17.04.1967
Neðri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

159. mál, skólakostnaður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst það ávinningur að fella á nú niður samkv. till. hæstv. menntmrh. kaflann um héraðsskólana, þar sem hugsunin var að láta sveitarfélögin fara að greiða hluta af rekstrarkostnaði þeirra. Ég tel þetta mikinn ávinning, en vegna þess að hæstv. ráðh. talaði um, að það ætti að skoða þetta mál betur í sumar, vil ég láta í ljós þá skoðun mína, að hans rök varðandi afstöðuna til Eiðaskóla fá ekki staðizt.

Hann hélt því fram, að samningurinn væri uppfylltur með því, að ríkið ræki áfram skóla á Eiðum eins og áður, og þar með væri samningurinn framkvæmdur, því að þrátt fyrir ákvæði þessa frv, ræki ríkið þarna áfram skóla.

En þetta finnst mér hæstv. ráðh. megi ekki segja, vegna þess að í samningnum og eldri l. stendur þar til viðbótar, að landssjóðurinn eigi að greiða að öllu leyti kostnaðinn við skólahaldið, og það er þetta ákvæði, sem ekki yrði haldið, ef breytt yrði til, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég vil, að þessi skilningur standi í þingtíðindunum alveg skýr af minni hendi, ef þessir lögfræðingar, sem hæstv. ráðh. var að tala um, fara að kíkja í þingtíðindin. Ég vil að þessi skilningur komi þar alveg greinilega fram, og hann sýnist mér vera sá eini rétti. Sem sagt, ég tel þetta mikinn ávinning, og við tökum brtt. um Eiða að sjálfsögðu til baka, skrifl. brtt., sem er hjá hæstv. forseta.