18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

181. mál, hafnalög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þetta er nú eitt af þeim frv. hæstv. ríkisstj., sem hefur orðið helzt til síðbúið, og þess vegna er það nú, að þinginu hefur gefizt heldur naumur tími til þess að athuga þetta mál. Og er þó ljóst af því, sem þegar hefur gerzt í málinu, að þess hefði ekki verið vanþörf, að þingið hefði fengið ríkulegan tíma til þess að athuga þetta mál, því að auðvitað er þetta stórmál og það snertir líka mjög marga aðila víðs vegar um landið. En það sýnir sig einmitt og kom glöggt í ljós af því, sem hv. frsm. sagði, að í meðförum Alþ., þó að það hefði nú ekki gefizt meiri tími heldur en raun ber vitni til þess að fjalla um málið, — hafa verið gerðar mjög stórkostlegar og víðtækar breyt. á málinu. Ég er sammála hv. frsm. um það, að þær breyt. eru til bóta. Þær breyt. eru til stórbóta, því að eins og frv. var lagt fram, var það að öllu leyti óaðgengilegt. T. d. það ákvæði frv., sem hann einnig minntist á, að svo var ákveðið, að hlutur ríkissjóðs skyldi vera „allt að“ en ekki neitt kveðið á um skyldur ríkisins til framlaga, þannig að það mátti í raun og veru segja, að lögboðin skylda ríkisins til þátttöku í hafnargerðum væri brottnumin og færi eftir ákvörðun hverju sinni. Þessu hefur verið breytt og það álít ég til stórbóta. Sömuleiðis var sú breyt. sem gerð var á frv. í hv. Nd., að fella niður hinn nýja skatt, sem fólst í þessu frv., vitaskuld til bóta, því að skattarnir eru nógu margir fyrir og ekki ástæða til að bæta einum við. Það er miklu þægilegri aðferð að innheimta skattana með færri sköttum heldur en nú er gert, kemur oftast nær í einn stað niður fyrir fólkið. Þetta er til bóta. Ég hefði fyrir mitt leyti talið æskilegra, að það hefði verið sett sérstök stjórn yfir hafnabótasjóð og hefði það verið í samræmi við það, sem venjulegt er um þvílíka sjóði. Það hefur nú ekki verið gert, en hins vegar fékkst sú breyting á í hv. Nd., að þar var mælt svo fyrir með þeirri breyt., sem gerð var á 19. gr., að fé hafnabótasjóðs megi ekki ráðstafa nema að fengnu samþykki fjvn. Alþ. Það liggur þannig alveg ljóst fyrir, að fjvn. Alþ. er í raun og veru sett upp sem stjórn þessa sjóðs og út af fyrir sig er það gott og gilt, nema hvað sá augljósi galli er á því, að fjvn. er ekki alltaf við látin og til staðar og að starfi og þess vegna hefði út af fyrir sig verið eðlilegra að mínum dómi, að það hefði verið sett sérstök stjórn fyrir sjóðinn, vegna þess að það er alveg ótvírætt eftir orðanna hljóðan á grein þessari — að samþykki fjvn. Alþ. er nauðsynlegt til hvers konar ráðstafana og fjárveitinga úr hafnabótasjóði. Ýmsar fleiri breyt. voru gerðar á frv. í Nd. þó að ég ræði þær ekki sérstaklega hér. Þær eru til bóta að mínum dómi.

Ástandið í hafnamálum er mjög bágborið. Það þarf ekki að rekja, að hafnirnar eru nauðsynlegustu mannvirki, sem hér á landi fyrir finnast. Víðast hvar er fjárhagur þeirra þannig, að þær eru allsendis ófærar um að standa undir nauðsynlegum hafnarbyggingarkostnaði. Þess vegna er þörf á því, að ríkið hlaupi hér meira undir bagga en gert hefur verið. Með þessum hafnalögum er að mínum dómi stigið spor í þá átt og þess vegna er ég fylgjandi þessu frv. En ég álít, að það hefði ekki komið að sök að athuga sumt nokkuð betur í þessu frv. og ég held, að það hafi verið alveg réttmæt ábending, sem kom fram af hálfu framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, að það hefði verið æskilegt, að svona mál sem þetta hefði verið sent til umsagnar sveitarfélögum. En til þess vinnst ekki tími, segir hæstv. ríkisstj. L. þarf að samþykkja nú. Það er annars athyglisvert og er ástæða til að vekja á því athygli, að löngum hefur sá háttur verið á hafður, þegar um viðamikla lagabálka er að ræða, að þeir hafa verið lagðir fram á þingi til athugunar og skoðunar, en ekki til þess ætlazt, að þeir væru afgreiddir á því sama þingi, heldur einmitt frestað á milli þinga, þannig að það gefist kostur á því að athuga málið hér og ræða það nánar. En þessi háttur er lítt í hávegum hafður nú. Nú er hvert stórmálið á fætur öðru lagt fram á síðustu dögum þingsins og lögð áherzla á að knýja þau fram, enda þótt þar sé um mál að ræða eins og orkulög, eins og hafnalög, eins og skólakostnaðarlög, allt lög, sem snerta menn mjög víðs vegar um land og snerta marga aðila og sem væri fyllsta ástæða til þess að leggja undir umsögn þeirra aðila, sem þessi mál snerta. En þetta er ekki hægt, segir hæstv. ríkisstj. Þetta er ekki hægt um þetta mál, það verður að samþykkjast strax. Gott og vel, við skulum samþykkja þetta mál strax, það er svo margt í því til bóta, enda þótt það komi sjálfsagt í ljós við frekari athugun á málinu, að sumu í því þurfi að breyta. En það á að gera það seinna. En ef það er þörf á því að samþykkja þetta nú, er sjálfsagt að láta það koma strax í gildi, láta l. öðlast strax gildi. En þetta frv., sem lögð er áherzla á að afgreiða nú þegar á þessu þingi, þó að stuttur tími gefist til athugunar, er þannig úr garði gert, að lögin eiga ekki að öðlast gildi fyrr en 1. janúar 1968.

