17.04.1967
Efri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

105. mál, orkulög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, sem ég tel eðlilegt að koma á framfæri hér við þessar umræður. Hv. 1. minni hluti hefur gert grein fyrir afstöðu sinni, en 2. minni hluti, sem von var á, hefur ekki látið í sér heyra. Brtt. hv. 1. minni hl. eru í samræmi við till. sem framsóknarmenn fluttu í Nd. og er út af fyrir sig eðlilegt, að þær séu fluttar hér á sama hátt. Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að raforkulögin eru síðan 1946. Ég get tekið undir með honum, að raforkulögin hafa reynzt vel, og þetta frv. til breytinga á gildandi raforkulögum er ekki flutt vegna þess að raforkulögin hafi ekki reynzt vel í aðalatriðum og margir góðir hlutir gerðir skv. þessum l. En það er ekki nema eðlilegt, að það þurfi að endurskoða l., sem unnið hefur verið eftir í meira en 20 ár. Þegar raforkul. voru sett 1946, var verksviðið svo miklu minna og þrengra en nú. Raforkumálastjórnin hafði þá yfir þessu öllu að segja, en nú er það orðið svo umfangsmikið, að það er ekki eðlilegt, að einum manni sé falið að sjá alveg um það. Það kom fram hjá hv. Alþb.-mönnum í Nd., að þetta væri raunverulega vantraust á raforkumálastjóra, þetta frv. En það er svo langt frá því, að það sé. Það er margviðurkennt, að raforkumálastjóri er hinn mætasti embættismaður og samvizkusamur maður og ætti alls ekki skilið, að flutt væri vantraust á hann. En verksviðið hefur aukizt og það er ekki rétt, sem hv. form. 1. minni hl. sagði hér áðan, að Orkustofnun væri ætlað eitthvert lítið hlutverk með þessu frv. Það verður geysimikið hlutverk, og það er áreiðanlegt, að það er miklu meira starf að veita Orkustofnun forstöðu skv. þessum l. núna en var áður að hafa umsjón með öllu, sem undir raforkumálastjóra heyrði. Og þetta sjá nú allir, sem lesa frv., að verkefni Orkustofnunar skv. þessu frv. er geysimikið. Það er tekið fram í 2. gr. Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa það allt upp, af því að þm. hafa það fyrir framan sig. Svo er frv. skipt niður í marga kafla. Og Orkustofnun hefur nú með mest af þessu að gera, með vinnslu raforku, með vinnslu jarðhita til hitaveitu, með varnir gegn hættu og tjóni á raforkuvirkjum og eftirlit með þeim, með verndun jarðhitasvæða, jarðhitavirki og eftirlit með þeim, jarðboranir ríkisins o.s.frv. Og allt er þetta svo stóraukið með auknu framlagi og auknu verksviði, að ég hef satt að segja talað um þetta við raforkumálastjóra og spurt hann að því, hvort hann teldi ekki, að hann hefði nægilegt starf með þessu. Og það er alveg áreiðanlegt, að hann lítur svo á, og nokkru meira en það. Og það er alveg misskilningur, ef einhver heldur, að það sé í raun og veru verið að binda þessa stofnun niður. Það er aðeins með þessu verið að viðurkenna þessa nauðsynlegu verkaskiptingu. Við höfum núna raforkumálastjóra. Eftir að þessi lög eru tekin í gildi, höfum við orkumálastjóra. Við höfum í dag forstöðumann rafmagnseftirlits ríkisins og það verður þannig eftirleiðis eins og áður, þótt þetta frv. verði lögfest. Og rafmagnseftirlit ríkisins heyrir undir Orkustofnunina. Við höfum forstöðumann rafmagnsveitna ríkisins, hann heyrir skv. gildandi 1. undir raforkumálastjóra, en eftir að þetta frv. hefur verið lögfest, heyrir hann beint undir ráðh., þannig að hans embætti verður sjálfstæðara en það var áður. Það er ekki, meiri breyting á þessu en svo, að þótt þetta frv. verði samþ., þá þarf engan af þessum þremur embættismönnum að skipa. Þeir eru allir í embætti, og þessir sömu menn halda sínum embættum, án þess að fá nýtt skipunarbréf. Það er ekki meiri breyting á en þetta. En rafmagnsveitur ríkisins eru teknar hér frá, vegna þess að verkefni hefur aukizt og þetta er ekki nema það eðlilega. Þetta verður ekki dýrara en áður var, en með því að verkefninu er skipt, eftir að það hefur aukizt eins og raun ber vitni, þá má ætla, að enda þótt þessir menn, sem þarna hafa verið, hafi staðið hið bezta í stöðu sinni, þá hafi þeir bara betri yfirsýn, eftir en áður yfir það verkefni, sem þeir eiga að sjá yfir og stjórna.

