14.04.1967
Neðri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

181. mál, hafnalög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir það leitt, sem ég sé, að enginn hæstv. ráðh. er viðstaddur hér í hv. d. Ég hefði sérstaklega óskað eftir því, að hæstv. sjútvmrh. og hæstv. fjmrh. hefðu heyrt það, sem ég nú vildi segja, og ef þeir væru hér í húsinu, þætti mér æskilegt, ef hæstv. forseti gæti séð til þess, að þeir mættu hér við umr. Mér sýnist á forseta, að svo muni ekki vera, þeir muni ekki vera hér nálægir og ég endurtek, að það er mjög leitt, að þeir skuli ekki vera viðstaddir, þegar slíkt mál er rætt, sérstaklega þessir tveir ráðh., því að málið varðar þá einkum, náttúrlega kannske sér í lagi hæstv. sjútvmrh., en einnig hæstv. fjmrh. allverulega. Úr því að svo er, að þeir eru ekki viðstaddir og ekki líkur til, að þeir geti verið það nú á næstunni, vil ég biðja hv. frsm. meiri hl. að flytja þeim það, sem ég segi hér, og ég vildi sérstaklega, að þeir heyrðu og mun ég þá sennilega geta þess, hvað það er um leið og ég nefni það.

Fyrir utan frsm. þessa máls, þ.e.a.s. hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Vestf., mun ég hafa verið eini þm., sem tók til máls um þetta mál við 1. umr. Ég vék þar að allmörgum atriðum, sem ég taldi, að þyrftu breytinga við í þessu frv. Mér er ánægja að því, að ég sé, að flest þessi atriði munu hafa verið tekin til meðferðar í n. og — já, þarna er einn ráðh. kominn, það er gott, en hvorki er það nú hæstv. sjútvmrh. eða hæstv. fjmrh. (Gripið fram í: Hann getur fært sjútvmrh….) Já, hann getur þá skilað þessu, sem ég þurfti að tala við hæstv. ráðh. Já, ég var að segja það, að mér væri ánægja að því að flest þessi atriði eða kannske öll, sem ég vék að í ræðu minni við 1. umr., hafa verið tekin til meðferðar í n. og mörg þeirra hafa verið tekin upp á þann hátt, sem ég hefði óskað eftir. Fyrir það vil ég þakka n. og það er þakkarvert, að um þetta mál virðist hafa orðið nokkurt samstarf og reynt að ná samkomulagi um sumar mikilvægar breytingar. Hins vegar hefði ég kosið, að þær breytingar hefðu verið fleiri og vera má, að þessar brtt., sem fram eru komnar, séu ekki allar til bóta, en yfirleitt eru þær það.

Það er eitt atriði, sem mér láðist að vekja athygli á við 1. umr., en hef síðar komið á framfæri við n. og það er varðandi gildistöku væntanlegra laga. Mér þykir fara illa á því, að frv., ef að 1. verður, skuli ekki eiga að taka gildi fyrr en 1. janúar 1968. Það tel ég verulegan galla. Ég þykist alveg vita það, að þeir, sem nú eru að undirbúa framkvæmdir í höfnum á næsta sumri, muni, þegar þeir hafa heyrt getið um þetta frv. og að þar væri umbóta von, hafa gert ráð fyrir því, að það tæki til þeirra framkvæmda, sem unnið verður að á næsta sumri, enda er það mjög algengt, að lög taki þegar gildi. Og mér sýnist, að það sé ástæðulaust að vera að draga svona gildistöku l. og eiginlega mætti nú segja það, að úr því að l. eiga ekki að taka gildi fyrr en um áramót, sé ekki eins mikil ástæða til þess að afgreiða þau nú á þessu þingi. Ég vildi beina því til n., af því að ég sé, að hún hefur ekki tekið þetta upp og af því að ég hef ekki séð það heldur, að það hafi neins staðar verið tekið upp enn þá í tillöguformi, að hún athugi nánar, hvort hún telji sér ekki fært að mæla með því, að l. taki þegar gildi. Það væri vel hugsanlegt, af því að búið er að afgreiða fjárlög fyrir þetta ár að hafa þarna á einhvern fyrirvara um það, að hækkun sú, sem af þessu yrði, yrði ekki greidd fyrr en síðar. Það finnst mér, að kæmi til mála, til samkomulags um þetta atriði.

