14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1967

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst fyrir mitt leyti mæla með þeim brtl., sem hv. 5. þm. Austf. hefur talað hér fyrir og flytur um málefni Austurlands. Hann hefur flutt till. um nokkrar hækkanir á fjárveitingum, og það er víst ekkert ofsagt í því, sem hann sagði um nauðsyn þess að veita fé í þá liði, sem hann hefur valið til þess að flytja tili. um, og það mætti áreiðanlega finna fullkomnar ástæður til þess að flytja brtt. við fleiri liði.

En ég verð að segja eins og er fyrir mitt leyti, að ég hef ekki talið ástæðu til þess að gera tilraun með að flytja margar brtt., þó að þess sé stórkostleg þörf að breyta mörgum fjárveitingum, sem Austurland varða. Hef ég valið þann kostinn að flytja einungis ásamt þremur hv. alþm. að austan eina brtt., sem ég mæli hér fyrir, og aðra, sem hv. 2, þm. Austf. mun mæla fyrir sem 1. flm. Ég er sem sagt aðeins riðinn við flutning tveggja brtt., sem fjalía um málefni Austurlands, og mun aðeins mæla fyrir þeirri till., sem ég er 1. flm. að. En það er tilraun til þess að vita, hvort ekki væri hægt að rjúfa þann mikla múr, sem stjórnarliðið hefur byggt um fjárlagafrv. og ekki hefur tekizt að rjúfa, þó að þess væri mikil þörf að bæta þar mörgu við það, sem fær náð fyrir þess augum.

Þessi brtt. er um það að veita 3 millj. kr. til undirbúningsframkvæmda vegna Lagarfossvirkjunar. Ég vil fara fáeinum orðum um þetta mikla nauðsynjamál.

Ég hygg, að hér sé um eitt mesta nauðsynjamál Austurlands að ræða, sem við stöndum þarna saman um að flytja fjórir hv. þm. að austan. En þannig er ástatt á Austurlandi, að raforkuþörfin hefur þar margfaldazt á örfáum árum og vaxið miklu meira þar en nokkurs staðar annars staðar á landinu, að því er ég bezt veit. Það á sínar eðlilegu ástæður, þar sem atvinnurekstur þar hefur vaxið svo gífurlega á síðustu árum, að rafmagnsþörfin hefur þess vegna margfaldazt. Þessu hefur verið mætt að nokkru af hálfu raforkumálastjórnarinnar með því að auka við dísilstöðvakostinn á Austurlandi. En engin vatnsvirkjun hefur átt sér stað þar, síðan Grímsá var virkjuð. En Grímsárvirkjunin, sem átti að vera byrjunarframkvæmd í þessu tilliti, var að sjálfsögðu miðuð við allt annað ástand en nú ríkir á Austurlandi, þar sem atvinnurekstur og rafmagnsnotkun hefur margfaldazt vegna þess, hve síldarútvegur og allur atvinnurekstur í sambandi við síldarútgerð hefur vaxið stórkostlega eystra. Engin ný vatnsvirkjun hefur þó verið framkvæmd og engin stækkun á þeirri virkjun, sem fyrir var.

En nú má segja, að í raforkukerfinu á Austurlandi séu ráð á 8450 kw., en af þessum 8450 kw. eru einungis 3000 kw. vatnsafl, en hitt er allt dísilstöðvaafl. Álagið á þessu kerfi hefur upp á síðkastið vegna sífellt fleiri síldarverksmiðja og annars rekstrar og aukinnar almannanotkunar farið upp í 6500 kw., en þannig er ástatt, að vatn getur orðið mjög lítið í Grímsá, og hefur það komið fyrir, að þurft hefur að nota allar dísilstöðvarnar til fulls og það, sem hægt hefur verið að fá úr Grímsá, til þess að mæta þessari stórkostlegu eftirspurn eftir rafmagni. Í raun réttri hefur orðið þannig ástatt með köflum, að ekkert varaafl hefur verið til í raun og veru. Hafa af þessu orðið hinar alvarlegustu afleiðingar, eins og kom fram nú í haust, þegar bilaði dísilvél í einum kaupstaðnum á Austurlandi og afleiðingarnar urðu hvorki meira né minna en þær, að það varð að stöðva síldariðnaðinn af og til á nokkru tímabili. Það er víst óhætt að segja, að af þessu hafi orðið margra tuga milljóna tjón hreint og beint, ef ekki er þá hægt að mæla tjón það í hundruðum milljóna, sem af þessu hefur hlotizt. Sumir hafa sagt í sambandi við útreikninga á því tjóni, sem af þessu hlauzt, að það, sem fór í súginn, samsvari hér um bil stofnkostnaði eðlilegrar virkjunar á Lagarfossi.

En allir geta ímyndað sér, hvað skeður, þegar 200 skip verða að sleppa mokveiði, jafnvel dag eftir dag, vegna þess að síldarverksmiðjurnar hafa orðið að stöðva rekstur, ekki getað tekið á móti, og svo allt tjónið, sem verður í verksmiðjunum sjálfum.

