14.04.1967
Neðri deild: 68. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

159. mál, skólakostnaður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það má segja, að þetta mál sé sótt með miklu ofurkappi, eins og raunar ýmis fleiri mál um þessar mundir, og er það mikið tjón, hvernig tekizt hefur með undirbúning mála fyrir þetta hv. Alþ., því að það er dembt hér inn hverju málinu á fætur öðru, þótt hugsunin sé að ljúka Alþ. eftir örfáa daga. Verður þetta til þess, að hv. alþm. geta ekki kynnt sér málin og komast tæplega yfir að lesa frv. ásamt grg., hvað þá brjóta til mergjar, hvað í þeim er. Þannig er það um sjálfan mig og mér er kunnugt, að þannig er þetta um mjög marga aðra, bæði í stjórnarandstöðuliði og liði stjórnarinnar. Þetta er meingallað og þyrfti í raun og veru, eins og nú er komið, að íhuga vandlega, hvort ekki kæmi til greina að fresta einhverjum af þessum lagabálkum, sem verið er að reyna að hespa í gegn með þessu móti, þegar af þessum ástæðum, sem ég hef greint, eða þá að athuga, hvort ekki væri hægt að eyða þeim ágreiningi, sem er um ýmis einstök atriði málanna og menn hafa komið auga á.

Vísa ég þar m.a. til þess, sem hér hefur komið fram af hendi hv. minni hl. um þetta skólakostnaðarmál. Í því eru ýmis atriði, sem allir virðast vera vel ásáttir um, en aftur önnur, sem eru talsvert mikil ágreiningsefni og nálega er ómögulegt að fjalla um sómasamlega á þeim tíma, sem gefst. Og sumt í þessu er áreiðanlega óljóst enn þá, jafnvel þeim, sem fengizt hafa við þetta í n., hvað þá öðrum, sem ekki hafa komið að þessu jafnmikið og nefndarmennirnir.

Nú er sá galli á, vegna þess hvílíkt ofurkapp er sýnt í þessu, að t.d. er verið að lemjast um í þessu máli, þótt hæstv. menntmrh. sé ekki viðstaddur, telji sig ekki geta verið viðstaddan. Samt sem áður er haldið áfram með þetta mál í kvöld, og verður það t.d. til þess, að hæstv. menntmrh. getur ekki hlustað á, hvað menn hafa hér til málanna að leggja. M. a. er þannig ástatt fyrir mér, að ég ætlaði að vekja athygli hæstv. ráðh. á sérstöku atriði í þessu máli, en fæ því nú ekki fram komið á þessu kvöldi, og því alls ekki, að því er mér skilst, ef ekki verður breytt um starfsaðferðir.

Þetta er auðvitað ákaflega slæmt, og ég er að hugsa um að grípa til þess neyðarúrræðis að biðja fyrir skilaboð til hæstv. ráðh. í þessu sambandi. Það er nú víst ekki hægt að koma því við að skrifa honum, enda geri ég nú ekki ráð fyrir því, að það sé nú svo langt komið þessum málum enn þá, hvað sem kann að verða með sama áframhaldi, að ekki sé hægt að hafa samband við hátignirnar, nema skriflega, þ.e.a.s. ráðh.!! Það má vera, að það stefni óðfluga í þá átt, að þeir telji það sér sæmst að mæta alls ekki á Alþ., heldur senda því orðsendingar eins og sums staðar gerist í öðrum löndum, þar sem nokkuð annað stjórnskipulag ríkir en hér á að vera, en þar eru bréfagerðir á milli þingmanna og ráðh., en við eigum ekki að venjast því hér. Og það er ekki okkar stjórnskipan að hafa það þannig. Nú vildi ég mjög biðja þá, sem hér eru úr ríkisstj. (ég held, að það sé ekki nema einn hæstv. ráðh. viðstaddur) og eins þá menn, sem hafa þetta mál með höndum sérstaklega úr stjórnarliðinu, að hafa nú samband við hæstv. menntmrh. og vita, hvort hann, ásamt þeim vill ekki ganga í að reyna að leita samkomulags um þetta mál og eyða a.m.k. einhverju af þeim ágreiningi, sem um málið er.

