14.04.1967
Neðri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

181. mál, hafnalög

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það voru aðeins fáein orð til skýringar á ýmsu því, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. beindi til mín.

Hann ræddi um gildistöku l. og taldi, að réttast væri, að þau tækju gildi nú þegar, en ekki 1. jan. 1968, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég hygg nú, að þetta skipti ekki miklu máli. Ef frv. nær fram að ganga núna, þá verður við undirbúning fjárlaga næsta árs unnið skv. því, enda þótt l. taki ekki gildi fyrr en 1. jan. 1968. En það er að sjálfsögðu meginatriðið, að Alþ. afgreiði frv., þannig að hægt sé að hafa hliðsjón af því við undirbúning næstu fjárlaga, sem venjulega byrjar, að mér skilst, í maímánuði.

Hv. þm. beindi þeirri fyrirspurn til mín, á hverju ég byggði þau ummæli, sem hann taldi mig hafa viðhaft, að frv., ef samþ. yrði, ætti að verða til þess, að ríkissjóður greiddi framlög sín jafnóðum. Ég hygg, að ég hafi ekki notað svona sterkt orðalag um þetta atriði, og það sem ég sagði um það, byggi ég á því, sem fram kemur í grg. frv., á 8. síðu, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá mundi það bæta mjög aðstöðu hafnanna, ef ríkissjóður greiddi sinn hluta kostnaðar jafnóðum og til hans er stofnað. Gerir frv. ráð fyrir, að gerðar séu áætlanir um hafnarframkvæmdir til fjögurra ára og þær lagðar fyrir Alþingi. Yrði þá að ganga út frá því, að fjárveitingum yrði hagað í samræmi við áætlunina, og ætti því ekki að koma til þess, að inneign myndaðist hjá ríkissjóði.“

Þetta er sem sé aðalstefnumiðið, hvað þetta snertir, með áætlunargerðinni. Af ástæðum, sem ég hygg að ég hafi minnzt á í framsöguræðu minni, er varla hægt að gera þessa áætlun fyrir hafnirnar úr garði á sama hátt og t.d. vegaáætlun, af því að fleiri aðilar leggja fram fé til hafnanna heldur en ríkissjóður einn.

Þannig getur áætlunin sem slík naumast haft lagagildi, eins og er í reynd um vegaáætlunina. Áætlunin getur fyrst og fremst orðið til leiðbeiningar, eftir að Alþ. hefur fjallað um hana, eins og frv. gerir ráð fyrir, eða þau höfuðdrög, sem lögð verða með áætluninni. Verður þá að ætla, að í framhaldi af því verði nokkurn veginn a.m.k. farið eftir áætluninni og þá reynt að fylgja þeirri reglu, sem þarna er talað um, að ríkissjóður greiði sinn hluta af framkvæmdunum jafnóðum.

Þá beindi hv. 3. þm. Norðurl. e. til mín fyrirspurn varðandi orðalag í 1. tölul. 6. gr., þar sem sjútvn. hefur í raun og veru í till. sinni snúið við því orðalagi, sem er í frv. Ég skal nú játa að það getur vel verið, að með þessu orðalagi, sem n. leggur til, sé þarna ekki nægilega skýrt fram tekið, hvað fyrir okkur vakir, en þó hygg ég, að þetta geti varla valdið erfiðleikum í framkvæmd. Eins og hv. 3, þm. gat réttilega um, eru sumir hafnargarðar þannig byggðir; að ekki er hægt að hafa neitt viðlegupláss við þá., og þá er ótvírætt, að til slíkra hafnargarða greiðir ríkið 75%. Aðrir hafnargarðar eru aftur á móti. þannig, að e. t. v. er grjóti hlaðið utan við þá, en innan á þeim er annaðhvort stálþil eða trébryggja. Þá hygg ég, að í þeim tilfellum, þar sem um er að ræða stálþil — eða steinsteypta veggi, eins og verið getur í sumum tilfellum, — þá yrði það talinn óaðskiljanlegur hluti af öldubrjótnum eða varnargarðinum og þau mannvirki talin fullkomlega styrkhæf. Aftur á móti mundi varla vera hægt að mínu áliti að telja trébryggjur, sem byggðar væru innan á slíkum garði, styrkhæfar til 75% framlags, því auðvitað mætti þá halda áfram í það óendanlega. Maður gæti þá hugsað sér að byggja slíkar bryggjur þannig, að þær væru í einhverjum tengslum við garðinn, hvort sem þörf væri á þeim í sambandi við það mannvirki sem slíkt eða ekki.

