18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

159. mál, skólakostnaður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Í sambandi við það mál, sem hér er til umr., frv. til l. um skólakostnað, vildi ég segja nokkur orð um vinnubrögð hér á hv. Alþ. og málsmeðferð alla. Það er öllum hv. alþm. kunnugt, að núna síðustu daga þings hefur hvert stórmálið rekið annað, sem hafa verið knúin í gegn á óeðlilega skömmum tíma, án þess að Alþ. gæfist kostur á að fjalla um flókin löggjafarmálefni, sem eðlilegur er og nauðsyn ber til. Því miður er þetta ekki alveg ný bóla, að þannig lendi allt í hnút undir þinglok, en mér virðist, að þetta fari svo að segja árversnandi. Ég minnist þess, að þannig var statt undir þinglok í hitteðfyrra, að þá var rekið fast á eftir því, að hvert stórmálið á fætur öðru væri afgreitt með hraði og varla hægt að gefa þn. svo að segja nokkurt tóm til þess að kanna málin. Þetta var dálítið skárra á síðasta þingi, undir lokin á síðasta þingi, en nú virðist mér, að raunar keyri alveg úr hófi. Ég vil minna á það, að þessa allra síðustu daga þingsins hafa svo viðamikil mál verið til meðferðar eins og vegáætlunin, sem verið var að afgreiða nú í Sþ., eins og hafnarlög, eins og orkulög og síðast, en ekki sízt sú löggjöf, sem hér er til umr., ný löggjöf um skólakostnað.

Ég vil leggja á það áherzlu, að ég tel þessi vinnubrögð afar varhugaverð og raunar fyllilega ámælisvert, að þegar um er að ræða viðamikil mál, sem snerta fjölda fólks og fjölda stofnana sveitarfélaga um land allt, skuli Alþ. ekki gefast tóm til þess að fjalla um slík mál með eðlilegum og ég vil segja þinglegum hætti: Það eru hinar venjulegu aðferðir við könnun þingmála hér á Alþ., að eftir að þau hafa verið rædd við 1. umr., eru þau send til n. N. taka síðan til starfa og byrja gjarnan á því að senda málin, jafnvel hversu einföld og smá sem þau eru, til umsagnar hinna og þessara aðila, sem málið snertir eða kunnugir eiga að vera, og þetta er vissulega góð regla og er alveg sérstaklega ástæða til að fylgja henni, þegar um viðamikil mál og margþætt og flókin er að ræða. Í sambandi við meðferð þessa máls hefur því miður ekki verið hægt að hafa slíkan hátt á. Ef ég man rétt, var þetta frv. að vísu lagt fram skömmu áður en alþm. fóru í páskaleyfi, en raupverulega hefur það ekki verið til meðferðar hér í hinu háa Alþ. nema í mjög skamman tíma, og eins og hv. dm. hér vita, var það ekki fyrr en síðdegis í gær, sem þetta veigamikla mál kom hingað til d., eða raunar ekki fyrr heldur en í gærkvöld, að 1. umr. fór fram. Síðan var nefndarfundur haldinn, .stuttur, um þetta mál um miðnætti s.l. nótt. Ég sótti ekki þann fund og ég vil nota þetta tækifæri til þess að mótmæla alveg sérstaklega þeim vinnubrögðum, sem höfð eru í sambandi við jafnviðamikið og sérhæft mál og þetta.

Ég mun ekki fara langt út í þá sálma að ræða um einstök atriði þessa frv. Mér sýnist, að það sé tvímælalaust eitt og annað til bóta, en sitthvað vafalaust það hæpið, að full ástæða hefði verið til, að tóm hefði gefizt til þess að athuga þá hluti betur. Þetta mál hefur þegar. tekið mjög verulegum breytingum í hv. Nd., og eftir því sem mér sýnist, eru þær flestar til bóta, en þessari hv. d. hefur í rauninni ekki gefizt neinn kostur á að fjalla um þetta mál með eðlilegum hætti. Þegar málið var lagt fram og enginn skriður sérstakur var á þessu máli, datt mér ekki annað í hug en hér væri verið, eins og mjög algengt er með veigamikil frv., að kynna þetta mál, sýna það fyrir þinglok, til þess að hægt yrði að athuga það nánar, áður heldur en nýtt Alþ. kæmi saman, sem síðan ætti að fjalla um þessa löggjöf. En það reyndist nú ekki vera, og nú alveg að þinglokum er lagt á það ofurkapp að knýja þetta mál fram. Ég vil af þessu sérstaka tilefni vekja athygli á því, að það virðist vera sívaxandi tilhneiging hjá hæstv. ráðh. til þess að láta Alþ. afgreiða flókin stórmál á síðustu dögum þinga. Þessi aðferð er vissulega óheppileg og hún er meira að segja hættuleg. Hún er að mínu viti sérstaklega hættuleg sjálfu Alþ. og virðingu þess. Ég vil af þessu sérstaka tilefni beina því til hæstv. ríkisstj., og það mætti þá verða einnig til athugunar fyrir komandi ríkisstj., að það er óráð að halda áfram á þessari braut. Það getur að sjálfsögðu alltaf átt sér stað með eitt og eitt mál, sem nauðsyn ber til eða þykir bera til að samþykkja og láta hafa forgang, e. t. v. á síðustu dögum þings. Það kann að standa þannig á með eitt og eitt mál, en hitt er óhæfa, að þannig skuli vera ástatt um fjölda stórmála, að þau geti í rauninni ekki fengið þinglega meðferð. Slík þróun mála, sem hefur því miður orðið meir og meir áberandi nú hin síðari ár, er vissulega til þess fallin að útbreiða þá skoðun, að Alþ. sé í rauninni alltaf að verða valdaminni og valdaminni stofnun, og með því að þola slík vinnubrögð eins og þessi mótmælalaust, er ég smeykur um, að Alþ. glati smám saman þeim sessi og þeim áhrifum, sem það getur haft og á að hafa sem löggjafarstofnun. Ég óttast, að það kunni að glata áliti og virðingu, ef þannig verður áfram haldið að gefa alþm. ekki kost á að fjalla um stórmál með eðlilegum hætti. Ég tel fullkomlega tímabært og alveg nauðsynlegt, að á þetta sé bent og þetta sé sérstaklega undirstrikað í sambandi við meðferð þessa máls. Um einstök efnisatriði þess ætla ég svo ekki að ræða.