18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

181. mál, hafnalög

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Þetta atriði, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði hér að umtalsefni og sem hann flytur till. um, þ. e. gildistaka 1., var rætt í n. Meiri hl. n. sá ekki ástæðu til þess að breyta þessu ákvæði. Hvort tveggja er, að það er liðið á þingið og stuttur tími til þess að láta mál ganga á milli d. og hins vegar, ef að því hefði verið horfið að breyta þessu, hefði verið nauðsynlegt að breyta öðru um leið og það er, hvenær gildistaka framkvæmdanna ætti sér stað, því að við sjáum það, að á yfirstandandi ári er ekki um neitt fjármagn að ræða til að mæta þeim auknu skuldbindingum, sem ríkissjóður tekur á sig með þessum l. og þess vegna hefði að mínu mati verið nauðsynlegt, að eitthvert slíkt ákvæði kæmi inn í l. jafnhliða. Ég sé ekki, að það skipti máli út af fyrir sig, þar sem l. er ekki ætlað að koma til framkvæmda með aukna styrki til hafnabygginga víðs vegar um landið fyrr heldur en eftir næstu áramót, þótt þau taki ekki fyrr gildi. Hitt er svo annað mál, að í sambandi við að byggja upp fjárlög fyrir næsta ár verður ekki horft fram hjá því, að ríkissjóður er búinn að taka á sig ákveðnar skuldbindingar, sem felast í þessum 1., og verður því að taka tillit til þess, þegar fjárlög verða samin í sumar. Það má segja, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði áðan, að það væri nægur tími til þess að afgreiða þetta mál, þegar þing kæmi saman í haust til þess að ganga frá fjárl., en við vitum það af fyrri reynslu, að rammi fjárl. er nokkuð takmarkaður hverju sinni og ég tel, að hér sé um það stórar upphæðir að ræða til viðbótar því, sem áður var í fjárlögum til þessara mála, að það sé nauðsynlegt, að það liggi fyrir, þegar við uppbyggingu fjárl.

Það skiptir miklu máli líka að mínum dómi, að eftir að 1. eru samþ., enda þótt þau taki ekki gildi fyrr en eftir næstu áramót, geta sveitarfélögin þegar farið að miða sínar áætlanir fram í tímann við það, sem þessi lög fela í sér, og eins og síðasti hv. ræðumaður tók fram, er hér vissulega um mjög veigamiklar breyt. að ræða til bóta fyrir þá, sem hér eiga hlut að máli.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, vildi aðeins láta það koma fram, að þetta atriði var rætt í n., en meiri hl. n. sá ekki ástæðu til þess að fylgja þessari brtt.