17.04.1967
Efri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

181. mál, hafnalög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það til nýrra hafnalaga, sem hér er nú til 1. umr., hefur verið afgr. frá hæstv. Nd. með nokkrum breyt., sem samkomulag varð þar um, en auk þess voru fram bornar nokkrar fleiri brtt. við frv., sem ekki náðu fram að ganga.

Það var einróma álit manna, sem ræddu málið í Nd., að hér væri um verulegar bætur að ræða frá gildandi 1., þó að mönnum sýndist, að ýmislegt mætti vera með öðrum hætti.

Það er rétt, að aðdragandi þessa máls hefur verið alllangur, þó að meðferðartími Alþ. sé mjög takmarkaður, en reynt var af ráðuneytisins hálfu að koma því þannig fyrir, að hv. alþm. gæfist þó tóm til þess í hluta af páskaleyfinu að yfirfara frv. og það sent sem handrit og trúnaðarmál til allra alþm. 5 dögum fyrir samkomudag Alþ. eftir páskaleyfið.

Ég vil nú ekki, vegna þess hvað miklar opinberar umr. hafa orðið um málið undir meðferð þess nú á Alþ. og í dagblöðum, teygja lopann með því að upphefja hér langa framsöguræðu um málið. Höfuðatriði frv. eða höfuðbreytingar frá gildandi l. eru einkum þær, að gert er ráð fyrir, að ytri hafnargarðar, sem mynda hafnirnar, fái verulega aukna aðstoð ríkisins, eða úr 40% í 75%, eins og gert er ráð fyrir hér, en innri bygging hafnanna verði áfram bundin við 40%. Þetta kemur sér sérstaklega vel fyrir þær hafnir, sem erfiðast hafa átt uppdráttar og vonlausastar hafa verið með að geta staðið undir eigin fjárhagsafkomu. Þá eru enn fremur gerðar breyt. á tekjuöflun til hafnabótasjóðs, og í 18. gr. frv. er gert ráð fyrir, eftir því sem mér skildist á umr., þó að kannske nokkuð annað mætti ráða hér af orðalagi 19. gr. frv., að fjvn. Alþ. verði til ráðuneytis og hafi ákvörðunarrétt um 3. tölul. þeirrar gr., þ. e. að sjóðnum sé heimilt að styrkja hafnarsjóði, sem eiga við sérstaka fjárhagsörðugleika að stríða, vegna erfiðrar aðstöðu og dýrrar mannvirkjagerðar. Við umr. í Nd. var lögð á það mikil áherzla af mörgum hv. alþm., að framkvæmd þessa liðar yrði í samráði og samstarfi við fjvn. eða með samþ. hennar. Aðrar smærri breyt., sem á frv. voru gerðar, skýra sig það vel sjálfar, að ég tel óþarft að rekja það efni öllu frekar.

Á síðasta stigi málsins í Nd. kom fram ósk um það, að í stað gildistöku laganna 1. jan. 1968, eins og í frv. er, verði gildistökutímanum breytt þannig, að l. öðlist þegar gildi. Ástæðan til þess, að þessi gildistími var ákveðinn af þeirri n., sem unnið hefur að málinu og að miklu leyti vann á svipuðum nótum, ef svo má segja, og atvinnutækjanefnd hafði áður unnið að undirbúningi hliðstæðs frv., er sú, að hér er gert ráð fyrir allverulega hækkuðu ríkisframlagi til hafna, þannig að eðlilegt þykir, að þetta liggi fyrir áður en hafin er samning fjárlaga, enda í ýmsum atriðum nauðsynlegt, að nokkur aðdragandi sé að þeim breyttu vinnubrögðum, sem frv. gerir ráð fyrir. Með hliðsjón af því, að sjútvn. beggja d. hafa haft samstarf um undirbúning málsins og að í samráði við n. hafa verið gerðar þær breyt., sem á frv. hafa verið gerðar, tel ég ekki ástæðu til að hafa þessi orð mín fleiri, nema sérstakt tilefni gefist til og vona, að við getum orðið sammála um, að hér sé um svo umtalsverðar breytingar að ræða, að nauðsynlegt sé, að frv. nái fram að ganga og afgr. málsins í n. verði hraðað svo sem kostur er, þar sem svo skammt er eftir af þingtímanum, sem ætla verður nú, á hvern veg, sem þau mál kunna að skipast. En ég legg sem sagt áherzlu á það, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Ýmsum fleiri atriðum teldu menn e. t. v. þurfa að breyta, og er það opið síðar, en a.m.k. með tilliti til fjárlaga er nauðsynlegt að frv. nái fram að ganga nú. Eins kynnu ýmsar hafnir að vilja haga framkvæmdum sínum nokkuð á annan veg, ef frv. yrði samþ. núna, en þær hafa gert og mundu gera, ef óbreytt starfsskilyrði yrðu fyrir þær. Það hefur þegar komið fram, að tvær eða þrjár hafnir úti á landi óski eftir að fresta vissum hluta af sínum framkvæmdum og leggja áherzlu á annað með hliðsjón af gildistöku þessara laga. Einnig þarf vita- og hafnamálastjórnin, sem falið er hér aukið verkefni, að hafa nokkurn aðdraganda til að mæta þeim skyldum, sem á herðar hennar hafa verið lagðar. Herra forseti, ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.