14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

198. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. hefur gert grein fyrir þessu frv. og þarf engu við það að bæta. Hins vegar skal ég upplýsa það út af ræðum tveggja þm., sem nú hafa talað, að Alþýðusambandinu var send till. sú, sem tilgreind er hér í grg., og segir þar, að á fjölmennum fundi síldarsjómanna, sem haldinn var í nóv. s.l. á Reyðarfirði, var samþ. að óska eftir því, að samtök sjómanna og útvegsmanna fái aðild að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Þessi samþykkt, sem þarna er um rætt, barst Alþýðusambandinu og sá, sem þá till. flutti Alþýðusambandinu, var Páll Guðmundsson, formaður samtaka síldarsjómanna, og óskaði eftir því, að aðildin yrði á þennan veg og þegar það dróst nokkuð, að þetta yrði afgreitt hjá þessum þrennum samtökum, þá man ég eftir því, að Páll Guðmundsson átti einmitt við mig viðtal í síma til þess að herða á því og láta í ljós áhuga sinn á því, að þetta fengist afgreitt, svo að það næði afgreiðslu á því Alþ., sem nú starfar, og var þá málið þegar í stað, einmitt að hans ósk, afgreitt frá Alþýðusambandinu. Hins vegar skal ég taka það fram, að mér hefði ekki þótt óeðlilegt, að aðildin að þessum tveimur viðbótarmönnum í stjórn síldarverksmiðjanna hefði verið frá L.Í.Ú. og t.d. Alþýðusambandinu. En núna eru menn held ég sammála um það, að þetta mál er einmitt tekið upp af síldarsjómönnum og gerð samþykkt um það á þeim sama fundi, sem þeir stofnuðu sín samtök á og ýtt á málið við þessi þrenn samtök af þeirra hendi, og þá fyndist okkur ekki óeðlilegt að kjósa forustumann þessara samtaka sameiginlega sem fulltrúa í síldarverksmiðjustjórnina, því að það eru þó síldarsjómennirnir einir, sem þarna eru að fara fram á að fá áhrif á sín hagsmunamál hjá verksmiðjunum.

Ég held því, að frv. sé að öllu leyti flutt af hæstv. ríkisstj. einmitt eins og samtökin, sem hér eru nefnd og eiga að fara með sameiginlega aðild, hafa komið sér saman um, að beiðni samtaka síldarsjómanna. Við tókum ekki málið upp.