21.03.1967
Efri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

170. mál, stjórnarskipunarlög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Á samkomum Alþfl. undanfarin ár og á tveimur síðustu flokksþingum hans hafa verið gerðar mjög ákveðnar og skorinorðar ályktanir þess efnis, að flokkurinn beitti sér fyrir því, að lækkaður yrði kosningaaldurinn úr 21 ári í 18 ár. Það var á grundvelli þessarar samþykktar, sem Alþfl. menn fluttu þáltill. þá, sem varð til þess, að sú mþn., sem frv. þetta samdi, hóf störf sín, og telur Alþfl. ástæðu til að fagna þeim áfanga, sem með frv. þessu er náð til móts við till. hans, og þrátt fyrir það að flokkurinn telji, að of skammt sé gengið til móts við þessar till., telur hann þennan áfanga svo mikilsverðan, að hann vill, eins og framkoma þessa frv, ber með sér, stuðla að því, að þetta frv. nái fram að ganga óbreytt, eins og það birtist á þskj.