13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

105. mál, orkulög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd., og var því breytt þar að nokkru leyti. Till. þær, sem eru á þskj. 348, voru samþ. til breytinga á frv., svo og till. á þskj. 406 í sambandi við gildistöku l., ef þetta frv. yrði gert að l., þ. e. að það taki gildi 1. júlí í stað 1. maí, eins og upphaflega var í frv. Hv. þm. munu hafa kynnt sér bæði frv. og þær brtt., sem samþ. voru við það. Þetta frv. var lagt fram 7. febr. s.l. og væri vissulega lítill tími til stefnu til athugunar á málinu, ef hv. þm. einnig í þessari d. hefðu ekki haft tækifæri til þess að kynna sér það. Frv. þetta er allmikill bálkur til breytinga á raforkul. frá 1946. Frv. er byggt á þeirri reynslu, sem fengin er af þeim l., sem nú hafa gilt í meira en 20 ár. Þau lög hafa að vísu reynzt vel, en ekki er óeðlilegt, að þau séu endurskoðuð eftir svo langan tíma. Frv. gerir ráð fyrir því, að Orkustofnun verði stofnuð og henni stjórni raforkumálastjóri ásamt tækninefnd, sem skipa skal samkv. 4. gr. Orkumálastjóri hefur ekki sama verksvið að öllu leyti eins og raforkumálastjórinn nú, þannig að rafmagnsveitur ríkisins verða gerðar að sjálfstæðri stofnun. Rafmagnseftirlitið verður einnig nokkru sjálfstæðara en áður var, en er þó undir orkumálastjóra. Því hefur verið haldið fram, að með þessu frv. væri verið að vinna að því að auka embættismannabáknið, eins og það var orðað. Þetta mundi verða til aukinna útgjalda og meiri kostnaðar en með því fyrirkomulagi, sem nú er.

Þetta er ekki rétt, það er ekki gert ráð fyrir að fjölga embættismönnum, þótt þetta frv. verði að l. Orkumálastjóri er sama og raforkumálastjóri nú, þótt verksvið hans sé ekki eins víðtækt og áður, en verður eigi að síður mun víðtækara en það hefur verið lengst af þann tíma, sem núverandi raforkulög hafa verið í gildi. Og það er vegna þess, að verksviðið er alltaf að aukast. Það er alltaf verið að bæta við þessa starfsemi með meiri framkvæmdum, nýrri tækni og víðara verksviði. En það þarf ekki að skipa nýjan mann í þetta embætti, því að það er ekki um annað hér að ræða en nafnbreytingu, orkumálastjóri í staðinn fyrir raforkumálastjóri, og gengur hann því sjálfkrafa inn í þetta starf. Sama máli er að gegna með rafmagnsveitur ríkisins. Það hefur verið sérstakur rafmagnsveitustjóri samkv. gildandi l. og hann verður það áfram, en í stað þess, að rafmagnsveitur ríkisins voru áður undir yfirstjórn raforkumálastjóra og ráðh., heyra rafmagnsveitur ríkisins nú beint undir rn. En embættið er að öðru leyti óbreytt. Sama má segja um rafmagnseftirlitið. Það er sérstakur forstöðumaður fyrir rafmagnseftirlitinu og verður áfram sami maðurinn.

Þá hefur verið að því fundið, að orkuráð hefði ekki eins víðtækt verksvið og það áður hafði. Rétt er það, að raforkuráð hafði samkv. 1. heimild til þess að gera tillögur um fleira en gert er ráð fyrir samkv. þessu frv. En það, sem orkuráð hefur látið sig varða eingöngu, eru lánveitingar úr raforkusjóði, það eru áætlanir um framkvæmdir rafmagnsveitnanna og lagning dreifiveitna út um sveitirnar. Þetta er það, sem raforkuráð hefur látið sig varða. Það hafði ekki vald, en það hafði tillögurétt og hefur á hverju ári gert till. til rn. um það, hvaða framkvæmdir skuli ráðizt í á hverju ári. Orkuráði er samkv. þessu frv. ætlað sama hlutverk og raforkuráð í reynd lét sig varða áður.

Það mætti vitanlega margt segja um þetta frv., ef ástæða væri til að fara ýtarlega út í það, en ég tel þess tæplega þörf, þar sem frv. hefur verið alllengi á borðum hv. þm. Ég vil þó benda á, að það er tæplega rétt að segja, að það sé verið að taka mikið vald af Alþ., eins og haldið hefur verið fram við umr. í Nd., með því að nú getur ráðh. samkv. 7. gr. veitt leyfi til þess að reisa eða byggja raforkuver allt upp að 2000 kw., án þess að leyfis Alþ. sé leitað, en sé um stærri virkjun að ræða, þarf leyfi Alþ. eins og áður. Nú er það svo, að það má segja, að þetta ákvæði í frv. sé til lítils, vegna þess að ekkert fyrirtæki eða sveitarfélag mun ráðast í að reisa raforkuver upp að 2000 kw. stærð, án þess að leita til ríkisstj. og Alþ. um fyrirgreiðslu um ábyrgð, ríkisábyrgð fyrir láni og kannske frekari fyrirgreiðslu um það. Málið er þess vegna í höndum Alþ., þrátt fyrir þetta ákvæði, og það má þess vegna segja: Hvers vegna að hafa þetta í frv., úr því að það er ekki beinlínis hægt að hugsa sér það í framkvæmd, án þess að Alþ. komi til? Þetta frv. er samið af n. margra manna, sérfræðinga, lögfræðinga, hagfræðinga og manna úr flestum greinum þjóðlífsins. Þetta ákvæði var lagt til og ríkisstj. féllst á það og telur að það spilli l. ekki neitt, þó að þetta sé tekið með. Þá er í 7. gr. einnig heimild til þess að reisa varastöð allt að 1000 kw. án sérstaks leyfis. Þetta gæti nú komið sér vel undir vissum kringumstæðum, en jafnvel það verður tæplega heldur gert án aðstoðar Alþ.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til, nú við þessa 1. umr. nema sérstakt tilefni gefist til, að fara fleiri orðum um málið, en vísa til grg., sem því fylgir og gefur fullnægjandi skýringar á því, hvað í þessu frv. felst. Ég legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.