14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

198. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hér hefur verið sagt, að ég tel ekki óeðlilegt, að bæði útvegsmenn og sjómenn fái beina aðild að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, og ég set mig ekki upp á móti því, en ég tel, að sá háttur, sem gert er ráð fyrir að hafa á með tilnefningu fulltrúa frá þessum aðilum, sé mjög óeðlilegur. Það var að vísu gert ráð fyrir því, að L.Í.Ú. tilnefni fulltrúa f.h. útgerðarmanna og það verður ekki fundinn þar annar aðili, sem er eðlilegri, en fulltrúi síldveiðisjómanna á að tilnefnast af Alþýðusambandi Ísl., Farmanna- og fiskimannasambandi Ísl. og Sjómannasambandi Ísl. Í fyrsta lagi þá er það nú svo, að það er vitanlega engin vissa fyrir því, að þessir þrír aðilar komi sér yfirleitt saman um það að tilnefna einn mann, og eru eins miklar líkur til þess, eins og þessi samtök eru saman sett, að þau komi sér ekki saman og þá sé þarna beinlínis verið að gera ráð fyrir því, að ráðh. geti fengið leyfi til að sækja þarna einn viðbótarmann. Ég er á móti slíku fyrir mitt leyti. Og enn þá óeðlilegra finnst mér þetta vera, þegar þess er gætt, að síldveiðisjómenn hafa einmitt stofnað með sér samtök, mjög fjölmenn samtök, og í þeim samtökum eru bæði yfir- og undirmenn og þeir einir, sem stunda einmitt síldveiðarnar og eiga hér beina hagsmuni að. Þessi samtök hafa samþykkt á mjög fjölmennum fundi að óska eftir því að fá aðild að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. En hér er hins vegar gert ráð fyrir því, að Alþýðusamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandið, og Sjómannasamband Íslands, tilnefni fulltrúa sjómanna, en í þessum samtökum eru auðvitað fjölmargir aðrir aðilar, sem hafa hér litla eða enga hagsmunaaðild að, auk þess sem mjög erfitt er að búast við fullu samkomulagi þeirra á milli. Mér er að vísu sagt, að það muni vera samkomulag um tilnefningu manns að þessu sinni, en það réttlætir í rauninni ekki það fyrirkomulag, sem hér er verið að gera ráð fyrir. Ég tel fyrirkomulagið óeðlilegt og alveg greinilega móðgun við þau samtök, sem nýlega hafa verið stofnuð og gert hafa mjög ákveðna og skýra samþykkt um það að fá beina aðild að þessu, að tilnefna fulltrúa í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Ég hefði því miklu frekar kosið, að þeir aðilar, sem hér eiga alveg beina aðild að og eru einir sér í samtökum, fengju þennan rétt, en það sé ekki verið að koma hér á tilnefningu þriggja aðila, sem ég fyrir mitt leyti efast mjög um, að yfirleitt mundu koma sér saman um það að tilnefna mann í þessa stjórn, þó það kunni svo sem að henda, að slíkt verði.

Þetta mál verður að sjálfsögðu athugað nánar í þeirri n., sem á að fjalla um það, og þó að ég telji, að þessi leið hefði verið langeðlilegust, að það hefði verið Félag síldveiðisjómanna, sem hefði fengið þennan rétt, þá kann að finnast einhver leið til þess að ná, hér fram því, sem er aðalatriði þessa máls. Og skal ég svo ekki ræða það frekar á þessu stigi.