17.04.1967
Neðri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

159. mál, skólakostnaður

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur nú flutt skrifl. brtt. við þetta frv., sem breytir því verulega og fagna ég því, að svo skyldi nú takast til, eftir að d. var búin að fella till. frá okkur minni hl. alveg sams konar, að hann skuli þó á síðustu stundu flytja þessa till. Og till. er um það, að 14. gr. falli alfarið niður og auk þess tvær síðustu mgr. í 21. gr. M. ö. o., frv. snertir þá ekki ríkisskólana, sem nú eru. Þetta breytir óneitanlega miklu. En þar með er ekki, og langt frá því, fullnægt þeim óskum, sem við í minni hl. bárum fram, bæði í n. og með brtt. hér í hv. d. Þær voru miklu fleiri en snertir þetta, þó að auðvitað hafi þær verið misjafnlega veigamiklar. En ég tel, að það séu veigamiklar breytingar, sem þurfi að gera á þessu frv. enn, þrátt fyrir þetta og skal aðeins í stuttu máli drepa á þrennt, sem ég tel, að enn þurfi að breyta.

Það eru í fyrsta lagi ákvæðin í 7. gr. Í upphafi hennar stendur: „Ríkissjóður greiðir 50% áætlaðs stofnkostnaðar fullbúins kennslurýmis fyrir skóla, sem lög þessi taka til, og 85% af stofnkostnaði fullbúins heimavistarrýmis. Sameinist tvö eða fleiri núverandi sveitarfélög um heimavistarskóla skyldunáms o. s. frv., greiðir ríkissjóður allt heimavistarrýmið.“ Enn þá stendur eftir í frv. þessi regla, að ríkið á ekki að greiða nema helminginn af skólahúsnæðinu sjálfu og 85% af heimavistarrýminu. Það m.á segja, að þetta sé lítil breyting hvað snertir heimangönguskóla, vegna þess að ríkið greiðir þar núna 50% eins og þarna er gert ráð fyrir um skólarýmið, og þar er yfirleitt ekki um heimavist að ræða. En þetta snertir heimavistarskólana, bæði barnaskóla, heimavistargagnfræðaskóla og heimavistarhúsmæðraskóla. Ég gat þess og sýndi allgreinilega fram á það í framsöguræðu minni fyrir nál. minni hl., að þessi hlutföll geta orðið mjög óhagstæð sveitarfélögum frá því, sem nú er. Það veit að vísu enginn, hver hlutföllin eru nú milli heimavistarrýmis og skólarýmis. En þetta þurfa menn að vita, ef þeir eiga að geta borið þetta saman.

Nú fá allir heimavistarskólar, hvort sem það er barnaskóli, gagnfræðaskóli eða húsmæðraskóli greidd frá ríkissjóði 75% af öllum stofnkostnaði skólanna, bæði vegna heimavistar og skólarýmis. Í staðinn eiga að koma 50% af skólarýminu og 85% af heimavistarrýminu, því að þessi 100% regla, sem er í þessari gr., nær ekki nema til skyldunámsins. Ef héruðin eiga nú ekki að tapa á þessari breytingu hvað snertir stofnkostnaðinn, verður heimavistarrými að vera yfir 70% af heildarkostnaðinum til þess að það samsvari núverandi reglum um stofnkostnað. Og ég fullyrði, að það er ekki nálægt því. Það verður því tap fyrir þessi héruð frá því sem nú er, sem þurfa að byggja heimavistargagnfræðaskóla fyrir nemendur utan skyldunáms og heimavistarhúsmæðraskóla, alveg tvímælalaust tap. Þess vegna var það, sem við fluttum þá brtt., að 85% ákvæðið félli niður. Þetta er eitt atriðið, sem ég vil benda á, það stendur enn eftir í frv. Það verður að mínum dómi tvímælalaust tap frá því sem nú er fyrir, öll þau héruð, sem þurfa að reisa heimavistargagnfræðaskóla og heimavistarhúsmæðraskóla. Annað atriði, sem ég vil benda á og stendur enn óbreytt, er, að stofnkostnaðurinn á að skiptast eftir áætluðum stofnkostnaði, en ekki raunverulegum stofnkostnaði. Það hefur mikið verið gert að því að gylla það fyrir mönnum, að sveitarfélögin bara græði á þessu, vegna þess að ef byggt verði ódýrar en áætlunin hljóðar upp á, hljóti viðkomandi sveitarfélög afganginn. En hvaða líkur eru til, að byggt verði ódýrar? Hefur reynslan sýnt það yfirleitt, að byggingar hafi orðið ódýrari en áætlað hefur verið? Nei, þvert á móti hefur kostnaður oft orðið 50% eða jafnvel 75% hærri en áætlað var. Reynslan hefur orðið sú, að byggingarkostnaðurinn hefur jafnvel farið þetta fram úr áætlun, og þarf ekki að rekja mörg dæmi til að sýna fram á þetta. Hvað stoðar þá byggingarvísitala, þó að henni sé bætt ofan á? Allan afganginn, sem fram yfir áætlun er, eiga sveitarfélögin að borga. Og það er ríkisvaldið, sem endanlega gengur frá áætlununum, en ekki hinn aðilinn, sem á að borga. Þetta tel ég alveg óhafandi.

