður að leggja þessi embætti niður, hafa embættismenn eftir núverandi l. þann rétt, að þeir fá biðlaun, þangað til þeir eru settir í einhver álíka embætti. Ef við kippum þessu í jafnt lag aftur, setjum eina raforkumálastofnun og látum mennina starfa þar eins og þeir hafa gert, í staðinn fyrir eins og er ætlazt til, að gera alla saman að forstjórum í sérstökum stofnunum, verður vafalaust að setja hina á biðlaun. Ég veit ekki, hvort það er meiningin hjá Sjálfstfl., að hinir og þessir gæðingar hans eigi að setjast á biðlaun hjá ríkinu, vegna þess að hann notar tækifærið til þess að pína í gegnum Alþ. vitlaus lög á síðustu stundu mikils annaþings, bara til þess að geta sett menn í embætti, án þess að nokkur rök mæli með því og án þess að ráðh. sjálfur geti komið fram með nokkur rök í þessu sambandi. — En vegna þeirra sérréttinda, sem embættismenn ríkisins hafa, er rétt að minna á þetta, þegar verið er að pína svona hluti í gegn eins og þessa löggjöf hér.

Ég vil mótmæla allri meðferð þessa. máls og lýsa því enn yfir, að ég álít, að þm. ættu að sjá sóma sinn í því að láta ekki svona mál halda áfram.