Það er leitt, sem fram kemur nú í framsögunni, að ekki skuli hafa verið haft neitt samráð við Samband ísl. sveitarfélaga um þetta mál. Ég hélt nú satt að segja, að það hefði verið gert og hafði ekki orð á því, þegar ég talaði um þetta mál við 1. umr. En nú kemur það fram hjá frsm., að það hafi ekki verið gert og framkvæmdastjóri sambandsins hafi komið á fund n. til þess að óska eftir því að fá málið til umsagnar, sem ekki hefur nú verið talið fært að verða við, af því að stefnt er að því að afgreiða málið á þessu þingi. En þetta er eitt af því, sem á hefur skort um undirbúning málsins, því miður.

En áður en ég kem að því að minnast á einstök atriði í frv., vildi ég gjarna beina þeirri fsp. til hv. frsm. meiri hl. n., á hverju hann byggi ummæli sín áðan, sem lutu að því, ef ég hef tekið rétt eftir, að eftirleiðis mundi ríkissjóður standa í skilum við hafnarsjóði betur en hann hefur gert. Hann nefndi nú ekki held ég, hvort það ætti við bæði um þær skuldir, sem nú eru á fallnar, og þær skuldir, sem myndast við hafnarsjóðina framvegis. Ég spyr að þessu vegna þess, að ég sé ekki, að í frv. sé gert ráð fyrir því, að skylt sé að framkvæma þessi skil, og hafnabótasjóður, sem á að hafa heimild til þess að lána út á væntanleg ríkisframlög, verður, a.m.k. eftir till. n. í heild, ef þær verða afgreiddar þannig, ekki mikils megandi, þar sem tekjur hans verða ekki nema lítill hluti af því, sem þær áttu að verða samkv. frv. Ég vildi gjarnan fá nánari skýringu á því, hvað hv. frsm, meiri hl. hefur átt við með ummælum sínum um þetta atriði. Ég sé ekki, að með ákvæðunum um áætlunargerð sé þetta á neinn hátt tryggt.

Ég gerði við 1. umr. aths. við 3. gr. frv. og nú sé ég, að hv. n. leggur til, að henni verði breytt, þannig að hafnamálastofnunin hafi yfirumsjón með hafnarframkvæmdum í stað þess, sem í frv. stendur, að hún annist allar hafnarframkvæmdir, sem styrktar eru af ríkisfé. Hins vegar stendur hér í brtt., að ef um sé að ræða hafnarframkvæmdir, sem styrktar séu samkv. 1. tölul. 6. gr. l., þ.e.a.s. 75%, geti hafnamálastofnunin ákveðið, að hún annist framkvæmdirnar. Í síðustu mgr. gr. segir svo, að heimilt sé hafnamálastjóra með samþykki ráðh. að veita bæjar- eða sveitarfélagi leyfi til að hafa á hendi eigin hafnarframkvæmdir undir tækni- og fjárhagslegu eftirliti hafnamálastjóra. Þetta á þó væntanlega aðeins við framkvæmdirnar, sem njóta 75% styrks, því að varðandi hinar þarf ekki að veita leyfið og vænti ég, að ég skilji þetta rétt.