Mér þykir ekkert ólíklegt, að ýmsir hv. þm. stjórnarinnar hafi áhuga fyrir því að láta athuga einstök atriði í þessu betur, og ég vil beina því til þeirra að athuga það nú í kvöld, því að það fer að verða hver síðastur í því efni og hafa samband við ráðh., hvort ekki mætti taka eina sáttalotu á vegum hv. menntmn., t.d. á milli 2. og 3. umr., og sjá, hvort ekki væri hægt að eyða einhverju af þessum ágreiningi. Þetta var nú annað erindi, sem ég átti hingað upp í stól þennan, að benda á þetta og fara fram á þetta í allri vinsemd, að þetta verði athugað. Tel ég, að þetta mundi geta orðið í þágu málsins og þágu margra.

Hitt erindið var það að taka undir með hv. frsm. minni hl. um þau ákvæði, sem lúta að héraðsskólum. Mér finnst það ekki vera skynsamlegt að fara nú að breyta til frá því, sem búið var að ákveða, og leggja kostnað við héraðsskólana, aftur á héruðin sjálf að verulegu leyti, stofnkostnað eða rekstrarkostnað. Ég bendi á, að gert er ráð fyrir því í þessu frv., að héruðin greiði nokkurn hluta af rekstrarkostnaði þessara skóla, sem ekki hefur verið nú um sinn og með þeim sérkennilega hætti, að hvert sveitarfélag borgi fyrir nemendur úr því sveitarfélagi. Mér finnst nánast, að úr þessu verði allt að því ósæmilegt uppgjör, að þannig gangi reikningasendingar fram og aftur um landið gjörvallt, úr einu sveitarfélagi í annað, og minnir þetta óneitanlega nokkuð á fyrirkomulag í öðrum málaflokkum, sem voru þessu raunar alveg óskyldir, þegar sveitarfélögin urðu að senda reikninga sína á milli, öllum til leiðinda og stórkostlegs erfiðis og baga á margan hátt. Mér finnst þetta afar óviðkunnanleg aðferð og afleit og yfir höfuð finnst mér, að það ætti ekki að koma til að fara nú aftur að leggja hluta af þessum kostnaði á sveitarfélögin.

Þá vil ég enn til viðbótar minna á, að það stendur þannig á með Eiðaskóla t.d., sem er einn af þessum héraðsskólum, að hann er settur á fót með sérstökum samningi á milli Múlasýslu annars vegar og ríkisins hins vegar, og sá samningur var þannig, að þegar bændaskólinn var lagður niður á Eiðum, gáfu sýslurnar skólanum, þ.e.a.s. gerðu samning við ríkið um að afhenda ríkinu Eiðastól, sem kallaður var, þ.e.a.s. höfuðbólið Eiða með skólahúsnæði því, sem þá var þar, og Eiðastólsjörðum. Gerðu sýslurnar samning um að afhenda þessar eignir til ríkisins, en ríkið skuldbatt sig í staðinn til þess að halda uppi á sinn kostnað alþýðaskóla á Eiðum. Hygg ég, að þessi lagasetning, sem hér stendur til að fullgilda, fái ekki staðizt, að því er varðar Eiða, því að hún mun verða tvímælalaust brot á þessum samningi, sem gerður var. Vildi ég m.a. biðja þá, sem vilja taka að sér að flytja þau skilaboð, sem ég var að tala um, að vekja athygli hæstv. ráðh. á þessu. Ég vil einnig fara fram á, að n., sem fjallar um þetta mál, athugi þetta atriði sérstaklega á milli umr. Ég tel sem sé, að þetta muni ekki geta staðizt og sé verið að brigða þarna gerðum samningum. Ég vil vona, að þeir, sem áhuga hafa á þessum málum, sem munu vera margir, vilji nú fara í að ganga þarna á milli og ná betri samstöðu en enn er orðin um málið, og vil ég skora á alla þá hv. alþm., sem áhuga hafa fyrir því að fá einhverjar frekari breyt. á frv., að beita nú áhrifum sínum, til þess að þannig verði unnið að málinu.