14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

198. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst eðlilegt, að samtök útvegsmanna og sjómanna fái fulltrúa í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, eins og þeim málum nú er háttað, og það er aðalefni þess frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil sem sagt mæla með því, að sá háttur verði upp tekinn. En ég vil taka fram, að maður áttar sig ekki rétt vel á því í fljótu bragði, hvernig heppilegast er að koma fyrir tilnefningu fyrir sjómenn. Þarna er gert ráð fyrir því, að þrír aðilar tilnefni, og ef þeir koma sér ekki saman, þá tilnefni ráðh. Mér finnst það þurfi að athuga þetta og þá sérstaklega í samráði við þau nýju samtök, sem hafa verið sett á fót og munu bera nafnið „Félag síldveiðisjómanna“. Mér finnst þurfi að athuga sérstaklega: Í fyrsta lagi, hvort þetta ákvæði, sem hér er í frv., gæti orðið til þess, að sjómenn misstu af sínum fulltrúa og málið færðist í hendur ráðh. Í öðru lagi, hvort þetta, sem, hér er stungið upp á, er í samræmi við óskir hins nýja félags, og hvort það kæmi til greina, að þetta nýja félag annaðist þetta.

Ég vil beina því til hv. n., sem fjallar um þetta, að kynna sér þessi atriði og grennslast eftir því, hvernig horfur eru á því, að sjómenn fái þarna raunverulega fulltrúa, valdið færist ekki úr þeirra höndum. Það verði réttir aðilar, sem að þessu standa. En ég mæli með meginefni frv., þ.e.a.s. því, að fulltrúar verði í stjórninni bæði frá útvegsmönnum og sjómönnum.