14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, fjárlög 1967

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í fjárlagafrv. er lagt til að varið verði 4 millj. og 80 þús. kr. til listamannalauna. Um nokkur undanfarin ár hefur verið kveðið svo á í fjárlögum, að fé þessu skuli skipt af 7 manna nefnd, sem kosin sé hlutfallskosningu af Sþ.

Síðasta Alþ. samþ. þáltill., þar sem skorað var á ríkisstj. að undirbúa frv. um listamannalaun, þar sem settar væru fastar reglur um árlega úthlutun þess fjár, sem Alþ. samþ. hverju sinni til listamannalauna. Þetta frv. hefur þegar verið undirbúið, en það hefur verið tilætlun mín að fá tækifæri til að ræða efni þess og þá skipun, sem gert er ráð fyrir að taka upp á úthlutun listamannalauna, við Bandalag ísl. listamanna. Ég tel sjálfsagt, að Bandalag ísl. listamanna og aðildarfélög þess fái tækifæri til þess að segja álit sitt á lagasetningu um þetta efni, áður en frv. um þetta efni er lagt fyrir hið háa Alþingi. Það hefur ekki enn unnizt tími til þessa samráðs við listamennina sjálfa, en það er fastmælum bundið, að slík samráð við Bandalag listamanna skuli eiga sér stað í þinghléinu, þ.e.a.s. í janúarmánuði n.k. Þegar þingið kemur saman aftur 1. febr., geri ég því fastlega ráð fyrir því, það er a.m.k. ætlun ríkisstj., að leggja þá fyrir hið háa Alþ. frv. til I. um listamannalaun, frv., sem undirbúið hefur verið í samráði við samtök listamannanna sjálfra, og ég tel enga ástæðu til annars en ætla, að hið háa Alþingi fallist á að setja lög um þetta efni, þar sem till. um það að undirbúa löggjöf um það var samþ. einróma á hinu háa Alþ. í fyrra.

Með hliðsjón af því, að frv. um listamannalaun verður lagt fyrir Alþingi, þegar það kemur saman aftur að loknu þinghléi, og með hliðsjón af því, að það var einróma vilji Alþingis í fyrra, að slík löggjöf skyldi sett, álít ég það geta talizt fullvíst, að þetta Alþingi muni setja slíka löggjöf, og þess vegna hef ég leyft mér að flytja till. á þskj. 168 til breyt. á þessum lið fjárlagafrv. um það, að niður sé fellt það ákvæði, að Alþingi kjósi 7 manna nefnd til þess að úthluta þessum 4 millj, og 80 þús. kr. listamannalaunum. Ég tel ekki aðeins óhætt, heldur einnig rétt að fella þetta ákvæði niður og láta skiptingu þessara rúmra 4 millj., sem Alþ. væntanlega ætlar til listamannalauna, fara fram skv. lögunum, sem væntanlega verða sett umi það efni. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja þá brtt., sem nú einmitt er verið að dreifa prentaðri, um það, að niður falli ákvæðin um það, að Alþingi skuli kjósa 7 manna n. til þess að úthluta listamannalaunum.