11.04.1967
Neðri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

105. mál, orkulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls bar ég hér fram ýmsar fsp. og gerði ýmsar aths. við þetta frv. og ætlaði sérstaklega að reyna að fá hæstv. landbrh. til þess að svara ýmsu í þeim efnum. Það gekk mjög treglega, og það gengur nú víst ekki mikið betur núna, þegar hann er ekki einu sinni í salnum, þegar málið er tekið fyrir. Máske væri nú hægt að láta hann vita af því, ef hann hefur einhvern áhuga fyrir, að þetta mál komist áfram. Þætti mér vænt um, að hann væri látinn vita af því, að það væri verið að ræða það.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka hér þær aths., sem ég gerði við þetta frv. við 2. umr., og sem voru margar, og margar þeirra alveg princípíelar. En það eru tvö atriði, sem manni virðast nú smáatriði samanborið við allt hitt, sem mig hefði satt að segja langað til þess að fá nánari upplýsingar um. E. t. v. kunna þær að einhverju leyti að hafa verið gefnar, þegar ég hef ekki verið staddur á fundi, en þó þykist ég nú hafa verið það mikið við, að það hefur þá alveg merkilega farið fram hjá mér.

Það er í sambandi við þær breytingar, sem gerðar voru við 2. umr. málsins á 39. og 57. gr. Í 39. gr., sem er um, framkvæmdastjóra rafmagnseftirlits ríkisins, stóð áður að hann skyldi vera rafmagnsverkfræðingur að menntun. Þetta var fellt burt við 2. umr., og mér er ekki kunnugt um, af hverju. Af hverju það þykir ófært að gera það að skilyrði, að sá maður sem eigi að vera framkvstj. við rafmagnseftirlit ríkisins, sé rafmagnsverkfræðingur. (Gripið fram í.) Ja, tæknifræðingur er maður, sem ekki hefur eins mikla menntun, og það er ætlazt til þess, þegar við erum að koma upp tækniskóla og öðru slíku, að það séu menn, sem séu hjálparmenn hinna. Mér er það alveg fyllilega ljóst, að við erum að reyna að innleiða hér spursmálin um tæknifræðinga, og hlutfallið erlendis víðast hvar er það, að á hvern verkfræðing koma 2 og jafnvel 3 tæknifræðingar. Hlutfallið hér heima hefur verið mjög slæmt í þessum efnum. Það hafa verið allt of fáir tæknifræðingar, en tiltölulega fleiri verkfræðingar. Þess vegna finnst manni, að það nái ekki nokkurri átt, ef nú á að fara að gera þetta að sérstöku embætti með sérstaka skrifstofu undir sig, óháða sjálfri raforkumálastofnuninni eins og hún heitir nú, að slíkur maður sé ekki háskólalærður rafmagnsverkfræðingur. Tæknifræðingur getur jú hæglega verið maður, sem t.d. alls ekki, hefur tekið stúdentspróf í þessum efnum, maður, sem bara hefur gengið á sinn þriggja ára tækniskóla. Og ég sé ekki, að á þessum, tímum vaxandi sérfræði nái það nokkurri átt að fara að draga þarna úr kröfum. Það er ekki vegna þess, að ég sé ekki inni á því, að það eigi að útskrifa mikið af tæknifræðingum og við þurfum marga tæknifræðinga, en slíkir menn eru þó fyrst og fremst meðstarfsmenn þeirra, sem mesta hafa menntunina í þessum efnum. Og mér finnst það alveg sérstaklega skjóta skökku við, að nú á að fara að taka þetta embætti undan raforkumálastofnuninni, þar sem lærður verkfræðingur er yfir, og þá á að skapa þann möguleika, að þarna eigi að koma tæknifræðingur. Ég hefði getað skilið þetta, ef þessi stofnun væri látin vera áfram undir raforkumálastofnuninni. Þá var þó yfirmaður þessa alls lærður rafmagnsverkfræðingur. En að gera stofnunina fyrst sjálfstæða og ákveða síðan, að þessi maður þurfi ekki að vera lærður rafmagnsverkfræðingur, er alger mótsögn í sjálfu sér. Ég held, að þetta sé þess vegna alveg skakkt hugsað, einmitt út frá sjónarmiði þeirra manna, sem eru að gera þetta að sjálfstæðu embætti.

