17.04.1967
Efri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

190. mál, girðingalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til breyt. á girðingalögunum, er lítið frv., ef svo mætti segja, var samþ. í Nd. með smávegis breytingu, sem hv. 2. þm. Norðurl. v., Jón Ísberg, hafði flutt í sérstöku frv., en var samþ. sem brtt. við frv. ríkisstjórnarinnar: Frv. er flutt eftir beiðni Búnaðarfélags Íslands, og má segja, að það hafi komið nokkuð seint fram, en bréfið frá Búnaðarfélaginu barst rn. ekki fyrr en 7. þ. m., og má því segja, að það hafi verið vel unnið að málinu, eftir að það var komið í Nd., enda afgreiddi landbn. Nd. nál. sama dag og málið var til umr. þar.

Það má segja, að þetta frv. sé nánast til þess að gera ákvæði í girðingalögunum skýrari, þegar um girðingar á afréttarlöndum er að ræða. Þetta hefur engan aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, en að áliti þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað, er nauðsynlegt að leiðrétta þetta, og hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur sagt, að í framkvæmdinni hafi orðið dálítið erfitt að eiga við þetta mál, vegna þess, að skýringu vantaði í l., sem felst í þeirri brtt., sem samþ. var í Nd. við frv. Þetta hvort tveggja á að vera til þess að auðvelda málið í framkvæmd og auðvelda þeim, sem eiga að fylgjast með framkvæmd laganna, að rétt sé að farið, og þess vegna á frv. rétt á sér.

Ég vildi nú mælast til þess við hv. landbn. þessarar d. og beinlínis fara þess á leit, að að hún hafi sama hátt og landbn. Nd., að skoða málið strax, og ef hún væri nú sammála því, sem gerzt hefur, hvort hún gæti þá ekki afgr. nál. í dag, svo að frv. verði að l. á þessu þingi. Þetta eru aðeins tilmæli, og ég held, að þegar hv. n. fer að athuga málið, sannfærist hún um, að það sé rétt að gera þetta. Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.