Í sambandi við þessa sömu grein var spurt, hvernig stæði á síðustu málsgr. hennar: „Hluti ríkissjóðs í kostnaði við hafnargerðir skv. l. þessum greiðist eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum“. Ég skal játa, að við ræddum þetta ekki sérstaklega í sjútvn., og má vera, að þetta sé raunar óþarft. Það leiðir nokkurn veginn af sjálfu sér, að ekki er hægt að greiða hluta ríkissjóðs til hafnarframkvæmda, frekar en til annarra framkvæmda, fyrr en fé hefur verið veitt til þeirra í fjárlögunum. En í 7. tölul. 5. gr. er líka ákvæði, sem e. t. v. gerir þennan málsl. í 6. gr. óþarfan, því að þar er tekið fram, að sem skilyrði fyrir greiðslu kostnaðarhluta ríkissjóðs og fyrir ábyrgð ríkissjóðs á láni þurfi að hafa verið byrjað að veita fé til hafnargerðarinnar á fjárlögum, áður en hún er hafin. Þetta ákvæði í 5. gr. mun eiga rætur að rekja til frv. þess, sem atvinnutækjan. samdi á sínum tíma, og sú n. mun hafa sett þetta ákvæði í stað þeirrar upptalningar, sem var í eldri hafnalögum á nöfnum þeirra staða, sem skyldu njóta styrks til hafnargerðar.

Eitt af veigameiri atriðum, sem hv. minni hl. hefur ekki fengið fram í sambandi við þær breyt., sem sjútvn. hefur gert á frv., er tillaga um sjálfskuldarábyrgð í stað einfaldrar ábyrgðar. Um þetta vildi ég aðeins segja, að þó að við gerum ráð fyrir einfaldri ábyrgð í frv., eins og það liggur fyrir, og eins og meiri hl. sjútvn. vill afgreiða það, þá hygg ég a,ð það muni ekki valda hafnarsjóðunum neinum örðugleikum. Meðan ekki hafa verið um þetta önnur ákvæði í gildi en þau, sem nú eru í l. um ríkisábyrgðasjóð, er mér kunnugt um, að í sambandi við lántökur hjá atvinnuleysistryggingasjóði eða Tryggingastofnun ríkisins hefur komið til nokkurra árekstra við ríkisábyrgðasjóð út af þessu, en þetta mun nú hafa verið leyst á þann veg, að ríkisábyrgðasjóður skrifar upp á lánsskjöl frá Tryggingastofnuninni eða atvinnuleysistryggingasjóðnum sem um venjulega einfalda ábyrgð væri að ræða, en með viðbótarklásúlu þó, sem í raun og veru mun jafngilda sjálfskuldarábyrgð. Þannig hefur þetta upp á síðkastið verið í framkvæmd, og ég hygg, að þótt þarna sé gert ráð fyrir einfaldri ábyrgð í frv., þá komi það ekki að sök, ef áfram verður fylgt þessari reglu, sem fjmrn. og þessar sjóðstjórnir hafa komið sér saman um. Sýnir þetta, að það er ekki alveg eins fast haldið á „princípunum“ í fjmrn., eins og hv. 3. þm. Norðurl. e. vildi vera láta.

Þar með hygg ég, að ég hafi svarað flestum athugasemdum hv. 3. þm. Norðurl. e., a.m.k. þeim, sem mestu máli skipta.