Eins og hæstv. ráðh. gat um réttilega, á að koma á allsherjarreglu um byggingarformin, svokölluð norm, sem gilda yfir allt landið, og eftir þeim normum á að setja þessar áætlanir. Það verður ekki nein séráætlun fyrir hvern skóla. Nei, það á að vera áætlun, sem á að gilda yfir allt landið. Þessi áætlun gæti kannske staðizt á einstaka stað, þó að hún fari öll út um þúfur á öðrum stað, þar sem dýrara er að byggja. Þannig getur eitt sveitarfélag sloppið sæmilega vel, en annað sveitarfélag afar illa og yrði að borga stórar upphæðir í stofnkostnað eitt, án þess að ríkissjóður tæki þátt í þeim umframkostnaði. Þetta er ákaflega varhugavert.

Síðasta atriðið, sem ég ætla að benda á, er hin margumtalaða 20. gr. Mönnum finnst það, sumum, sennilega alveg fullnægjandi, að í frv. stendur, að ríkissjóður greiði öll laun, bæði föst laun og stundakennslu, en það eru takmarkanir á því í 20. gr. Þurfi einhver skóli nauðsynlega á meiri vinnu, meiri kennslu og meiri þjónustu starfsfólks að halda en segir í þessari 20. gr., verða sveitarfélög hreinlega að borga afganginn. Og það er eins og það sé eitthvert trúaratriði, að ákvæðin í 20. gr. séu alveg óyggjandi, óbrigðul. Ég hef reynt að kynna mér þetta mál, og ég segi það alveg eins og það er, mér sýnist þau ekki vera óbrigðul, jafnvel þó að smávægilegar lagfæringar hafi nú verið gerðar á þessari gr. hér í þessari hv. d. Mér finnst þau ekkert óbrigðul. Það var þess vegna, sem við í minni hl. n. fluttum svohljóðandi brtt., með leyfi hæstv. forseta:

„Nú kemur í ljós, að reiknaðar stundir eru ekki nægjanlegar, að dómi rn., til að fullnægja námsskrá og þörfum hvers einstaks skóla fyrir nauðsynlega starfskrafta, miðað við starfstíma skóla, nemendafjölda, víxlkennslu og störf þau, sem nauðsynleg eru á þessu sviði, og skal þá fjölga reiknuðum stundum svo, að þessu marki verði náð.“

Við ætluðum með þessari mgr. að tryggja það, að ekki lenti á bæjar- eða sveitarfélögum sú umframvinna, sem verður að vinna þarna, fyrst áður er búið að segja í frv., að ríkið eigi að greiða þessi laun. En þessi till. var felld. Óvissan og öryggisleysið um það, að þessi reiknaði stundafjöldi nægi, er alveg eins enn.

