11.04.1967
Neðri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

105. mál, orkulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætlaði rétt að fá að skrifa brtt. við þetta. Ég kom inn á það í minni ræðu áðan, að meðan þessar stofnanir tilheyrðu raforkumálastofnuninni, væri vel hugsanlegt að hafa þarna menn, jafnvel þó að þeir væru ekki háskólagengnir verkfræðingar. Samt hefur það verið svo, að mennirnir, sem hafa verið í þessu, þeir hafa haft þá menntun. Aftur á móti, þegar þetta er gert að sjálfstæðum stofnunum, sem ekki heyra lengur undir raforkumálastjóra, virðist manni það vera óhjákvæmilegt, að þetta séu háskólamenntaðir menn einmitt í þessari grein. Þeir eru einir ábyrgir fyrir þessu. Þeir verða einir að þekkja inn á þetta. Það er rétt, eins og ég kom líka inn á í minni ræðu, alveg rétt hjá hv. 1. þm. Reykn., að það gæti verið þörf á manni með fésýslumenntun þarna, manni með verzlunarmenntun. Það gæti verið. En er ekki hættan sú, að ef þarna væri maður, sem fyrst og fremst væri eingöngu með slíka fésýslumenntun, mundi hann láta þessi verkefni, sem þarna væri um að ræða, af hendi og semja um allt viðvíkjandi þeim við verkfræðinga utan stofnunarinnar. Þá yrði þetta allt saman margfalt dýrara. Við vitum ósköp vel, að ástandið er þannig núna, að það er verið að reyna að eyðileggja það, að menn séu verkfræðingar í þjónustu ríkisins. Það er sem sagt alveg kerfisbundið unnið að því úr ýmsum áttum að eyðileggja það að menn geti verið verkfræðingar í þjónustu ríkisins. Og hér spretta upp hver á fætur annarri verkfræðiskrifstofur, sem þær opinberu skrifstofur láta meira og minna af verkum til, vegna þess að þessar opinberu skrifstofur vantar sjálfar verkfræðinga. Ég held þess vegna, að það væri til þess að ýta undir slíka óheillaþróun að skapa þann möguleika, ekki sízt, þegar er verið að gera þær að sjálfstæðum stofnunum, að það gætu verið aðrir en verkfræðingar, sem þarna væru í forstöðu. Ég álít einmitt, að við eigum að ýta undir það, að þeir verkfræðingar, sem á annað borð fást til þess að vera í þjónustu ríkisins, hafi virkilega möguleika til þess að verða forustumenn í þeim stofnunum, sem þeir vinna í, en það sé ekki hægt allt í einu að taka einhvern og einhvern mann, sem kannske hefur einhverja fésýslumenntun og kannske enga menntun, og setja hann yfir þá. Enda mundu menn vart halda mörgum verkfræðingum í þjónustu ríkisins með slíku móti. Ég vil þess vegna leyfa mér að bera fram brtt. við bæði 39. og 57. gr. um að setja það aftur í það horf, sem það var áður, þegar frv. var flutt. Og ég vil nú í því sambandi segja, ekki sízt af því að hæstv. landbrh. er mættur, ég vil nú segja: Er það nú alveg hreint óleyfilegt fyrir hv. stuðningsmenn ríkisstj. að greiða atkv. með till. um, að tekið sé upp það, sem ríkisstj. hefur lagt til í sínu stjfrv.? Er það algerlega bannað? Er það eitt bannorð frá ríkisstj., að enginn maður úr hennar liði megi greiða atkv. með einu einasta orði, eins og hún hafi lagt til? Ég vil spyrja, hvað eru handjárnin sterk? Ég ætla að taka upp orðrétt það, sem hæstv. ríkisstj. lagði til í sínu stjfrv. Og ég ætla að biðja hæstv. forseta um að gefa mér rétt eina mínútu til þess að geta skrifað þá till. og ég ætla að vonast til þess, að þegar atkvgr. fer fram um það, sé ekki litið á það sem neina bannhelgi að greiða atkv. með slíku. Ég þykist hafa fært rök fyrir því og ég þykist hafa haft stuðning þarna frá sjálfu gamla stjfrv. um þetta, þannig að mér finnst nú, að svona í eitt einasta skipti á þessu þingi mættu hv. stjórnarþm. leyfa sér þann lúxus að hugsa sjálfstætt, af því að þeir eru nú einu sinni áður búnir að fá slíka línu frá þeirri ríkisstj., að þeir megi greiða atkv. með þessu orðalagi.