Hv. frsm. 1. minni hl. taldi, að það væri verið að afnema einkarétt ríkisins til þess að virkja. Það er rétt, að áður var það bundið við 100 kw., en nú þarf ekki leyfi Alþ. til að virkja allt upp að 2000 kw., en það þarf leyfi ráðh. Nú verður að gera ráð fyrir því, að enginn ráðh. veiti slíkt leyfi, ef það brýtur í bága við almenningshagsmuni eða ríkisfyrirtæki. Það verður að ætla það.

Í öðru lagi er það alveg öruggt, að slík stöð verður ekki reist eða byggð, nema að leita til Alþ. um aðstoð, ríkisábyrgð eða annað þess konar, þannig að réttur Alþ. er fyrir hendi eftir sem áður.

Hv. frsm. minntist hér á Landsvirkjunina og till., sem var samþ. við Landsvirkjunarfrv. Það er rétt, og ég tel, að það fari mjög vel á því, að allar rannsóknir í sambandi við virkjanir fari fram á vegum Landsvirkjunar og Orkustofnunar í sameiningu, eins og verður eftir að þetta frv. er staðfest. Landsvirkjunin og sú stefna, sem var mörkuð með þeim lögum, mun áreiðanlega reynast heillarík, vegna þess að þá var tekin sú stefna að virkja fremur stórt en smátt, sem við höfum orðið áður að gera vegna fjárskorts, og sú stefna var mörkuð og verður vonandi ráðandi í framtíðinni að tengja orkuver saman til þess að tryggja landsmönnum sem jafnasta aðstöðu og meira öryggi en þeir búa nú við, þegar aðeins er um að ræða að fá orku frá einu orkuveri, sem alltaf gæti af einhverjum ástæðum orðið fyrir skakkafalli, og ekki fullnægt orkuþörfinni. Þannig að ég held, að það hafi verið orðum aukið hjá hv. frsm., þegar hann var að tala um, að þetta frv. miðaði að því að auka upplausn í starfsemi raforkumála hér á landi. Ég held, að það sé miklu frekar til þess að tryggja heppilega framkvæmd og nauðsynlega yfirsýn yfir málið. Ekki finnst mér, að það ætti heldur að vera aðfinnsluefni hv. þm., þótt orkusjóðurinn sé geymdur í Seðlabankanum og ávaxtaður þar. Þar verður auðvitað ekki þessi daglega afgreiðsla, en hann hefur reikningshaldið fyrir sjóðinn og það held ég, að geti ekki verið aðfinnsluvert og kemur ábyggilega ekkert í bága við l. um Seðlabankann, þótt það sé gert. Og það er eins og mig minni, að það sé þannig með fleiri sjóði, að þeir séu hafðir í vörzlum Seðlabankans, en ég vil nú ekki fullyrða um það, en það er eins og mig minni, að við höfum hér í hv. Alþ. samþ. eitthvað um það áður. Mér finnst þetta frv. alls ekki stefna að því, sem orðið er í sambandi við Skipaútgerð ríkisins. Ég er alveg sammála hv. þm. um það, að ég tel ekki heppilegt, að það sé verið að gera út skipin á vegum ríkisins undir svona mörgum stjórnum, heldur ætti að sameina það undir eina stjórn. Ég hygg, að það séu fleiri en ég, sem líta þannig á. Það kæmi mér ékki á óvart, þótt það yrði nú bara gert einn góðan veðurdag. Þetta er heldur ekki sambærilegt við þá breytingu á skattkerfinu, er skattanefndir voru lagðar niður og skattstjórarnir komu í staðinn og stærri umdæmi. Það er víst alveg rétt, að þetta hefur orðið dýrara í framkvæmd en reiknað var með í fyrstu. En áreiðanlega hefur fengizt meira samræmi í skattframtölin eftir en áður, og ég er alveg viss um, að gamla kerfið verður ekki tekið upp aftur. En það má vel vera, að það þyki ástæða til að breyta þessu eitthvað, og engin ástæða til að ætla, að þetta sé endilega eins og það ætti að vera. En gamla kerfið verður ekki tekið upp aftur, að það verði skattanefnd í hverjum hreppi, það er ég alveg viss um.

