15.04.1967
Neðri deild: 70. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

198. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað þetta frv., sem hér liggur fyrir, og mælir með því, að það verði samþ., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Eftir að við gengum frá nál. okkar í morgun, kom í ljós, að ástæða þótti til að gera smávegis breyt. á frv., og vil ég þess vegna leyfa mér að bera fram skriflega brtt. og fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir henni. Um þessa brtt. hef ég haft samráð við meðnm. mína í sjútvn. og eru þeir henni samþykkir. Í síðasta málsl. 1. gr. frv., eins og það er nú, stendur:

„Umboð núverandi stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins fellur niður 15. maí 1967“.

Nefndin hefur athugað það, að núverandi stjórn síldarverksmiðjanna er kjörin til ársloka 1967, og henni þykir þess vegna fara betur á því, að núverandi stjórn haldi umboði sínu út kjörtímabilið, en þeir tveir stjórnarmenn, sem ráðh. á að tilnefna samkv. 1. gr. frv., verði í fyrsta sinn skipaðir til sama tíma og þeir, sem fyrir eru í stjórninni. Þess vegna leyfi ég mér að flytja fyrir hönd sjútvn. brtt. við 1. gr. frv. á þá leið, að síðasti málsl. falli burt, og á eftir 2. gr. komi svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

„Núverandi stjórnarmenn halda umboði sínu til loka kjörtímabils síns. Þeir tveir stjórnarmenn, sem ráðh. skipar, skulu í fyrsta sinn skipaðir til sama tíma“.

Ég leyfi mér svo fyrir hönd sjútvn. að mæla með því, að frv. verði samþ. með þessari breytingu.