24.11.1966
Neðri deild: 19. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

26. mál, sala Lækjarbæjar

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar og afgreiðslu frv. á þskj. 26. Landbn. mælir með því, að þetta frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem n. leggur til, að á því verði gjörð, og er brtt. n. prentuð á þskj. 71.

Þetta frv. felur í sér að heimila ríkisstj. að selja Fremri-Torfustaðahreppi í Vestur-Húnavatnssýslu eyðijörðina Lækjarbæ í sama hreppi, og er það ætlan hreppsbúa að leggja land þessarar jarðar undir afrétt. N. sendi þetta mál til umsagnar bæði landnámsstjóra og jarðeignádeildar ríkisins og kemur fram í umsögnum þeirra, að þeir telja engar líkur á, að þessi jörð byggist aftur og mæla því með því, að þetta frv. verði samþ. Það er eftir ábendingum frá jarðeignadeildinni, sem n. flytur brtt., en breyt. er í því fólgin, að við leggjum til, að bætt verði við 2. mgr. 1. gr. orðunum „eða hlunnindi, sem henni fylgja“. Að vísu má segja, að þetta sé e. t. v. óþarft að gera, því að þetta felist í orðalagi frv. sjálfs, að það sé óheimilt að selja veiðirétt jarðarinnar, en þau hlunnindi, sem hér er um að ræða, eru einmitt veiðiréttur í Vesturá. En brtt. tekur af öll tvímæli um þetta atriði.

Eins og ég sagði, leggur n. til, að frv. verði samþ. með áminnztri breyt.