Ég vil þá koma að 4. gr., en um hana hefði ég viljað ræða við hæstv. fjmrh. Ég leyfði mér að benda á það við 1. umr., að í frv. væri nokkuð mikil breyting gerð á ríkisábyrgðarákvæðum laganna, þar sem frv. gerir ráð fyrir einfaldri ábyrgð, en núgildandi lög gera ráð fyrir sjálfskuldarábyrgð. Þessu hefur n. í heild ekki séð sér fært að breyta, en hins vegar hefur hv. minni hluti n. lagt fram till. um breyt. á þskj. 516, sem ég er að sjálfsögðu samþ. Ég vildi því spyrja að því, hvort þeir, sem ekki vilja breyta þessu, hugsi sér það í raun og veru, að gengið verði að hafnarsjóðum, sem ekki geta staðið í skilum, áður en ríkið innir af hendi sína ábyrgð. Nú gengur þetta þannig fyrir sér, að ríkisábyrgðasjóður greiðir vanskilin, en síðan reynir hann að innheimta hjá hafnarsjóðunum, og hefur nú satt að segja í seinni tíð fundið upp nokkuð handhæga aðferð til þess, sem mér sýnist að muni hafa verið beitt í ýmsum tilfellum, þegar gætt er að því, hvað vanskilaskuldir hafnarsjóða eru í raun og veru litlar, eftir síðustu reikningum ríkisábyrgðasjóðs að dæma, en sú aðferð virðist vera í því fólgin að halda eftir hluta sveitarfélaganna úr jöfnunarsjóði. Mér finnst það nú satt að segja dálítið hæpin aðferð og mig minnir, að þegar lög um ríkisábyrgðir voru sett fyrst hér á þingi, þá væri ekki gert ráð fyrir, að þessari skuldajöfnun yrði beitt gagnvart hafnarsjóðum, enda hafa þeir, eða margir þeirra a.m.k., vissulega sérstöðu á þessu sviði. En um þetta vil ég spyrja, hvort raunverulega sé ætlazt til, að gengið sé að hafnarsjóðunum og mannvirkjum þeirra, áður en til greina komi að ríkisábyrgðasjóður inni af hendi greiðslurnar á vöxtum og afborgunum. Það sýnist mér ekki gott, og vilja menn nú ekki athuga það nánar fyrir 3. umr., hvort ekki væri ástæða til þess að breyta þessu? Þó að menn hafi föst „princip“ til að fara eftir í fjármálaráðuneytinu, mega þau ekki vera alveg ófrávíkjanleg ekki leiða til fjarstæðu. Við 4. gr. hefur hv. n. gert brtt. í samræmi við mína ábendingu til bóta, en þó hefði ég talið, að rétt hefði verið að breyta þessari gr. meira. Mér finnst sanngjarnt, að greiddur væri einhver styrkur út á landkaup. Það gæti komið til mála, að hann þyrfti ekki að vera 40%. Hann gæti verið eitthvað lægri. En atvinnutækjanefnd lagði til á sínum tíma, að landkaup hafnarsjóða væru styrkhæf, fengju 20% ef ég man rétt, og það byggðist á því, að n. tók það inn í sitt frv. og það hefur einnig verið tekið í þetta frv., að það sé m.a. skilyrði fyrir ríkisframlagi, að hafnarsjóður hafi tryggt sér eignarrétt þess landsvæðis á strandlengju hafnarinnar, sem rn. og hlutaðeigandi hafnarstjórn telur þurfa undir hafnarmannvirki og starfsemi, sem nauðsynlegt er talið að fari fram við höfnina. Þarna er sú kvöð lögð á hafnarsjóði, sem ekki er í lögum, þeim er beinlínis fyrirskipað að gera þetta, og ég tel rétt að gera það, en til samræmis væri þá það, að þeir fengju einhvern styrk til þess, og það getur ekki staðizt, að þetta leiði til einhverrar óeðlilegrar lóðaverzlunar, því að þarna er um að ræða land undir hafnarmannvirki, sem samþykkt eru af rn. Það verður bundið samþykki rn. eins og hafnarmannvirkin sjálf, þess vegna er þetta réttmætt og í rökréttu samhengi við hin nýju ákvæði, sem leggja skyldu á hafnarsjóðina um að eignast þessi lönd. Það getur kostað nokkurt fé, ekki síður en annað. Þetta hefur hv. minni hluti tekið upp í sínar till. og ég þakka honum fyrir það, en hefði raunar getað sætt mig við, að þetta framlag út á landkaup væri eitthvað lægra heldur en út á venjuleg hafnarmannvirki, eða talið það ekki óeðlilegt. Við 5. gr. hefur n. tekið til greina það, sem ég benti á, og ég vil þakka henni fyrir það. Það er tekið upp alveg á þann hátt, sem mér sýnist eðlilegt að gera. Þá vil ég koma að 6. gr., en um hana sagði ég í 1. umr., að ef henni yrði ekki breytt, þá mundi ég ekki sjá mér fært að greiða atkv. með þessu frv., og átti það nú raunar við um fleira. En orðin „allt að“ hafa verið felld niður, „allt að 75%“ og „allt að 40%“ af stofnkostnaði. Ég skal ekki ræða það frekar, þetta er mjög mikil breyting á þessari gr. og frv. í heild, og ég er mjög ánægður yfir því, að n. í heild skuli hafa tekið þetta upp. Hins vegar er ég fylgjandi till. um frekari breytingu á þessari gr., sem hv. minni hluti hefur tekið upp á þskj. 516. Hún er um það, að ríkissjóður skuli greiða 60% stofnkostnaðar við bátakvíar og eina afgreiðslubryggju hafnarsjóðs með allt að 150 m legukanti í hverri höfn. Ef þetta væri samþ., sem ég teldi mjög til bóta, þá væru eiginlega þrír taxtar á ríkisframlögunum, 75%, 60% og 40%. Hv. frsm. minni hl. tók það fram, að þetta ákvæði um að greiða 60% út á bátakvíar og eina afgreiðslubryggju allt að 150 m mundi vera svipað till., sem atvinnutækjan. hefði gert á sínum tíma, og það er rétt, að annað atriðið er úr þeim till. Þar var gert ráð fyrir því, að greitt yrði út á eina afgreiðslubryggju hafnarsjóðs á hverjum stað með allt að 150 m legukanti 65%, hér raunar aðeins 60%, en það er ekki óeðlilegt, þar sem búið er að hækka sjálfa hafnargarðana upp í 75%. Hins vegar man ég ekki til, að atvinnutækjan. gerði till. um hækkaða greiðslu út á bátakvíar, en eigi að síður er mjög eðlilegt að gera það. Þessar bátakvíar koma eingöngu til góða fiskiflotanum og þær framkvæmdir eru mjög vaxandi, að ég ætla, í ýmsum höfnum. Menn hafa gert sér grein fyrir því að nauðsyn bar til að sjá fiskibátunum fyrir öruggu lægi inni í höfnunum, því það er nú oft svo, að þó að til séu hafnargarðar, þá geta komið þau veður, að bátarnir hafa hvergi frið og sjómennirnir verða að vera úti í bátunum dag og nótt, þó að þeir séu í höfn, til þess að firra voða. Til þess að öryggi fáist, þarf bátakvíar. Þær eru nú á ýmsum stöðum, bátakvíar inni í höfnunum, þar sem er öruggt skjól fyrir fiskibáta. Ég ætla að minnast örlítið á 3. kaflann um framkvæmdaáætlanirnar. Mér sýnist sú brtt., sem n. hefur lagt fram við þann kafla, við 10. gr., vera til bóta. Í staðinn fyrir það, sem áður stóð í frv., að „ráðh. leggur áætlunina fyrir Sþ. sem grundvöll skiptingar þess fjár, er Alþ. veitir til hafnargerða hverju sinni“ o.s.frv., stendur nú í till. n.: „ráðh. leggur áætlunina fyrir Sþ. til leiðbeiningar varðandi fjárútveganir og framkvæmd þessara mála.“ Þetta er að sjálfsögðu eðlilegra orðalag. Samt er ég ekki ánægður með þessa gr., þ.e.a.s. 1. mgr. Þar er sagt fyrir um það, hvernig hafnaáætlun skuli gerð og fyrirmælin eru á þá leið, að hún skuli vera um skiptingu þess fjár, sem ætlað er til hafnagerða í almennri framkvæmdaáætlun ríkisins, en í öðru lagi, ef slík áætlun er ekki gerð, þá skuli hún vera miðuð við það heildarfjármagn, sem líklegt er talið, að til ráðstöfunar verði. Þetta finnst mér dálítið óeðlilegt, að binda þannig hendur hafnamálastjóra um áætlunina, og mér finnst eðlilegt að inn í gr. komi, að áætlunin skuli einnig miðuð við framkvæmdaþörf og eiginlega fráleitt að það vanti í gr. Væri þessu bætt inn í, þá mætti hitt standa að mínum dómi.