Svo komum við að hinni breyt., sem er í sambandi við 57. gr. Þar eru það sjálfar rafmagnsveitur ríkisins. Nú á að gera þetta líka að sjálfstæðu embætti, eins og við vorum að ræða hér allmikið um við 1. umr. málsins. Við 57. gr. stóð áður, að hann (forstjórinn) skyldi vera verkfræðingur að menntun, gat þó verið kannske verkfræðingur í ýmsu fleiru, vegna þess að þarna koma ýmsar byggingar og annað slíkt til greina. Hins vegar er þetta líka tekið burtu. Hann hefði kannske bara líka getað verið tæknifræðingur, og þetta er jafn órökrétt eins og hin ráðstöfunin. Við skulum segja, að þetta hefði verið áfram undir raforkumálastofnuninni, og yfirmaður stofnunarinnar var lærður verkfræðingur eða lærður rafmagnsverkfræðingur. Þá gat maður kannske skilið, að eitthvað hafi verið linað á og tæknifræðingur settur í þetta starf, vegna þess að yfirmaður stofnunarinnar bar höfuðábyrgðina og gat fylgzt þarna með. En nú er þetta gert að sjálfstæðri stofnun. Þá finnst manni því minni ástæða til þess að skapa þarna möguleika til þess t.d., að hann væri tæknifræðingur. Nú er þetta ekki einu sinni svo, að maðurinn þurfi að vera tæknifræðingur. E. t. v. væri bara nóg, að hann væri útskrifaður úr hinu eða þessu — við skulum bara t.d. segja viðskiptafræði. Væri kannske litið þannig á? Svo að ég fari nú ekki að tala um, að hann væri t.d. kannske bara lögfræðingur, hefði gengið á sínum tíma í lögfræðideildina í Heimdalli, eins og einu sinni var að orði komizt. Þá eru sem sé kröfurnar ekki orðnar miklar. Það eru ekki einu sinni gerðar kröfur um tæknifræðing þarna, nei, nei. Það hefur kannske verið sagt, að þarna ætti að vera viðskiptafræðingur, vegna þess að eins og þið vitið allir saman, hv. þm., eru rafmagnsveitur ríkisins almennt reknar með mjög miklu tapi, svoleiðis að kannske þarf sá maður, sem gegndi því embætti, sem þarna ætti að stofna, að vera eitthvert alveg sérstakt séní í fjármálum, ef hann getur ekki tæmt orkusjóðina alveg hreint, eins og er nú gengið út frá og möguleikar skapaðir til með þessu, þannig að það er hægt að setja þarna viðskiptafræðing eða hvað sem vera skal. Og ef ég þekki rétt þann hátt, sem núna tíðkast hjá því opinbera í sambandi við verkfræðina, gæti ég ósköp vel hugsað mér þetta hvort tveggja framkvæmt þannig, að í þetta hvort tveggja væri settur t.d. einhver góður viðskiptafræðingur úr Heimdalli. Síðan væri hann látinn fela einhverri verkfræðiskrifstofu, sem einhverjir verkfræðingar rækju sem prívatfyrirtæki, öll verkin, sem þyrfti að vinna. Þá væri nú þar með kominn mjög þokkalegur ríkisrekstur á þessu, því að þá fengjum við nokkru seinna að vita, að þetta væri orðið anzi dýrt í rekstri, reikningarnir frá þeim lærðu verkfræðingum, sem væru á sínum eigin skrifstofum og hefðu sinn eigin taxta, mundu vafalaust ekki vera mjög lágir. Ég spyr þess vegna, hvernig í ósköpunum stendur á því, að þetta skuli geta gengið svona fyrir sig og hvaða ástæða finnst mönnum til þess? Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál. Ég gerði það svo ýtarlega við 2. umr. málsins, að ég kann ekki við að fara að endurtaka slíkt. En þetta tvennt finnst mér vera svo fráleitt, að ég mundi satt að segja hafa mesta tilhneigingu til að reyna að breyta þessu á ný, ef það skyldi nú hafa verið svo, að menn hefðu kannske greitt atkv. um þetta meira af þægð við þá, sem, fluttu, en vegna þess, að menn hefðu hugsað málið.