Ég gat þess í minni framsöguræðu fyrir áliti minni hl., hvernig þetta hefði nú komið út í viðtölum við höfunda frv. í menntmn. Ég efast ekkert um, að þeir tveir menn, sem mættu hjá okkur, Aðalsteinn Eiríksson skólaeftirlitsmaður og Torfi Ásgeirsson, skrifstofustjóri í Efnahagsstofnuninni, eru einhverjir allra fróðustu mennirnir, sem við gátum fengið til þess að skýra gr. Annar, Torfi Ásgeirsson, hafði samið hana, hinn hefur langa reynslu sem skólaeftirlitsmaður, fyrst og fremst með skólakostnaði í landinu, og þeim bar ekki saman. Annar taldi, að það þyrfti tvímælalaust að breyta gr., og það stórvægilega. Hinn taldi, að þetta væri hreinn misskilningur. Og hvað skeður svo? Við fáum þá aftur á fund og biðjum þá að bera sig saman rækilega, koma til okkar næsta dag og koma þá með þær brtt., sem þeir legðu til, að yrðu gerðar, ef þeir sæju þörf á því. Jú. Þeir koma næsta dag á fund n., koma með brtt., sem er ofurlítil rýmkun, en aðalákvæðum gr. er ekki breytt. Þeir sögðu, að þarna hefði komið fram misskilningur á milli þeirra, þeir skildu ekki greinina. En þegar þeir skilja hana ekki, skiljum við hana þá? Það er svo mikið öryggisleysi í þessari gr., að ég tel nauðsynlegt að setja varnagla þarna við, eins og við gerðum með till. okkar, minni hl, n., en hún var felld, og þannig stendur þetta enn. Það, sem kom fram hjá þessum mönnum út af þessari gr. og reyndar fleirum, var, að ef þessi ákvæði frv. um skiptingu skólakostnaðarins ættu að standa eins og þau eru enn í frv. í öllum aðalatriðum, mundi hluti sveitarfélaga af rekstrarkostnaði húsmæðraskólanna hækka um 113%. Hvernig lagfærðu þeir þetta? Ekki með því að breyta neitt ákvæðunum í gr., heldur með því að bæta við nýrri mgr., sem segir:

„Sveitarfélögunum, sem standa að húsmæðraskólunum, er heimilt að fara eftir gömlu lögunum.“

Það var ekki hægt að breyta gr. eða kerfinu þannig, að þeir gætu látið húsmæðraskólana falla þar inn í. Á þessu sjá menn, hvað erfitt er að gera sér grein fyrir, hvernig þessi 20. gr. verkar. Það er svo erfitt, að þeir, sem kunnugastir eru, ég vil segja allra manna í landinu, þeir sjá þetta ekki fyrir. Samt ætlar Alþ. að afgreiða þetta án nokkurs öryggisákvæðis, eins og við vildum þó gera.

Ég hef hér drepið aðeins á þrjú ákvæði frv., sem eftir standa af þeim, sem við gerðum ágreining út af, en sleppi öllum minni háttar till. okkar til breytinga. Og ég vildi mælast til þess, að breytingar fengjust á þessum ákvæðum. Í fyrsta lagi, að 85% reglan um stofnkostnað gildi ekki. Í öðru lagi, að stofnkostnaður skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga eftir raunverulegum kostnaði, en ekki áætlunarkostnaði. Og í þriðja lagi, að bætt verði inn í 20. gr. ákvæði, sem útilokar það, að of fáar kennslustundir séu reiknaðar skólunum. Ég get reyndar endurtekið það enn, að einn af skólastjórum heimavistarskólanna, sem kom til okkar á fund, sagði, að ef þessar reglur í 20. gr., þ. á m. 70% reglan í niðurlagi gr., sem nú er orðin 80%, ættu að ganga í gegn, eins og þegar frv. var lagt fram, mundi föstum kennurum við skóla hans fækka um helming. Ég held, að það hefði verið betur ráðið, eins og ég lagði til í upphafi á fundum n., að þetta frv. hefði verið sent þeim aðilum úti á landinu, sem mest hafa þessi mál á sinni könnu. En engum var sent frv. til umsagnar.

Ég skal ekki lengja umr. meira, en ég taldi rétt að skýra það fyrir hv. þm., hverjar voru stærstu brtt., sem við vorum með. Sú langstærsta er að vísu horfin, þar eða hæstv. ráðh. hefur tekið hana til greina. En þær eru þarna æðistórar þrjár, sem ég vildi nefna og eru eftir enn.