Ég vil víkja örfáum orðum að kaflanum um hafnabótasjóð, og þá fyrst að 20. gr. N. hefur orðið sammála um að leggja til, að hafnabótasjóðsgjaldið verði fellt niður úr frv. En n. í heild eða meiri hl. hennar setur ekkert í staðinn, þannig að í stað þess að gert var ráð fyrir, að sjóðurinn hefði 20 millj. kr. tekjur árlega, þá á hann nú aðeins að hafa 8 millj. kr. tekjur. Þetta finnst mér vera nokkuð mikill niðurskurður á tekjum sjóðsins, ekki sízt með tilliti til þess, að af þessum tekjum er honum auk annars ætlað að styrkja hafnarsjóði, sem eiga við sérstaka fjárhagsörðugleika að stríða vegna erfiðrar aðstöðu og dýrrar mannvirkjagerðar. Þetta er eitt af því gagnlegasta í frv. og mér finnst, að það séu nokkuð mikið skornir niður möguleikar sjóðsins til þess að gera gagn á þessu sviði, en þess er vissulega þörf. Þess er t.d. mikil þörf vegna fátækra hafnarsjóða, sem rétt áður en þessi lög taka gildi — ef frv. verður samþykkt eru búnir núna í dýrtíðinni að ráðast í að byggja dýra hafnargarða.

