13.04.1967
Efri deild: 63. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

170. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál að þessu sinni. Ég hef í nál. minni hl. heilbr.- og félmn. gert nokkuð ýtarlega grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. til stjórnarskipunarlaga og fjölyrði því ekki um það nú.

Það er lagt til í frv. að lækka kosningaaldur um eitt ár, úr 21 ári niður í 20 ár. Hins vegar hefur löngum verið um það rætt að undanförnu að lækka kosningaaldur niður í 18 ár. Um það hafa margs konar samtök hér á landi gert samþykktir og m. a. sjálfur Alþfl. á þingi sínu 1963. Þá var honum gert að skyldu að beita sér fyrir því, að kosningaaldur yrði lækkaður niður í 18 ár. Nú hefur Alþfl. og aðrir þeir, sem vilja lækkun niður í 18 ár, sýnilega orðið fyrir andstöðu í þessu máli. Einhver öfl hafa verið því andvíg að lækka kosningaaldurinn. Útkoman, lækkun um eitt ár, er málamiðlun milli þessara afla. En mig langar sérstaklega til þess að benda þeim mönnum, sem í hjarta sínu eru fylgjandi lækkun kosningaaldurs í 18 ár, á það, að vafasamur og meira en vafasamur vinningur er að ganga inn á þessa málamiðlun. Ég hygg, að það hefði verið skynsamlegra af þeim, sem berjast fyrir lækkun í 18 ár, að ganga ekki inn á málamiðlun, láta heldur stranda á þessari kröfu að þessu sinni. Ég þykist þess fullviss, að málstað þeirra, sem vilja lækkun í 18 ár, muni á næstu árum eiga vaxandi fylgi að fagna. En einmitt það að breyta stjórnarskránni nú og aðeins um eitt ár torveldar áreiðanlega að fá fram í náinni framtíð frekari breytingu í þessu efni á stjórnarskránni. Stjórnarskrárbreyting er alltaf mikið fyrirtæki, og það þarf helzt mjög almenna samstöðu, til þess að hún fáist, og ég efast um, að þessi lækkun verði til annars en tefja fyrir framgangi málsins, að kosningarrétturinn verði það mikið rýmkaður, að 18 ára menn og eldri fái að kjósa til Alþingis. Þetta sjónarmið er ekki hvað sízt þess valdandi, að ég legg nú til, að ákvæðinu verði breytt, ákvæði frv. um, að 20 ára kosningaaldur skuli gilda í stjórnarskránni, verði fært niður í 18 ár. Ég hefði talið miklu æskilegra, ef ekki gat orðið samkomulag nú um fulla lækkun, að fara þá aðra leið en hér er gert, m. ö. o. binda ekki í stjórnarskránni aldurstakmarkið, heldur hafa það að einhverju leyti opið að breyta aldurstakmarkinu síðar með lögum án stjórnarskrárbreytingar. Og ef þessi till. mín um lækkun í 18 ár verður felld hér í hv. d., mun ég við 3. umr. bera fram brtt. þess efnis, að unnt verði með lögum síðar að lækka allt niður í 18 ár, eftir því sem þá skipast til og menn kunna að óska.