11.04.1967
Neðri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

105. mál, orkulög

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það hefur stundum heyrzt hér í þingsölum, að hv. þm. séu bundnir af því, sem ríkisstj. vilji, og því sem hún leggi fram, og séu pressaðir til þess að greiða atkv. eins og hún vilji. Það, sem hv. þm. sagði hér áðan, skaut svolítið skökku við þær fullyrðingar, sem hér hafa svo oft verið hafðar í frammi. Mig langar aðeins til þess að undirstrika það, sem ég sagði áðan, að það voru allir hv. nm. fjhn. þessarar d. sammála um að breyta þessu, og ástæðan til þess að þetta var sérstaklega skoðað var erindi, sem ég gat um í minni framsöguræðu, frá Tæknifræðingafélagi Íslands, og við lítum svo á, þegar við skoðuðum þetta erindi, að þeirra óskum, sem við töldum vera réttmætar, og svo þeim sjónarmiðum, sem komu fram í n., verði bezt skil gerð með því að fella þetta niður.

Þar sem hv. þm. orðaði það, að ríkisstj. hefði flutt frv. og þetta hefði staðið í því, vil ég benda á það sérstaklega, að það var undirbúningsnefnd, sem vann að þessu frv. eða samningu þessa frv., og í þeirri n. voru tveir verkfræðingar, og það er ekki óeðlilegt, þó að undir þeim kringumstæðum hefðu þeir sérstaklega haft áhuga á því að setja þessa setningu inn til þess að tryggja sína stéttarbræður.

Það, sem við raunverulega getum dæmt eftir, er að í 1. í dag er hvorki gert að skilyrði, að rafmagnsveitustjóri né rafmagnseftirlitsstjóri sé verkfræðingur, en engu að síður eru báðir þessir menn verkfræðingar, og það gefur til kynna, að undir þeim kringumstæðum, þegar þessi embætti hafa verið auglýst, hafa þessir aðilar, sem embætti hafa hlotið, verið taldir þeir hæfustu og þeir verið verkfræðingar, þannig að ég tel, að með því að hafa þetta opið, sé aðeins verið að gefa fleiri mönnum möguleika á því að taka þessi embætti að sér, sem kannske sumir hverjir væru eins vel færir, en ástæðan fyrir þessari brtt. var m. a., eins og ég gat um áðan, bréf frá Tæknifræðingafélagi Íslands, svo að nm. voru allir einhuga um þessa breytingu.