Minni hl. hefur áttað sig á þessu og um leið og hann leggur til ásamt meiri hl. að fella niður hafnabótasjóðsgjaldið, þá leggur hann til, að ríkisframlagið verði hækkað. Ég mun greiða atkvæði með því.

Ég ætla að leyfa mér að koma aftur að 6. gr. og óska skýringa frá hv. frsm. n. á einu atriði í brtt. hennar. Skv. brtt. n. í heild, þá á 1. tölul. gr. að orðast svo: „75% stofnkostnaður hafnargarða (öldubrjóta), þótt þeir nýtist til viðlegu“ o.s.frv. Hér er ákvæði gerbreytt. Í frv. stóð, að að svo miklu leyti sem hafnargarðarnir nýttust til viðlegu, þá mætti ekki greiða þessi 75%. En í brtt. n. er tekið fram, að það skuli greitt, þó að garðar nýtist til viðlegu. Nú er mér ekki alveg ljóst, hvað n. á við með þessu, að hafnargarðar nýtist til viðlegu. Það er mjög sjaldan, að hafnargarðar séu þannig gerðir, að skip geti lagzt við þá eins og þeir eru. Algenga gerðin á hafnargörðum eða öldubrjótum nú eru grjótgarðar, og þá fer því mjög fjarri, að skip geti lagzt upp að grjótfyllingunni. Ofan á grjótfyllinguna er svo steyptur flötur og skjólgarður að utanverðu, en upp að svona garði getur ekkert skip lagzt. Ekki fyrr en gerður hefur verið bryggjukantur innan á garðinn. Þá fer hann að nýtast til viðlegu. Þessir bryggjukantar hafa oftast verið gerðir úr timbri og reknir niður timburstaurar, en í seinni tíð er farið að gera þá líka sums staðar úr steinsteypu og þá reknir niður steinstólpar. Þýðir þetta ákvæði, að greiða skuli 75% út á þessar bryggjur innan á hafnargörðunum, þar sem garðar, a.m.k. af þessari gerð, nýtast ekki til viðlegu, fyrr en bryggjan er komin? Ef svo væri, þá væri kannske minni ástæða til að samþykkja till. minni hl. á þskj. 516, 2. tölul., — já, kynni að vera minni ástæða til þess, — gæti þó verið nokkur. Þess vegna væri nauðsynlegt að fá þetta skýrt — svo rækilega, að sú skýring haldi.

Ég nefndi það í 1. umr., að síðasta málsgr. 6. gr. væri um það, að hluti ríkissjóðs í kostnaði við hafnargerðir skv. l. þessum greiðist eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum. Þetta er ekki í núgildandi lögum og ég vil spyrja frsm. n., hvers vegna þetta ákvæði hafi verið sett. Úr því að þetta er ekki í gildandi lögum, þá getur tilgangur með þessari málsgrein varla verið annar en sá að skapa eitthvað aukið aðhald að greiðslum ríkissjóðs til hafnarsjóða. En ég spyr aftur, hvað á að felast í þessari málsgrein? Eða hefur það e. t. v. ekki verið athugað?

Ég held, það sé nú ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að taka fram við þessa umr. Ég vil, eins og ég sagði áðan, þakka n. í heild fyrir að hafa tekið verulegt tillit til þeirra ábendinga, sem ég gerði hér við 1. umr., og sérstaklega minni hlutanum, sem hefur tekið þær þó öllu meira til greina. Mér sýnist það alveg ótvírætt, að frv. hafi batnað mjög í meðferð n. og ef menn gæfu sér tíma til þess að ræðast meira við um það, þá kynni það að geta batnað meira. Og enn einu sinni vil ég minna á gildistökutíma l. Ég ætla nú að bíða átekta, sjá hvað gerist við afgreiðslu þessa máls við 2. umr. Ég mun ekki flytja brtt. að þessu sinni, en taka það til athugunar við 3. umr., ef mér sýnist ástæða til. En vegna þess með hverjum hug hefur verið unnið að þessu máli, og að sýnilega hefur verið fyrir hendi samstarfsvilji, þá vildi ég mega vænta þess, að sá samstarfsvilji geti haldið áfram og að menn taki til athugunar enn á ný það, sem ég hef verið að minnast á að mér þætti enn á skorta. En brtt. n. í heild mun ég greiða atkvæði. Ég mun einnig greiða atkvæði með brtt. hv. minni hluta.