14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

198. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður Hv. 5. þm. Vestf. hefur skýrt og skilmerkilega rakið aðdraganda þessa máls, en ástæðan til þess að ég stóð upp var sú, að ég vil að það komi fram hér af minni hálfu, að það var alls ekki meiningin að móðga ein eða nein samtök með flutningi þessa frv. Það er flutt að ósk þeirra samtaka, sem ég nefndi í mínum framsöguorðum, og það er einungis til að verða við þeim óskum, sem frv. er lagt fram hér nú. Og ég er á þveröfugri skoðun við hv. 5. þm. Austf., þegar hann taldi litlar líkur á, að þessi þrenn samtök kæmu sér saman um einn fulltrúa.

Ég verð að telja alveg það gagnstæða, að það séu langtum meiri líkur til að þau komi sér saman þar sem þau hafa komið sér saman um að gera þessa sameiginlegu ósk eða kröfu, og þó að sú krafa sé komin frá fjórðu samtökunum, sem eru samtök síldarsjómanna, þá ætti það enn þá að styðja að því, að þessi samtök óskuðu eftir þessari aðild og kæmu sér saman um sameiginlegan fulltrúa. Ég hygg, að forustumenn þessara samtaka hefðu ekki undirritað þessa áskorun til ráðuneytis síns, ef þeir hefðu ekki séð möguleika á því, að samstarfsgrundvöllur næðist um þá fulltrúaskipan, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég lýk þessu svo með ósk um það, að n. starfi fljótt og vel og hafi samráð um málið við samstarfsnefnd sína í Ed., svo að kanna megi sem allra fyrst, hvort möguleikar eru á allsherjar samkomulagi um framgang málsins.