Þá er það orkuráð. Það er stundum verið að tala um þetta vald, sem orkuráð hafi skv. raforkul. En sannleikurinn er sá, að orkuráð — raforkuráð hefur aldrei haft vald. Það hefur alltaf verið ráðgefandi stofnun, en það er rétt, að því er ætlað með raforkul. að gera till. um fleira en því er ætlað að gera skv. þessu frv. En ég hef setið í raforkuráði frá upphafi, allan tímann, og raforkuráð hefur aldrei látið sig varða annað en lánveitingar úr raforkusjóði og línulagnir í dreifbýlið. Það er þetta, sem raforkuráð hefur gert till. um til ráðh., og annað ekki. Og raforkuráði er ætlað, skv. þessu frv. það sama og það hefur í framkvæmdinni gert, en það er alveg rétt, að skv. raforkul. hafði raforkuráð möguleika til þess að gera till. um fleira til ríkisstj., það hefur bara ekki verið í framkvæmd þannig. Ég tel, að það sé enginn skaði skeður, þótt lögfest sé nú eftir 20 ár það, sem hefur verið í framkvæmdinni á þessu sviði.

Um það að auka lánin til þeirra, sem sameinast um stöðvar, í 4/5 í stað 2/3, þá er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt, að fram komi till. um það, það er alltaf matsatriði, hvað á að lána, hvert hlutfallið á að vera. En í frv. eru það 2/3, en ekki 4/5, eins og lánað er út á litlar stöðvar, og það er einfaldlega vegna þess, að það er gert ráð fyrir því, að þegar menn sameinast um stærri stöð, verði hvert kw. ódýrara en á litlum stöðvum, þannig að þegar veitt er 2/3 lán út á þær stöðvar, þá fái þeir bændur, sem nota stöðvarnar í sameiningu, ekki verri útkomu með 2/3 að láni heldur en hver einstakur bóndi, þó að hann fái 4/5. En ég skal fyllilega viðurkenna, að það er algert matsatriði, hvort þetta er alveg rétt. Það mætti alveg eins hugsa sér 9/10 lán til einstakra bænda eins og 3/4 eða 4/5. Þá er það að síðustu bráðabirgðaákvæðið. Ég vil aðeins segja það, að ég tel það ekki eiga heima í þessu frv. og tel ekki ástæðu til að lögfesta það í þessum l. Sannleikurinn er sá, að það þarf ekki lög til þessi að gera þessa áætlun, sem þarna er rætt um, og það þarf ekki lög til þess að ljúka rafvæðingunni á þessum tíma, sem þar er líka nefndur. Það er ekkert, sem vantar, annað en fjármagn. Ef það er fyrir hendi, þá er hægt að hraða þessu.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að það er vilji sennilega allra þm. að hraða þessu. Og það er unnið að þessu með talsverðum hraða, þannig að við erum farnir að sjá nokkuð fyrir endann á því. Ég hef talað um 1970, en hv. framsóknarmenn um 1969, þannig að það ber nú ekki mikið á milli, en ég tel, að við getum alveg náð endunum saman, þótt við séum ekki að setja bráðabirgðaákvæði aftan í þetta frv., og mér finnst það alls ekki eiga þar heima. En við getum hins vegar verið alveg sammála um, að það eigi að hraða rafvæðingunni, eins og ég hef áður sagt, og ég tel, að eiginlega tali nú verkin nokkuð í þessu máli, það hefur verið rafvætt núna síðustu árin og er haldið áfram og ekki færri heimili árlega nú en var. Og þetta er að komast á síðasta snúninginn og það er vissulega nauðsynlegt og sjálfsagt að hraða því, að allir landsmenn fái rafmagn.