Nú mætti segja: Er ekki hægt að bæta úr þessu með því að bæta sífellt við fleiri og fleiri dísilvélum? En þá er því til að svara, að slíkur rekstur er mjög óhagfelldur, og það eru áreiðanlega engar ýkjur að segja, að rekstrarhallinn á þessu raforkukerfi, sem er byggt upp á þennan óhagkvæma hátt, með sífellt nýjum og nýjum dísilstöðvum, er á milli 10 og 20 millj. kr. á ári og fer hraðvaxandi.

Á hinn bóginn er það álit manna, sem hafa gert áætlanir um virkjun Lagarfoss með mismunandi sniði, og það hafa verið gerðar fleiri en ein áætlun, að virkjun hans sé mjög hagkvæm. Það hefur verið gerð áætlun um að virkja hann í rúmlega 6000 kw. stöð, sem nú er talið það minnsta, sem getur komið til greina, og svo upp í 12000 kw., en álit þeirra, sem að þessum áætlunum standa, er það, að jafnvel smæsta virkjunin, sem kemur til greina, sé mjög hagfelld, miðað við þær virkjanir, sem Íslendingar yfir höfuð eiga kost á.

Mundu vera sæmilega góðar vonir um, að þetta raforkukerfi gæti borið sig eftir nokkurra ára rekstur, ef Lagarfoss væri virkjaður og skynsamlega væri hagað verðlagningunni á rafmagninu og byggðar þær línur, sem byggja þyrfti til þess að koma þessu í sæmilegt horf. Þá gæti á nokkrum árum reksturinn snúizt úr gífurlegum taprekstri, sem fljótlega getur komizt allt upp í 20 millj. kr. tap á ári, og yfir í það að bera sig, ef málið væri leyst með myndarlegri virkjun við Lagarfoss.

Við höfum, þm. Austf., verið að vinna að því, að Lagarfossvirkjun kæmi til framkvæmda, og okkur þykir það dragast allt of lengi, að hafizt sé handa um þetta mál. Við horfum með skelfingu á þá þróun, sem þarna hefur orðið og þegar hefur valdið gífurlegu tjóni. Og jafnvel þótt úr væri nú bætt með því að setja upp verulega dísilorku til viðbótar, sjáum við, hvað rekstrartapið er gífurlegt með því fyrirkomulagi. Við horfum með skelfingu á þessa þróun og höfum verið að ýta á, að fá Lagarfossvirkjun tekna til framkvæmda. Við teljum þetta mál nú orðið afar aðkallandi og mjög óskynsamlegt að byrja ekki á framkvæmdum á næsta ári, þó að ekki væri nema undirbúningsframkvæmdum, eins og við förum nú fram á. Þar eigum við við vegagerðir og aðrar slíkar fyrstu undirbúningsframkvæmdir í sambandi við virkjunina og svo undirbúning bygginga og annað slíkt, sem hægt væri að byrja á á næsta ári, ef ákveðið væri að ráðast í þessa framkvæmd, og vinna að, á meðan verið er að útvega vélar og annað, sem þyrfti síðan til að halda framkvæmdunum áfram.

Við viljum vonast eftir því, að hv. alþm. hjálpi okkur í þessum mikla vanda og snúist til liðs við okkur með því að samþ. þessa brtt. um að fara af stað með þetta mál á þessa lund, sem þarna er gert ráð fyrir. Hér er tvímælalaust um mjög hagkvæma virkjunarframkvæmd að ræða, um það er ekkert að efast, hvaða stærð sem tekin yrði af þeim, sem koma til mála. Þetta mundi verða stórkostlega aukið öryggi fyrir allan atvinnurekstur á Austurlandi, sem er ekki aðeins málefni Austfirðinga, heldur allrar þjóðarinnar, því að segja má, að við lifum nú orðíð nálega bókstaflega, Íslendingar, að miklu leyti á þeim verðmætum, sem þarna eru tekin á land eystra. Allur þingheimur á hér jafnt undir, að þetta geti færzt í fullkomið lag. Og það er okkar álit, að það sé ekki verjandi að reka svona taprekstur lengur og ekki verjandi að ætla sér að bæta úr þessu einvörðungu með því að bæta sífellt við nýjum dísilvélakosti. Það er svo annað mál, að það þyrfti að bæta við dísilvélum, þó að ráðizt yrði í virkjunina, eins og við stingum upp á, og fallizt yrði á að veita byrjunarframlagið í hana. Það dregst náttúrlega nokkuð, að hún komist í fulla framkvæmd. Við teljum, að hvað sem því liði, yrði að sjálfsögðu að bæta við fyrir næsta síldarúthald a.m.k. 200 kw. af dísilafli, til þess að það sé formandi að leggja út næstu missiri, en það kemur ekki þessu við, þ.e. Lagarfossvirkjun, sem ég er að tala fyrir, nema óbeint. En sú staðreynd, að það þyrfti að bæta svo stórlega við dísilafli, sýnir þó, hve óskaplegt tjón það er að ráðast ekki í að koma þarna upp vatnsvirkjunum í staðinn fyrir að moka þannig fé í dísilstöðvarnar, sem eru þó engin varanleg lausn.

Ég mun ekki hafa um þetta fleiri orð, enda hygg ég, að ég hafi minnzt á aðalatriðin í þessu máli, en að sjálfsögðu væri hægt að segja margt fleira því til stuðnings.