Ég held, að ef l. eiga ekki að öðlast gildi fyrr en 1. janúar 1968, sé með öllu skaðlaust að fresta afgreiðslu frv. og samþykkt til næsta þings, til haustþingsins, því að þá liggur ekkert á. En eins og ég hef þegar sagt, lít ég svo á, þrátt fyrir vissa annmarka, sem enn felast í þessu frv. og ýmis atriði, sem að mínum dómi eru ekki nægilega skoðuð, sé þó að sumu leyti stigið spor fram á við og úr því að lögð er áherzla á að stíga það nú strax, vil ég fyrir mitt leyti ekki standa því í vegi, en þá er, eins og ég sagði, æskilegt og sjálfsagt að láta l. öðlast gildi strax, og þess vegna hef ég ásamt hv. 6. þm. Sunnl. leyft mér að flytja brtt. við 28. gr., að sú grein orðist þannig: „Lög þessi öðlast þegar gildi“, í stað þess að l. er ekki ætlað að öðlast gildi fyrr en 1. janúar 1968. Við hefðum í sjálfu sér kosið að gera fleiri brtt. við þetta frv., en það gefst ekki mikið ráðrúm til þess og við getum út af fyrir sig fallizt á það, að málið sé nú afgreitt eins og það er þó orðið með þeim stórfelldu breyt., sem það hefur tekið í Nd., en við teljum rétt, að það sjáist, hver alvara býr að baki með það að fá þetta samþ. nú og teljum sjálfsagt að breyta þessu á þá lund, sem felst í okkar brtt., að l. öðlist þegar gildi. Ég fæ ekki skilið, hvað hæstv. ríkisstj. og meiri hl. getur haft á móti þeirri brtt. Svo sjálfsögð er hún. Ef þessum l. er ætlað að fara að verka verulega á næsta ári, er auðvitað nauðsynlegt að taka tillit til þeirra við undirbúning fjárl. á þessu ári. En eigi að miða gildistöku þeirra við 1. janúar 1968, vekur það a.m.k. vissa tortryggni um það, að það eigi ekki að taka tillit til þess fjárframlags úr ríkissjóði, sem þessi lög gera ráð fyrir, við gerð fjárl. fyrir 1968, því að vitanlega verða þau fjárlög undirbúin og afgreidd, ef allt er með felldu, á þessu ári, og þegar það skeður, verða þessi hafnalög samkv. fyrirmælum nú í 28. gr. ekki komin í gildi. Og það er a.m.k. hægt að hugsa sér það, að einhver vildi þá líta svo á, að það þyrfti ekki við gerð fjárl. að taka tillit til þeirra 1., sem þá væru ekki enn komin í gildi. Það er a.m.k. í öllu falli réttara að taka af öll tvímæli um þetta. Við flytjum sem sagt ekki nema þessa einu brtt. Það er af mikilli hógværð gert og ég vænti þess, að þegar við förum svo hógværlega í sakirnar, geti meiri hl. fallizt á þessa litlu og saklausu brtt. okkar, sem er svo rökrétt sem verða má í framhaldi af því, að lögð er áherzla á að afgreiða málið nú á þessu þingi. Því að það sjá allir, að til þess er engin ástæða, ef l. er ekki ætlað að öðlast gildi fyrr en 1. janúar 1968. Þá er hægt að verða við óskum t.d. Sambands ísl. sveitarfélaga og fresta málinu og gefa kost á að ræða um það. Eins og ég sagði áðan, eru það viss atriði, sem við í sjálfu sér hefðum nú gjarnan viljað gera brtt. við, en sleppum. Þ. á m. bendi ég á ákvæði til bráðabirgða, þar sem stendur, að fyrsta fjögurra ára áætlunin um hafnarframkvæmdir skuli lögð fyrir reglulegt Alþ. haustið 1968 fyrir tímabilið 1969–1972. Ég fyrir mitt leyti hefði talið heppilegra, að þessu hefði verið fylgt eftir með öllu meiri hraða og það hefði verið ákveðið í þessu bráðabirgðaákvæði, að fyrsta áætlunin skyldi lögð fyrir Alþ. í haust og fjögurra ára áætlunin skyldi miðuð við 1968–1971, þannig að áætlunin gæti nú fallið saman við kjörtímabil. En af einhverjum ástæðum er nú þessu farið svo sem raun ber vitni, en við það höfum við ekki gert brtt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að tala frekar um mál þetta almennt, enda þótt til þess væri fyllsta ástæða, því að hér er vissulega um stórmál að tefla, sem ástæða væri fyrir Alþ. að verja ríkari tíma til heldur en það hefur átt kost á nú og því miður er það nú oft svo, að það er nokkuð misskipt. Það er kannske varið öllu meiri tíma til þess að fjalla um mál, sem eru minni háttar heldur en þvílík stórmál, sem við höfum verið að fjalla um og erum að fjalla um nú á síðasta eða næst síðasta degi þingsins.