13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

190. mál, girðingalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er nú seint á ferðinni, en það er flutt samkv. ósk Búnaðarfélags Íslands, en sú ósk barst rn. með bréfi dags. 7. þ. m. Frv. er ekki stórt í sniðum og það er þannig, að verið er að leiðrétta ákvæði í girðingalögum, sem ekki eru nógu skýr, þegar um er að ræða girðingar á afréttarlöndum. Ég held, að hv. þm. verði sammála um þetta frv. og það gæti þess vegna orðið að l. á þessu þingi, ef að því væri unnið. Ég vil því mælast til þess, að hv. landbn. héldi fund og athugaði það, hvort ekki væri rétt að verða við óskum Búnaðarfélagsins með þessa leiðréttingu og ef nál. lægi fyrir á morgun, gæti málið farið til hv. Ed. fyrir helgi og þá gæti það, þótt tímaþröng sé orðin mikil, orðið að l., þótt þingi yrði slitið nú fyrir 20. þ. m. En það verður að ráðast, hvort þetta tekst. Það verður þá að bíða til haustsins, en það hafa komið upp leiðindamál í sambandi við girðingar á afréttarlöndum, vegna þess að lagaákvæðin eru ekki nógu skýr, og þess vegna væri gott að koma þessu í lög nú fyrir þetta sumar.

Ég vil, herra forseti, leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. landbn.